Sigrún Björk Jakobsdóttir ræðir bæjarstjóraárin á Akureyri
'}}

Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri, er gestur Jóns Birgis Eiríkssonar í sextánda þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér. Meðal þess sem Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir á þeim árum sem Sigrún Björk starfaði fyrir flokkinn á Akureyri var aukin þátttaka kvenna í bæjarstjórnarmálunum. Sigrún Björk var fyrst kvenna bæjarstjóri á Akureyri, á árunum 2007-2009, en í viðtalinu fer hún yfir feril sinn í stjórnmálunum og helstu áhrifa- og átakamál á þeim áratug sem að hún starfaði í bæjarstjórn á Akureyri.

„Það var ákveðið að setja svokallaðan fléttulista af stað. Þar voru ellefu konur og ellefu karlar og kona í öðru hvoru sæti. Ég sat í fjórða sæti á listanum og við kynntum hann um miðjan janúar árið 2002, sirka fjórum mánuðum fyrir kosningar. Allir aðrir flokkar voru þá að undirbúa sín framboð, en við riðum á vaðið. Þetta varð til þess að allir flokkarnir fóru til baka með sína lista og þá voru allir flokkarnir að kynna sína lista og sögðu: „Við gerum þetta líka. Við látum ekki sjallana stela þessu!“, segir Sigrún Björk.

„Það sem var svo magnað var að allt í einu eftir kosningar vorum við með jafn margar konur og karla til að velja úr í allar nefndir. Allar nefndir voru því sem næst jafnt skipaðar kynjum,“ segir hún.

Aðkomumanneskja sem Sjálfstæðisflokkurinn tók opnum örmum

Meðal þeirra verkefna sem Sigrún Björk tókst á við voru afleiðingar fjármálakreppunnar árið 2008, en eitt þeirra ráða sem gripið var til á Akureyri var að stofna svonefnda almannaheillanefnd sem hafði það hlutverk að hlaupa undir bagga með bæjarbúum sem hún hafði á þeim tímapunkti starfað fyrir frá árinu 2001. „Akureyri er skemmtilegur bræðingur af fólki. Það getur verið svolítið erfitt að koma þarna inn, en mér var mjög vel tekið í Sjálfstæðisflokknum,“ segir Sigrún Björk.

Þáttinn má nálgast á Spotify hér.

Þátturinn er hluti af þáttaröð í tengslum við 95 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins hinn 25. maí 2024 og 80 ára afmælis Lýðveldisins Íslands 17. júní 1944. Þættirnir eru birtir reglulega frá afmælisdegi flokksins og fram á haust 2024. Rætt verður við núverandi og fyrrverandi forystufólk í Sjálfstæðisflokknum, ráðherra, þingmenn, sveitarstjórnarfólk, fyrrverandi starfsfólk, trúnaðarfólk flokksins sem starfað hefur í innra starfi hans á ólíkum tímum og við fræðimenn.