Sturla Böðvarsson – hálf öld í stjórnmálum

Sturla Böðvarsson fyrrverandi samgönguráðherra og forseti Alþingis er gestur Guðnýjar Halldórsdóttur í níunda þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.

Sturla var bæjarstjóri í Stykkishólmi frá 1974 til ársins 1991 þegar hann var kjörinn til setu á Alþingi. Síðar átti Sturla eftir að vera samgönguráðherra frá 1999-2007 og forseti Alþingis frá 2007-2009 þegar hann lætur af þingmennsku. Síðar varð hann að nýju bæjarstjóri í Stykkishólmi frá 2014-2018.

„Það sem snerti mig strax var þegar talað var um „stétt með stétt“ og að flokkurinn ætti að styrkja og efla framfarir á forsendum einkaframtaks. Þetta var sló mig strax í upphafi,“ segir Sturla m.a. um hvað það var sem dró hann að Sjálfstæðisflokknum.

Hann ræðir upphafið að því að hann fór að hafa afskipti af stjórnmálum. Það var árið 1962 þegar hann var 16 ára og stóð upp á framboðsfundi til sveitarstjórnar og talaði þar sem sjálfstæðismaður.

„Síðan fór ég stjórn SUS og var með góðu fólki þar,“ segir hann.

Sturla segist ekki alveg hættur afskiptum af stjórnmálum. Hann sé enn að aðstoða og hjálpa til þar sem á þurfi að halda sem ráðgjafi.

„Maður getur ekki hætt að hugsa um samfélagið sitt,“ segir hann.

Hann segist hafa orðið fyrir miklum áhrifum frá sínu umhverfi og minnist þess þegar hann kynntist forystumönnum í flokknum á sínum tíma og nefnir Birgi Ísleif Gunnarsson sem dæmi sem var þá í forystu í SUS.

Ákvað að sækja um á fæðingardeildinni

Sturla rifjar upp hvernig það kom til að hann varð bæjarstjóri í Stykkishólmi. Þá komu menn að máli við hann og hvöttu hann til að sækja um.

„Ég var mjög hugsi og undrandi. Við höfðum ekki beint hugsað okkur um að fara til baka, en það hittist þannig á að Hallgerður kona mín var upp á fæðingardeild Landspítalans og ég fór hennar þar sem hún var að eiga Ásthildi dóttur okkar, sem nú er bæjarstjóri, og við tókum ákvörðum um það á fæðingardeildinni að ég myndi sækja um. Sem ég gerði og var ráðinn,“ segir hann en hann hóf að starfa sem bæjarstjóri í Stykkishólmi 1974.

Sjálfstæðisflokkurinn var í hreinum meirihluta árin sem Sturla var bæjarstjóri, en hann var ekki kjörinn fulltrúi lengst af.

„En í kosningunum 1990 þá er tekin ákvörðun um að ég verði í framboði,“ segir hann og þá fyrst er hann kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn. Það ár fékk flokkurinn 70% atkvæða.

„Þetta var algjört einsdæmi og það eru ekki mörg sveitarfélög sem að hafa búið við það að meirihlutinn væri með 70% atkvæða,“ segir hann.

Var í fjárlaganefnd Alþingis á mjög erfiðum tímum

Í kjölfarið á þessu hafi svo verið þrýst á hann að gefa kost á sér til Alþingis.

„Ég hafði svosem ekkert hugsað mér að hætta því mér leið svo vel í starfi bæjarstjóra. Ég er framkvæmdamaður í mér og ég hafði mikinn metnað og mikla ánægju af því að standa í framkvæmdum, gatnagerðaframkvæmdum, byggja íþróttahús, byggja skóla og svo framvegis. Byggja hótel og félagsheimili. Með þessu góða fólki,“ segir hann en lét þó til leiðast.

„Þegar að Friðjón Þórðarson sem hafði verið þingmaður um langan tíma og Valdimar Indriðason á Akranesi, góður vinur minn, tóku ákvörðun um að gefa ekki kost á sér þá gaf ég kost á mér í kosningunum 1991 og var kjörinn 1. þingmaður Vesturlandskjördæmis. Ég fór þá úr bæjarstjórastarfinu og í þingmennskuna. Var í fjárlaganefnd Alþingis á mjög erfiðum tímum þegar Friðrik Sophusson var að gera frábæra hluti í að endurskipuleggja ríkisfjármálin og var varaformaður fjárlaganefndarinnar,“ segir Sturla.

Hann segir að sér hafi liðið vel á þingi og það hafi verið frábær tími. Rifjar hann m.a. upp kosningaúrslitin 2003 þegar hann skipaði oddvitasætið og Einar Kristinn Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson skipuðu annað og þriðja sæti, en þeir náðu allir kjöri fyrir Norðvesturkjördæmi í þeim kosningum.

Komst aftur í gamla sporið sitt

Talið berst að því þegar Sturla varð samgönguráðherra árið 1999.

„Davíð Oddsson kallaði mig til sín og bar þetta upp við mig og ég hugsaði að ég væri alveg til í það og ég var samgönguráðherra í átta ár og leið mjög vel í því starfi. Þar komst ég aftur í gamla sporið mitt sem ég var í þegar ég var bæjarstjóri að standa fyrir framkvæmdum. Við í samgönguráðuneytinu lögðum í mikinn leiðangur við að endurskipuleggja framkvæmdakerfið á vettvangi samgöngu- og fjarskiptamála. Ég held að það hafi verið mjög farsælt að við fengum samþykkt lög um fjarskiptaáætlun, samgönguáætlun þar sem að vegir, hafnir og flugvellir voru og svo ferðamálaáætlun. Ég held að þetta hafi gefið mjög góða raun að stilla löggjöfinni svona upp að við yrðum að gera traustar áætlanir um það sem við ætluðum okkur að gera,“ segi hann.

