Brestur í Brákarborg

21. október 2025

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Endurbygging leikskólans Brákarborgar við Kleppsveg er eitt mesta klúður í byggingarsögu Reykjavíkurborgar. Ótal gallar voru á hönnun og endurbyggingu hússins, sem kosta mun skattgreiðendur milljarða króna.

Skömmu eftir að endurbyggingunni lauk, var húsið rýmt þegar sprungur mynduðust í burðarveggjum þess. Byggingin stóðst ekki gildandi staðla um burðarþol.

Byggingin fékk á sínum tíma sérstök umhverfisverðlaun fyrir framúrskarandi vistvænar og sjálfbærar áherslur. Húsið var þó ekki sjálfbærara en svo að það hélt ekki uppi eigin þaki.

Heildarkostnaður við Brákarborgarverkefnið nam 2.399 milljónum króna í júlí 2024 á núgildandi verðlagi. Við þá upphæð bætist kostnaður vegna yfirstandandi lagfæringa. Er þá enn ótalinn margvíslegur annar kostnaður.

Skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um Brákarborg er áfellisdómur yfir stjórnsýslu borgarinnar og þeim stjórnmálamönnum, sem láta óstjórn í byggingarmálum viðgangast. Í skýrslunni var mörgum úrbótatillögum beint til umhverfis- og skipulagssviðs en augljóst er að stjórn þess er afar ábótavant.

Lagfæring dregst á langinn

Lagfæringar á burðarvirki Brákarborgar voru boðnar út og var lægsta tilboði tekið, að upphæð 223 milljónir. Áætluð verklok lagfæringa voru 1. febrúar 2025. Verkinu er hins vegar ekki enn lokið og ekki hafa fengist skýringar á því af hverju það hefur dregist á langinn.

Í ljósi harmsögu framkvæmda við Brákarborg er eðlilegt að fylgst sé grannt með yfirstandandi lagfæringum á byggingunni og þá ekki síst kostnaðinum. Hafa ýmsar spurningar vaknað um fyrirkomulag framkvæmdanna. Má t.d. efast um að áðurnefnd útboðsupphæð standist miðað við umfang framkvæmdanna og þær tafir, sem orðið hafa á verkinu.

Sé útlit fyrir að kostnaður við lagfæringar á Brákarborg aukist verulega frá því sem áformað var við útboð verksins í október 2024, t.d. vegna aukins umfangs, ber að upplýsa borgarráð um það án undanbragða og óska eftir viðeigandi fjárheimildum.

Óskir um kynningu hundsaðar

Frá 12. ágúst sl. hef ég árangurslaust óskað eftir því að fá kynningu á yfirstandandi framkvæmdum við Brákarborg og þá helst á staðnum sjálfum. Sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs hafnaði ósk um kynningu á verkstað en lofaði þess í stað kynningu á fundi ráðsins 10. september. Við það hefur þó ekki verið staðið og enn hefur engin kynning um málið farið fram í ráðinu.

Hinn 24. september sl. var tillaga Sjálfstæðisflokksins um að fulltrúar í umhverfis- og skipulagsráði fengju umrædda kynningu á verkstað, tekin til afgreiðslu. Fyrst tóku fulltrúar vinstri meirihlutans, ásamt sviðsstjóra, harða afstöðu gegn tillögunni og felldu hana. Þessum ágætu fulltrúum snerist síðan hugur, atkvæðagreiðslan var endurtekin og áðurnefnd tillaga um kynningu fyrir kjörna fulltrúa samþykkt einróma.

Þrátt fyrir þessa skýru samþykkt ráðsins 24. september, hefur umrædd kynning ekki enn verið haldin.

Fjölmörg fordæmi

Bókuðu fulltrúar meirihlutans að í algjörum undantekningartilvikum væri hægt að samþykkja heimsókn kjörinna fulltrúa á verkstað. Fjölmörg dæmi eru þó um heimsóknir borgarfulltrúa á verkstaði. Eitt sinn fundaði íþrótta- og tómstundaráð t.d. formlega í íþróttahúsi í byggingu, beinlínis í því skyni að kynna framkvæmdina fyrir kjörnum fulltrúum.

Upplýsingabrestur um Brákarborg

Furðu sætir að margítrekaðar óskir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fá vandaða kynningu á málinu, skuli vera hundsaðar. Sú spurning vaknar hvort sviðsstjórinn ætli sér, með dyggum stuðningi vinstri meirihlutans, að koma í veg fyrir umbeðna kynningu á verkinu þar til því verður lokið. Slíkur upplýsingabrestur er með ólíkindum.

Borgarfulltrúar eiga að gæta almannafjár og tryggja að starfsemi Reykjavíkurborgar sé í góðu horfi. Mikilvægur hluti starfsins er að þeir fái umbeðnar upplýsingar frá embættismönnum með greiðlegum hætti og án allra undanbragða. Réttur kjörinna fulltrúa til upplýsinga er mjög ríkur.

Misbrestur hefur orðið á þessu að undanförnu og borgarfulltrúar mæta oft mikilli upplýsingatregðu í kerfinu þegar þeir óska eftir upplýsingum eins og málefni Brákarborgar bera með sér.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. október 2025.