Sólveig Pétursdóttir fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra og forseti Alþingis er gestur Andreu Sigurðardóttur í átjánda þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.
Sólveig á að baki langa og farsæla sögu úr stjórnmálum. Hún vann að borgarmálunum 1986-1990 og sat á Alþingi 1991-2007, þar af dóms- og kirkjumálaráðherra 1999-2003 og forseti Alþingis 2005-2007. Þá var hún formaður allsherjarnefndar Alþingis 1991-1999 og utanríkismálanefndar Alþingis 2003-2005.
Sólveig ræðir m.a. aðdragandann að því að hún fór út í stjórnmál. Árin í borgarstjórn og hvernig kom til að hún settist á þing árið 1991. Hún ræðir m.a. fyrstu árin þar sem formaður allsherjarnefndar þingsins þegar ný stjórnsýslulög, upplýsingalög, lög um umboðsmann Alþingis og dómstólalög voru sett.
Vildi veita konum tækifæri
Þá ræðir hún tímann sem hún var dóms- og kirkjumálaráðherra.
„Þá eru komin mál á dagskrá sem er líka talað um í dag en voru ný á þeim tíma. Það voru mál eins og mansal og vændi. Ég man eftir því sérstaklega að þetta voru mál sem dómsmálaráðherrar Norðurlandanna tóku sérstaklega á. Við fórum í mjög mikið átak gegn mansali með allskonar upplýsingaátaki, viðurlögum og annað. Mansal fór inn í hegningalögin. Alþingi samþykkti það að mínu frumkvæði. Ég gerði skýrslu um vændi á Íslandi sem var alveg nýtt og kom fólki á óvart. Þannig að við opnuðum umræðu á allskyns viðkvæm málefni sem hafði ekkert verið rætt um,“ segir Sólveig.
Hún segist hafa átt gott samstarf við lögregluna, landhelgisgæsluna og almannavarnir á þeim tíma. Þá beitti hún sér fyrir því að opnuð var sameiginleg björgunarmiðstöð í Skógahlíð.
„Síðan reyndi maður að hafa áhrif sem kona í þessum stóli og veita konum tækifæri eins og til dæmis með dómara, í lögreglunni og ég vil nú sérstaklega nefna sýslumenn. Það voru ekki margar sem höfðu gegnt því hlutverki áður. Það urðu miklar breytingar. Ég er ekki að segja að það sé ekki vegna þess að maður vilji ekki gæta jafnréttis heldur af því að konur eru jafn hæfar og karlmenn og eiga að njóta þess,“ segir Sólveig.
„Undanfari þess að ég fer í ráðherrastöðu er landsfundur vorið 1999. Þar létu konur að sér kveða. LS skoraði á mig að gefa kost á mér í varaformanninn. Ég tók þeirra áskorun. Mér finnst rétt að hafa orð á því að í okkar flokki þá vilja sjálfstæðismenn að fólk taki slaginn. Þó maður nái ekki að vinna í þetta skiptið þá eru menn til í að virða það við mann. Það var mjög skemmtilegt þegar við fórum í þessa baráttu. Ég man að ég var spurð hvers vegna. Ég sagði meðal annars væri sjálfsagt að konur væru meira áberandi. Við þurfum að fá nýja ásýnd á flokkinn og breikka ásýnd flokksins,“ segir hún.
Geir H. Haarde varð varaformaður á þessum landsfundi.
„Þetta var mjög skemmtileg barátta. Ekki varð hún til þess að setja neinn skugga á okkar samstarf og vináttu. Það hefur gengið mjög vel. Enda verður hann formaður flokksins síðar,“ segir hún.
