Íslenskum ríkisborgurum sem hafa verið búsettir erlendis lengur en átta ár gert kleift að kjósa
'}}

Innanríkisráðuneytið vill vekja athygli á að með breytingu á lögum um kosningar til Alþingis hefur íslenskum ríkisborgurum, sem búsettir hafa verið erlendis lengur en átta ár og sem sóttu ekki um að verða teknir á kjörskrá fyrir 1. desember 2015, verið gert kleift að kjósa í komandi alþingiskosningum.

Umsókn íslensks ríkisborgara um að vera tekinn á kjörskrá á grundvelli þessarar heimildar þarf að hafa borist Þjóðskrá Íslands í síðasta lagi fimmtudaginn 29. september 2016. Umsóknareyðublöð er að finna á vef Þjóðskrár Íslands á slóðinni www.skra.is.

Þeir sem sent höfðu umsókn til Þjóðskrár Íslands eftir 1. desember 2015 þurfa ekki að sækja sérstaklega um aftur. Þeir verða nú teknir á kjörskrá samkvæmt lagabreytingunni og mun Þjóðskrá Íslands tilkynna viðkomandi það sérstaklega, sem og hlutaðeigandi sveitarstjórn.

Sjá nánar lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 og bráðabirgðaákvæði um breytingu á þeim lögum nr. 91/2016.