Í gær tilkynnti lánshæfismatsfyrirtækið Moody's Investor Service að ákveðið hefði verið að hækka lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um tvö þrep, úr Baa2 í A3, með stöðugum horfum. Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kemur m.a. fram að svo mikil hækkun í einu lagi sé sjaldgæf en Moody's segir að hækkunin endurspegli hraðan og víðtækan framgang í endurreisn Íslands eftir fall bankakerfisins haustið 2008.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið á í reglubundin samskipti við lánshæfisfyrirtækin, þ.á.m. Moody's, þar sem farið er yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum og lagt mat á þann árangur sem áunnist hefur og þau úrlausnarefni sem takast þarf á við. Ráðuneytið telur að árangur í ýmsum samverkandi viðfangsefnum hafi stuðlað að bættu lánshæfismati. Á hemasíðu ráðuneytisins eru eftirfarandi atriði nefnd í því sambandi:
- Viðsnúningur er orðinn í rekstri ríkissjóðs: Tekist hefur að vinda ofan af stórfelldum hallarekstri í kjölfar bankahrunsins og snúa afkomunni í traustan afgang, sem í ár nemur nálægt 3% í frumjöfnuði og um 0,5% í heildarjöfnuði.
- Viðsnúningur er orðinn í skuldastöðu ríkissjóðs: Brúttóskuldir ríkissjóðs fóru í um 85% af VLF árið 2011 en þegar á þessu ári hefur tekist að lækka þá skuldastöðu niður í um 50%. Áætlað er að brúttóskuldastaðan muni lækka niður í 38% á einungis þremur árum fram til ársins 2019. Á sama tímabili er gert ráð fyrir að náð verði settu skuldamarkmiði til langframa samkvæmt þeirri skuldareglu sem kveðið er á um í nýjum lögum um opinber fjármál, þ.e. að skuldir hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, að frádregnum peningalegum innistæðum verði undir 30% af VLF.
- Samkomulag við slitabú fallinna fjármálafyrirtækja á liðnu ári fól í sér að til ríkissjóðs féllu miklar fjármunaeignir sem samkvæmt lögum verða nýttar til að lækka beinar skuldir og lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs.
- Í upphafi þessa árs tóku gildi ný lög sem miða að því að efla stefnumörkun um opinber fjármál til lengri tíma litið og styrkja alla umgjörð um áætlanagerð í ríkisfjármálum. Á grundvelli þeirrar lagasetningar lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram í vor fyrstu þingsályktanirnar um fjármálastefnu og fjármálaáætlun til fimm ára þar sem sett eru fram skýrt útfærð áform um hvernig skuldir verði lækkaðar og svigrúm nýtt til raunhæfrar uppbyggingar á helstu þjónustu- og stuðningskerfum ríkisins og til að byggja upp innviði í landinu. Eftir sem áður verði gætt aðhalds og forsjálni þannig að afgangur á heildarafkomu verði 1% af VLF næstu fimm árin. Báðar þingsályktanirnar voru samþykktar á Alþingi í ágúst sl.
Tilkynningun ráðuneytisins má lesa hér.
Í tilkynningu Seðlabanka Íslands vegna ákvörðunar Moody's kemur meðal annars fram að hækkun um tvö þrep endurspegli m.a. bata þjóðarbúskaparins eftir bankakreppuna 2008. Tilkynningu Seðlabankans má lesa hér.
Lánshæfismat gegnir mikilvægu hlutverki á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Matsfyrirtækin veita lántakendum á mörkuðum lánshæfiseinkunn sem hefur mikil áhrif á lánskjör þeirra. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs setur auk þess nokkurs konar þak á lánshæfi annarra íslenskra lántaka. Það eru því fagnaðarefni og gríðarlega jákvætt að Moody's hafi séð ástæðu til að hækka einkunnina.