Verður að geta tekið storminn í fangið
Sólveig rifjar upp skondin atvik og segir: „Maður lenti auðvitað í ýmsum uppákomum. Mér er það mjög minnisstætt þegar ég var ný orðin ráðherra. Þá fór ég í virðulega athöfn í lögregluskólanum. Þar stóðu yfirmenn í lögreglunni í fullum skrúða, einkennisbúning. Mjög virðulegir og fínir menn. Síðan eftir fundinn þá var boðið upp á vöfflur og rjóma. Það var einhver nýstárleg rjómasprauta sem ég var ekki alveg viss hvernig virkaði. Ég tók hana upp og hristi hana og byrjaði að sprauta og sprautaði á einkennisbúningana fínu. Þetta var svo hræðilega pínlegt, ég ætla ekki að segja þér hvernig mér leið. Ég get ekki annað en hlegið að þessu eftir á,“ segir hún.
Hún minnist líka erfaðari mála eins og Falon Gong og fleiri mála.
„Þegar maður fær tækifæri til að gegna svona stöðu þá verður maður líka að geta tekið storminn í fangið. Það þýðir ekki annað. Þetta var mjög skemmtilegur tími. Gott fólk sem ég var með í ráðuneytinu og mjög mörg mál sem við komum framfæri,“ segir Sólveig.
Hún segist alltaf hafa haft áhuga á öryggis- og varnarmálum.
„Við fórum eitt sinn á fund í Moskvu, í Dúmunni, neðri deild þingsins. Þar fengum við að hitta menn sem kölluðust á ensku „Anti NATO group“. Þeir hótuðu okkur öllu illu ef við myndum halda áfram með þessa útþennslu á NATO. Þeir áttuðu sig ekkert á því að þarna var fólk og þjóðir að leita eftir að komast undir verndarvæng NATO en ekki öfugt. Þetta var mjög eftirminnilegt,“ segir hún.
Þá var hún síðar formaður utanríkismálanefndar Alþingis og segir það hafa verið lærdómsríkan tíma.
Árið 2005 varð hún forseti Alþingis.
„Ég hafði áður verið í forsætisnefnd. Þó að fólki finnist stundum þegar þú horfir á fundina í þingsalnum að þetta sé alltaf tómt riflildi og leiðindi þá fer mesta starfið fram í nefndum þingsins. Þar eiga menn góða vini og gott samstarf. Það er þannig að þó maður vilji auðvitað koma stefnu síns flokks og sínum skoðunum algjörlega í gegn þá er það ekki alltaf hægt. Við þurfum að finna málamiðlanir og leita lausna. Það er okkar skylda að finna niðurstöðu í málum,“ segir hún og einnig: „Þetta var mjög ánægjulegur tími sem foresti Alþingis. Ég man til dæmis ég fór í heimsókn til Vestur-Íslendinga. Ég var boðin að vera heiðursgestur þar á Íslendingadeginum. Flytja ræðu þar. Það er mjög eftirminnileg heimsókn. Þvílík ættjarðarást og ég fékk svo mikið af allskonar gömlum og nýjum íslenskum mat eins og rúllupylsu á rúgbrauði sem ég hafði ekki smakkað lengi. Það voru pönnukökur, það var randalína og þarna voru öll nöfn á íslensku. Eldra fólkið margt talaði íslensku. Þetta var alveg sérstaklega ánægjuleg heimsókn.“
Þriðji kvenráðherra Sjálfstæðisflokksins
Sólveig ræðir málefni kvenna í Sjálfstæðisflokknum.
„Ef við lítum til sögu kvenna í flokknum þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn átt mjög merkilega sögu þar. Fyrstu konuna sem borgarstjóri, fyrstu konuna sem ráðherra, Auði Auðuns og Ragnhildi Helgadóttur. Svo er ég sú þriðja í röðinni 1999. Þannig að þetta hefur alveg tekið tíma. Prófkjörin hafa verið nokkuð erfið. Við erum búnar að berja glerþakið nokkuð lengi. En okkur hefur tekist þetta allt saman mjög vel án þess að vera með kynjakvóta eða flettulista eins og ég held bara allir aðrir stjórnmálaflokkar á landinu. Sjáðu bara þessa glæsilegu forystu sem við erum með í dag í ríkisstjórn, konur á Alþingi, flottar konur í sveitarstjórnum út um allt land. Þetta er náttúrulega mjög gleðilegt. Við rífumst líka um stjórnmál konur. Við erum ekkert öðruvísi en karlarnir með það. En við gerum líka skemmtilega hluti eins og við erum búin að vera núna með árlegt golfmót Landsambands sjálfstæðiskvenna og verðum núna 22. ágúst á Hamarsvelli. Ég hvet konur til þess að slást í hópinn. Skemmtileg íþrótt,“ segir Sólveit.
