Ólöf Nordal fallin frá
'}}

Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins, alþingismaður og fyrrverandi innanríkisráðherra lést á Landspítalanum í morgun, miðvikudaginn 8. febrúar. Ólöf var einn af helstu forystumönnum íslenskra stjórnmála og hafði afgerandi áhrif á stefnu og störf Sjálfstæðisflokksins.  Hún var farsæll stjórnmálamaður sem naut mikillar virðingar og vinsælda langt út fyrir raðir sjálfstæðismanna.  Til þess er tekið hversu gott samstarf hún átti við pólitíska mótherja.

Heill Íslands vakti fyrir Ólöfu í öllum störfum hennar. Hún var ötull talsmaður sjálfstæðisstefnunnar og óþreytandi vann hún að framgangi Sjálfstæðisflokksins.  Síðast í kosningabaráttunni síðastliðið haust lagði Ólöf nótt við dag svo árangur flokksins yrði sem mestur.  Fyrir hennar ómetanlega framlag í gegnum árin fær Sjálfstæðisflokkurinn aldrei fullþakkað.

Ólöf var fimmtug að aldri, fæddist í Reykjavík hinn 3. desember 1966.  Ólöf lætur eftir sig eiginmann, Tómas Má Sigurðsson forstjóra, og fjögur börn, Sigurð, Jóhannes, Herdísi og Dóru.  For­eldr­ar Ólafar eru Jó­hann­es Nor­dal fyrrverandi seðlabanka­stjóri og Dóra Guðjóns­dótt­ir Nordal pí­anó­leik­ari og hús­freyja.  Hún var næstyngst sex systkina, hin eru Bera, Sig­urður, Guðrún, Sal­vör og Marta.

Ólöf lauk stúdentsprófi frá MR, lögfræðiprófi frá HÍ og MBA-prófi frá HR.

Áhugi Ólafar á stjórnmálum vaknaði snemma og tók hún þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins.  Hún stofnaði og var formaður sjálfstæðiskvennafélagsins Auðar á Austurlandi.  Hún var kjörin á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi vorið 2007 og Reykjavíkurkjördæmi suður árið 2009.  Hún gaf ekki kost á sér fyrir alþingiskosningarnar 2013 en var oddviti flokksins í Reykjavík í kosningunum 2016.

Ólöf Nordal var kjör­in vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins árið 2010 og gegndi embættinu til árs­ins 2013. Hún var aftur kjörin varaformaður flokksins árið 2015. Árið 2014 tók hún við embætti innanríkisráðherra sem hún gegndi þar til 11. janúar 2017.

Á þingi sat hún í allsherjarnefnd 2007–2010, sem varaformaður samgöngunefndar 2007–2009, umhverfisnefnd 2007–2009, fjárlaganefnd 2009–2010, kjörbréfanefnd 2009–2011, sérnefnd um stjórnarskrármál 2010–2011, utanríkismálanefnd 2010–2011, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2011–2013 og 2017 og velferðarnefnd 2017.

Ólöf var deildarstjóri í samgönguráðuneyti árin 1996–1999, lögfræðingur hjá Verðbréfaþingi Íslands 1999–2001, stundakennari í lögfræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst 1999–2002 og deildarstjóri viðskiptalögfræðideildar Viðskiptaháskólans á Bifröst 2001–2002.  Hún var yfirmaður heildsöluviðskipta hjá Landsvirkjun 2002–2004, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá RARIK 2004–2005 er rafmagnssala var tekin inn í sérstakt fyrirtæki, Orkusöluna, og framkvæmdastjóri Orkusölunnar 2005–2006. Ólöf var formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands 2013–2014.

Sjálfstæðisflokkurinn kveður varaformann sinn með trega.

Minningarorð um Ólöfu Nordal.