Fréttatilkynning frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitu
'}}

Meirihluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu til aðalfundar um arðgreiðslu til eigenda að upphæð 750 milljónir króna. Tillagan verður tekin fyrir á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn verður í Iðnó kl. 12:30 í dag.

Tveir fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórninni, borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, greiddu atkvæði gegn tillögunni þar sem þau telja að hún brjóti í bága við þau arðgreiðsluskilyrði sem eigendur fyrirtækisins hafa sett því. Er ljóst að vegna bágs fjárhags Reykjavíkurborgar leggur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hart að stjórn Orkuveitunnar að inna umrædda arðgreiðslu af hendi, þótt það þýði að víkja þurfi frá gildandi arðgreiðsluskilyrðum. Eru slík vinnubrögð að sjálfsögðu með öllu óviðunandi.

Kjartan og Áslaug lögðu fram eftirfarandi bókun um málið:

Bókun Kjartans Magnússonar og Áslaugar Friðriksdóttur vegna arðgreiðslutillögu:

,,Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa sett arðgreiðsluskilyrði fyrir félagið þar sem m.a. kemur fram að veltufjárhlutfall skuli vera yfir 1,0. Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi fyrirtækisins er veltufjárhlutfallið undir þessum mörkum eða 0,8. Þegar aðalfundur tekur ákvörðun um arðgreiðslu er augljóst að miða ber við síðasta ársreikning enda er arður ávallt greiddur af hagnaði síðasta árs og það sem félagið kann að eiga í lausum sjóðum í lok þess. Samkvæmt verkferli fjármála, ber að athuga stöðu arðgreiðslumælikvarða þegar ársreikningur fyrirtækisins liggur fyrir og er því ljóst að miða ber við ársreikninginn í þessu sambandi. Það er því mjög óeðlilegt að stjórn Orkuveitunnar samþykki nú tillögu til aðalfundar um arðgreiðslu vegna ársins 2016 þegar mikilvægu arðgreiðsluskilyrði, sem eigendur félagsins hafa sett því, hefur ekki verið fullnægt. Tillagan hefur verið unnin í miklum flýti eins og meðferð málsins ber með sér og eru slík vinnubrögð óviðunandi í ljósi mikilvægis þess."

Fulltrúi Akraness sat hjá við afgreiðslu málsins og vísaði til þess í bókun að samkvæmt ársreikningi 2016 væri arðgreiðsluviðmiðum ekki náð.