Hún segir að viðburðir eins og golfmót séu góð leið til að búa til tengslanet sem sé mjög mikilvægt.
„Það var nú einmitt talað um að það væri svolítið erfitt fyrir konur hérna áður fyrr. Þær væru ekki eins vel tengdar inn í íþróttafélögin og ýmsa stóra hópa. En það er auðvitað mjög breytt í dag,“ segir hún.
Hún hvetur ungar konur til þess að gefa kost á sér í stjórnmálin. Það sé gefandi og mikilvægt fyrir okkar samfélag að bæði kynin komi að því að móta okkar þjóðfélag.
Stolt af því hverju flokkurinn hefur náð fram
„Ég er mjög stolt af okkar flokki hvernig hann hefur staðið sig í þessum efnum. Ánægjulegt að sjá hvaða árangri er búið að nást á þessu afmælisári,“ segir hún og að hún sé stolt af því að vera sjálfstæðismaður.
„Okkar saga, þessa flokks er samofin lýðveldinu. Ég held þegar við lítum til baka í dag megum við öll vera stolt af því hvað okkar flokkur hefur náð fram og hvar við stöndum í dag,“ segir hún.
Spurð út í erindi Sjálfstæðisflokksins í dag segir hún: „Ég sé ekki neina breytingu á því. Mér finnst stefna flokksins og áherslur sannarlega skipta máli fyrir okkar þjóðfélag. Undir forystu okkar Bjarna Benediktssonar hefur tekist mjög vel til. Það hafa komið erfið mál. Við höfum farið í gegnum Covid, náttúruhamfarir. Það eru allskonar mjög erfið verkefni sem við höfum farið í gegnum og sem bíða okkar. Líka verkefni sem munu útheimta mikla fjármuni. Mér finnst að þessi ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafi staðið sig mjög vel í þeim efnum. Persónulega finnst mér stefna flokksins höfða til mín. Mér finnst hún höfða til Íslendinga sem hafa alltaf verið duglegir. Þeir hafa þurft að standa sig. Þetta var erfitt land að búa í. Ísland var líklega fátækasta land Evrópu 1944. Sjáðu hvernig við stöndum að vígi í dag. Þetta er líka vegna þess að fólk hefur verið duglegt, duglegt að vinna og leggja sitt að mörkum. Auðvitað erum við heppin að vera með náttúruauðlindir sem við höfum passað upp á þannig að það er ekki spurning í mínum huga að Sjálfstæðisflokkurinn á fullt erindi við þjóðina í dag,“ segir Sólveig.
Sjálfstæðisstefnan staðist tímans tönn
„Ég held að reynslan sýni okkur það að vera áfram þessi ábyrgi flokkur. Sýna aðgæslu varðandi fjármuni. Leggja mikla áherslu á efnahagsmálin. Halda áfram að lækka skatta. Standa saman og standa vörð um manngildi og mannréttindi. Fyrst og fremst held ég að það sé mjög mikilvægt að við stöndum öll saman og reynum að finna sameiginlegar lausnir á ákveðnum stórum verkefnum sem bíða okkar. Ég hef fulla trú á að það muni takast. Ég held að sjálfstæðisstefnan hafi staðist tímans tönn og muni halda áfram að gera það. Meðan við fylgjum henni höfum við ekkert að óttast,“ segir hún.
Þáttinn á Spotify má finna hér.