Segir hann tímann í ráðuneytinu hafa verið einstakan tíma framkvæmda og framfara, en nefnir þó að þar hafi einnig verið erfið mál.

„Auðvitað voru mál eins og salan á Símanum mjög erfið. Það var mikil samstaða innan stjórnarlfokkanna um að selja Símann. Það var stefnt að því og lá fyrir að það yrði að koma á samkeppni á fjarskiptamarkaði þannig að það var talið algjörlega útilokað að ríkið væri með rekstur á vegum símans í  samkeppni við önnur fyrirtæki. Þess vegna var tekin ákvörðun um að selja Símann. En þetta var mjög mikið deilumál og ekkert launungamál um það, en ég held að það hafi verið farsæl breyting að selja Símann og leggja hins vegar meiri áherslu á að byggja upp Farice-strenginn í samstarfi við Færeyinga þannig að flutningsgeta fjarskiptanna til landsins væri efld,“ segir hann.

Auk þess nefnir hann uppbyggingu á flutningskerfinu innanlands.

Þá nefnir hann ýmis stór verkefni eins og göngin á Fáskrúðsfirði, um Almannaskarð, Siglufjarðargöngin og göngin til Bolungarvíkur.

„Þessi jarðgangnamannvirki voru sett af stað þarna á þessum tíma, sum kláruðust. Svo ótal margt annað í vegagerð og þvílíku þannig að ég naut þess mjög að vera í samgönguráðuneytinu og koma af stað framkvæmdum,“ segir Sturla.

Sturla er spurður að samgöngubótum í sínu kjördæmi.

„Ég hef stundum haft gaman af því þegar Halldór Blöndal fyrrverandi samgönguráðherra sagði við mig: „Sturla þú heldur að hringvegurinn sé um Snæfellsnes.“ Það var svosem margt til í því vegna þess að á þessum tíma þá tókst að koma á framkvæmdum á Vesturlandi. Það var meira og minna allt vegakerfið malarvegakerfi þegar við tókum við. En við lögðum nýjan veg yfir Vatnaleið,“ segir hann en sú leið liggur yfir Snæfellsnesfjallgarðinn.

Þá nefnir hann brú yfir Hraunsfjörð og Kolgrafarfjörð og eins vegtengingar milli Ólafsvíkur, Grundarfjarðar og Stykkishólms sem hafi lagt grunninn að stofnun framhaldsskóla í Grundarfirði þar sem fært var orðið fyrir nemendur á milli svæða.

„Síðan var fullt af brúarmannvirkjum og vegurinn fyrir jökul sem ég gat komið áfram ásamt mjög mörgu öðru um allt land. Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar til dæmis. Ég var í miklu samstarfi við Suðurnesjamenn um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar sem var mikil þörf á að setja af stað,“ segir hann.

Réði fyrsta kvenráðuneytisstjórann

„Þegar að Jón Birgir, sem var ráðuneytisstjóri þegar ég tók við samgönguráðuneytinu, ákvað að hætta þá var auglýst. Þá tók ég ákvörðun um að ráða Ragnhildi Hjaltadóttur sem var lögfræðingur í ráðuneytinu. Ég þekkti hana og hennar störf. Hún var ráðin sem betur fer segi ég vegna þess að hún Ragnhildur var alveg frábær ráðuneytisstjóri og stóð sig vel í því,“ segir hann.

Minnis hann þess að hafa fengið allskonar athugasemdir við það þar sem spurt var að því hvernig standi á því að hann sé að ráða konu og lögfræðing í starf ráðuneytisstjóra í ráðuneytinu, nær hefði verið að ráða karlmann með verkfræðimenntun.

„En þarna má segja að hugmyndafræði og hugsun mín um jafnrétti kynjanna hafi verið ofarlega á baugi vegna þess að ég var alltaf kallaður „mömmudrengurinn“ þegar ég var lítill drengur, sonur hennar Boggu á Borg. Ég hef alla tíð litið svo á að það væri mikilvægt að konurnar hefðu sömu möguleika í samfélaginu og karlarnir. Þetta kannski er merki um það, en ég átti í góðu samstarfi við margar konur á vettvangi stjórnmálanna,“ segir Sturla.

Hann segist stoltastur af því að hafa staðið fyrir breytingum sem sneru að því að byggja upp kerfi varðandi fjarskiptaáætlun, samgönguáætlun og ferðaþjónustuáætlun.

„Ég var og er stoltastur af því vegna þess að það leiddi til mikils árangur að ég tel. Að vinna eins og maður vinnur á verkfræðistofum. Að það sé unnið samkvæmt fyrirfram gefnum áformum og undirbúið eins og best getur verið,“ segir hann.

Þá nefnir hann tíma sinn sem forseti Alþingis þegar hann lagði fram tillögu um skipan rannsóknarnefndar Alþingins vegna bankahrunsins.

„Ég er mjög ánægður með það verkefni. Að mér skyldi takast sem forseta þingsins að sameina kraftana. Ég er mjög sáttur við minn feril hvað það varðar,“ segir Sturla.

Hægt er að nálgast þáttinn á Spotify hér.