12. janúar 2026

Sturla Böðvarsson er látinn áttræður að aldri

Sturla Böðvarsson fyrrverandi forseti Alþingis, ráðherra, alþingismaður og bæjarstjóri er látinn áttræður að aldri.

Sturla fæddist í Ólafsvík 23. nóvember 1945 og lést 10. janúar sl. Hann helgaði stærstan hluta ævi sinnar stjórnmálum, störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Sjálfstæðisstefnuna.

Sturla lauk gagnfræðiprófi frá Skógaskóla árið 1961, sveinsprófi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1966 og öðlaðist réttindi húsasmíðameistara. Þá lauk hann raungreinaprófi frá Tækniskóla Íslands 1970 og B.Sc.-prófi í byggingatæknifræði frá Tækniskóla Íslands árið 1973.

Árið 1974 var hann ráðinn sveitarstjóri og síðar bæjarstjóri í Stykkishólmi og starfaði þar til ársins 1991 þegar hann tók sæti á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vesturlandskjördæmi. Hann sat eftir það óslitið á þingi til ársins 2009, síðast sem oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi. Áður en hann tók fast sæti á þingi tók hann sæti sem varaþingmaður allnokkrum sinnum á árunum 1984-1987.

Frá 1999 til 2007 var hann samgönguráðherra og forseti Alþingis á árunum 2007-2009.

Eftir að þingstörfum lauk var hann framkvæmdastjóri Þróunarfélags Snæfellinga 2011-2014 og tók þá að nýju við starfi bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar frá 2014-2018.

Á löngum og farsælum ferli í stjórnmálum gegndi Sturla jafnframt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum. Á Alþingi sat hann m.a. í fjárlaganefnd 1991-1999, samgöngunefnd 1991-1995 og 2009 og í Íslandsdeild Norðurlandsráðs 1995-1999. Hann sat í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 1967-1971, í stjórn sjúkrahúss St. Franciskureglunnar og heilsugæslustöðvar Stykkishólms 1975-1999, í fulltrúaráði Sambands íslenskra sveitarfélaga 1978-1990. Hann var formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Snæfellsnesi 1981-1983, formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 1981-1982. Í Hafnarráði ríkisins 1986-1999, í húsafriðunarnefnd ríkisins 1987-1995 og formaður Hafnarsambands sveitarfélaga 1988-1994. Hann sat í stjórn Íslenska járnblendifélagsins 1992-1998. Þá sat hann í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins um árabil. Sturla var formaður þjóðminjaráðs 1994-1998 og formaður bygginganefndar Þjóðminjasafns Íslands á sama tíma. Hann var formaður nefndar um stofnun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Sturla sat í stjórn Landsvirkjunar 1995-1997 og í stjórn Rariks 1997-1999. Þá sat hann á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1998.

Í viðtali sem tekið var við Sturlu í tilefni af 95 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins árið 2024 rekur Sturla vel sinn pólitíska feril  sem spannaði hálfa öld – hægt er að nálgast viðtalið hér og á spilara neðst í fréttinni.

Það er óhætt að segja að Sturla hafi verið vakinn og sofinn yfir samfélagi sínu sem hann þjónaði í hálfa öld. Hann var óskoraður leiðtogi síns sveitarfélags í Stykkishólmi og til marks um það fékk flokkurinn 70% atkvæða í kosningunum 1990 eftir að hann hafði verið þar bæjarstjóri frá 1974. Hann átti jafnframt afar farsælan feril á þingi sem leiðtogi flokksins í Vesturlands- og síðar Norðvesturkjördæmi. Sem samgönguráðherra lagði hann fram fyrstu samgönguáætlunina sem og fyrstu fjarskipta- og ferðamálaáætlunina. Hann var jafnframt sá ráðherra sem réði fyrsta kvenráðuneytisstjórann til starfa í Stjórnarráði Íslands.

Sturla vann alla tíð ötullega að framgangi Sjálfstæðisstefnunnar til hagsbóta fyrir landsmenn alla. Hann var traustur, prúður í háttsemi, vinnusamur og fylginn sér í þeim verkum sem hann vann að.

Eftirlifandi eiginkona Sturlu er Hallgerður Gunnarsdóttir lögfræðingur. Þeirra börn eru Gunnar, Elínborg, Ásthildur, Böðvar og Sigríður Erla. Barnabörnin eru 12.

Skrifstofa Sjálfstæðisflokksins sendir afkomendum Sturlu og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur við fráfall hans.