Ríkisstjórnarsamstarfið endurnýjað
'}}

Ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks heldur áfram eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum fyrir stundu. Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, tekur við keflinu, en framsóknarmenn gerðu þær breytingar aðrar á ráðherraliði sínu að Lilja Alfreðsdóttir er utanríkisráðherra, en Gunnar Bragi Sveinsson tekur við landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti.

Ráðuneyti Sigurðar Inga fylgir eftir sem áður fyrri málefnasamningi flokkanna, en hugað verður að forgangsröð helstu og brýnustu verkefna. Þar er haftalosunin fremst í flokki, enda um gríðarlegt hagsmunamál fyrir land og þjóð að ræða, sem ekki má fyrir nokkurn mun setja úr skorðum. Gangi þær fyrirætlanir eftir er miðað við að gengið verði til kosninga með haustinu.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að atburðarásin undanfarna daga hafi verið óvænt og hröð. Markmið sitt hafi verið að eyða óvissu og gæta þess að traust og trúverðugleiki landsins færi ekki út í veður og vind. Það hafi tekist. Um leið hafi það ekki síst vakað fyrir mönnum að koma í veg fyrir að mikilvæg mál færu að sporinu, mál sem vörðuðu tröllaukna þjóðarhagsmuni.
„Ég get ekki nógsamlega undirstrikað mikilvægi þess að áætlun okkar um losun fjármagnshafta gangi eftir án truflana,“ segir Bjarni. „Við viljum og verðum að klára málið.“