Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að nýjum lyfjum sé hafnað vegna fjárskorts. Vegna þessa, auk annars sem fram kemur í fréttinni, vill lyfjagreiðslunefnd koma eftirfarandi á framfæri.
Á fjárlögum er ákveðið hve miklu fé verði varið til lyfjakaupa af hálfu hins opinbera. Í upphafi þessa árs lá fyrir að ekki væri svigrúm til innleiðingar nýrra lyfja. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra ákvað þá að flytja 100 milljónir króna af safnlið ráðuneytisins til að greiða fyrir innleiðingu nýrra lyfja. Til viðbótar samþykkti ríkisstjórnin að leggja aukið fé til málaflokksins. Markmiðið var að gera kleift að innleiða öll þau lyf sem sett höfðu verið á forgangslista af hálfu Landspítalans.
Í kjölfar þessara ákvarðana um viðbótarfjármagn hefur lyfjagreiðslunefnd samþykkt á þessu ári leyfisskyldu í 21 nýju lyfi og er þá búið að samþykkja leyfisskyldu í flestum lyfjum á forgangslista LSH. Áætlaður kostnaður vegna þeirra er 474 milljónir kr. á þessu ári og 706 miljónir kr. á næsta ári. Með leyfisskyldum lyfjum er átt við þau lyf sem eingöngu eru notuð í samræmi við klínískar leiðbeiningar og eru jafnan kostnaðarsöm og vandmeðfarin.
Lyfjagreiðslunefnd hefur auk þess samþykkt 16 umsóknir um einstaklingsbundna greiðsluþátttöku í S-merktum lyfjum (sjúkrahúslyfjum) og áætlaður kostnaður vegna þeirra er 121 milljón kr. á þessu ári. Í flestum tilvikum er um að ræða sjúklinga sem um gildir að aðrar meðferðir hafa verið reyndar án árangurs og engin önnur meðferðarúrræði til staðar.
Lyfjagreiðslunefnd tekur ákvörðun um leyfisskyldu lyfja og forgangsröðun lyfja í samráði við sérfræðinga frá Landspítalanum og Sjúkratryggingum Íslands en jafnframt er almennt tekið mið af innleiðingu lyfjanna á hinum Norðurlöndunum. Að ósk heilbrigðisráðherra er leitast við að innleiðing og heildarnotkun S-merkta og leyfisskyldra lyfja sé sambærileg á Íslandi og á Norðurlöndunum.
Til viðbótar framangreindu er nú einnig veitt meðferð við lifrarbólgu C. Sú meðferð er miklu umfangsmeiri en á nokkru Norðurlandanna og hinu opinbera að mestu að kostnaðarlausu hvað varðar lyfin sjálf.
Enda þótt ekki sé unnt á þessu ári að taka í notkun öll ný lyf sem óskað er eftir, er það mat lyfjagreiðslunefndar að mikilvægir áfangar hafi náðst á árinu og að staðan hér á landi sé um flest sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndunum.
Eftirfarandi frétt birtist á vefsíðu Lyfjagreiðslunefndar í dag.