Guðbjörg Oddný Jónasdóttir

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði
Guðbjörg Oddný vill fara á þing fyrir ungt fjölskyldufólk

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði, sækist eftir 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Guðbjörg Oddný er fædd 5. febrúar 1985 og er gift Gísla Má Gíslasyni, hagfræðingi og eiga þau þrjú börn.

„MIikilvægt er að hugað sé vel að einstaklingunum, frelsi þeirra og frumkvæði. Ég tala fyrir því að umgjörðin í málefnum barna virki þeim til heilla. Ég brenn fyrir framþróun í menntamálum og nýsköpun í kennsluháttum. Einnig þarf að gera ungu fólki auðveldara að eignast sitt eigið húsnæði.“

„Það vantar fulltrúa ungs fjölskyldufólks á Alþingi; fulltrúa þeirra sem eru allt í senn að ala upp börn, koma sér upp heimili og skapa sér starfsvettvang. Framtíð barnanna okkar er framtíð þjóðarinnar.“

Guðbjörg Oddný skipaði 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði í sveitarstjórnarkosningunum árið 2008 og varð þar fyrsti varabæjarfulltrúi flokksins. Hún hefur setið í fjölskylduráði, fræðsluráði og sem formaður menningar- og ferðamálanefndar. Guðbjörg er einnig fulltrúi bæjarins í stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar.

Guðbjörg Oddný hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðustu 12 ár og hefur meðal annars setið í stjórn Stefnis, félags ungra Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði og stjórn Fram, Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar, sem varaformaður. Hún situr núna í stjórn fulltrúaráðsins í Hafnarfirði og í framkvæmdastjórn Landssambands Sjálfstæðiskvenna.

Guðbjörg Oddný starfar einnig sem upplýsingastjóri og aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjá Benchmark Genetics.