Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu á fundi borgarráðs í dag yfir þeim miklu áhyggjum sem þeir hafa af stöðu og rekstri Reykjavíkurborgar, en eins og fram hefur komið á helstu fréttamiðlum í dag sýnir rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar á síðasta ári fimm milljarða halla. Fjárhagsáætlun borgarinnar gerði ráð fyrir 7,3 milljarða króna afgangi og er því ljóst að áætlunin skeikaði um 12,3 milljarða króna.
"Af hverju eru sumar fréttir um 5 milljarða tap og aðrar um 13,6 milljarða tap? Jú vegna þess að meirihluti Pírata, Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og Vinstri grænna sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem talað er um samstæðu (borgarsjóð og fyrirtækja) en við borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fjöllum um stöðu borgarsjóðs (A hluta) sem er allur rekstur borgarinnar sem rekinn er fyrir skattfé. Þar er 13,6 milljarða tap og skuldaaukning um 16,2 milljarða kr. á einu ári og bætist við taprekstur og skuldaaukningu alveg frá 2010 þegar Dagur og Jón Gnarr tóku við stjórn borgarinnar," segir Halldór Halldórsson, oddviti borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag.
"Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2015, sem birtur var í dag, staðfestir að rekstur Reykjavíkurborgar er í algerum ólestri undir stjórn meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænn," segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins um rekstrarniðurstöðu borgarinnar á Facebook í dag.
Bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í heild sinni:
„Sem fyrr lýsa borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins yfir miklum áhyggjum af rekstri Reykjavíkurborgar sem hefur verið í algjörum ólestri allt þetta kjörtímabil sem og kjörtímabilið 2010-2014 í höndum Samfylkingar og Besta flokksins. Rekstrarniðurstaðan er tap upp á 13,6 milljarða kr. A hluta er sláandi og þótt stór hluti þess sé einskiptis gjaldfærsla vegna hækkunar lífeyrisskuldbindinga er hinn almenni rekstur ekki í lagi séu þessar hækkanir dregnar frá en þá væri tapreksturinn 1,3 milljarðar kr.
Sést þetta enn betur með því að skoða veltufé frá rekstri sem segir hversu miklu fjármagni reksturinn skilar til fjárfestinga og greiðslu skulda. Veltufé frá rekstri er 5,7% af tekjum ársins en þyrfti að vera a.m.k. 9% þannig að reksturinn er langt frá því að skila nauðsynlegu framlagi. Niðurstaðan er enn eitt taprekstrarárið hjá núverandi meirihluta og forvera hans. Skuldaaukning A-hluta er 16,2 milljarðar kr. milli áranna 2014 og 2015.“