Inga Jóna Þórðardóttir fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins er gestur Andreu Sigurðardóttur í fjórtánda þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.
Inga Jóna var ráðin framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins fyrst kvenna ásamt Kjartani Gunnarssyni árið 1980 og gegndi því starfi til ársins 1984. Þá var hún einnig fyrst kvenna oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 1998-2002 og aðstoðarmaður Ragnhildar Helgadóttur menntamálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá 1984-1987.
Hún segir að áhugi sinn hafi í raun fyrst kveiknað á menntaskólaárunum við Menntaskólann á Akureyri. En hún rifjar upp atvik úr barnæsku þegar uppreisnin í Ungverjalandi var á sjötta áratugnum. Þá sýndi móðir hannar á landskorti hvar Ungverjaland væri og sagði að þar ætti fólk mjög bágt. Þarna voru ungverjar að mótmæla setu Sovíetmanna í Ungverjalandi. Þessi viðburður í heimssögunni situr í minni hennar mótaði hana mjög. Hefur hún alla tíð haft mikinn áhuga á utanríkismálum.
Hún minnist þess einnig þegar hún fór fyrst til Ungverjalands árið 1989 og átti þar samtal við eldri heimamann sem rædd við hana um að nú væri verið að undirbúa fall múrsins milli Austur- og Vestur-Evrópu. Hann hafi rifjað upp þessi ár úr byltingunni sem lýsti pyntingum og öðru sem fólkið mátti þola. Hún hafi svo verið með Geir Haarde eiginmanni sínum í Washington þegar þau bjuggu þar meðan hann var sendiherra árið 2016, en þá hafi þess verið minnst að 60 ár væru frá uppreisninni sem varði nokkrar vikur og tók 30 þúsund mannslíf.
„Þetta segir manni hvernig fólk sem lendir í þrengingum, lendir í svona átökum lifir af. Mér fannst þetta fallegt,“ segir hún.
Ætlaði ekki að sitja hjá
Hún segir að á Akureyri hafi hennar pólitíska sýn mótast töluvert enda verið mikil gerjun í stúdentapólitíkinni um alla Evrópu og Akureyri þar ekki undanskilin.
„Þar voru margir stúdentar mjög róttækir. Ég fann strax að ég var ekki sammála þeim. Ég var á annarri skoðun. Ég hafði aðra sýn á lífið og tilveruna. Svo var það smám saman niðurstaða mín á menntaskólaárunum að ég ætlaði ekki að sitja hjá. Ég ætlaði að taka þátt. Það vildi ég gera,“ segir hún.
Hún hafi svo tekið þátt í starfi Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta þegar hún var í Háskóla Íslands.
„Í þeim félagsskap voru þeir sem að stóðu vörð um vestrænt lýðræði og vestræna samvinnu. Í Vöku voru ekki bara þeir sem studdu Sjálfstæðisflokkinn heldur líka Alþýðuflokk og Framsóknarflokk. Þetta var fjölbreyttur hópur og mjög gaman að starfa þar. Í febrúar 1973, það eru ein fimmtíu ár liðin, þá auglýsti stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins eftir þátttakendum. Þá var verið að endurreisa hann eftir eitthvert hlé. Hún tók sér viku frí í námi, þar sem skólinn stóð virka daga í heila viku. Hún taldi rétt að kynna sér málefni flokksins almennilega og segir það hafa verið mjög skemmtilega reynslu,“ segir hún.
„Ég hafði mjög gott af þessu. Mér fannst þetta mjög gaman. Þarna kynntist ég mörgum vinum mínum fyrir lífstíð,“ segir Inga Jóna og bætir við: „Þarna gat maður hitt forystumenn flokksins og spurt þá útúr. Þetta er að mínu viti mjög mikilvægur þáttur í starfi stjórnmálaflokka. Það gefur ungu fólki tækifæri til þess að kynna sér að eigin raun, fá svör við þeim spurningum sem á þeim brenna um leið og þeir þjálfast í þessari umræðu sem fylgir stjórnmálaþátttöku. Í framhaldi af þessu varð ég síðan formaður Þórs, félags ungra sjálfstæðismanna á Akranesi, sem er minn heimabær. Ég er fædd og uppalin á Akranesi. Þá leiddi hvað af öðru.“
Ráðin framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins fyrst kvenna
„Við vorum varla orðin þrítug. Auðvitað hefur allt sinn aðdraganda. Það kemur ekki út af engu. Ég hafði 1975 tekið þátt áfram í starfi ungra sjálfstæðismanna og var kosin í stjórn SUS og var 1. varaformaður þar, sem ég var í fjögur ár. Starfaði mikið með ungum sjálfstæðismönnum á þessum árum. Síðan 1977, á þeim árum var miðstjórn kjörin að mestu leyti beinni kosningu á landsfundi. Það voru nokkur sæti sem voru til ráðstöfunar. SUS ákvað að tefla fram tveimur kandidötum til að ná kjöri í miðstjórn. Það fór í gang hörku barátta á landsfundi. Við Kjartan (Gunnarsson) vorum þá tilnefnd fulltrúar unga fólksins inn í miðstjórn. Þetta gekk það ljómandi vel að ég lenti í efsta sætinu á landsfundi og Kjartan í fjórða. Þannig að Landsfundur tók mjög vel á móti fulltrúum unga fólksins þarna. Eftir það starfaði ég auðvitað í miðstjórn flokksins,“ segir hún.
Verður annar tveggja framkvæmdastjóra flokksins árið 1980
„Við Geir Hallgrímsson þekktumst auðvitað vel í gegnum það starf. Við Kjartan vorum bæði í miðstjórninni og urðum auðvitað góðir vinir í gegnum það. Síðan er það sumarið 1980 þá er Sigurður Hafstein að hætta eftir langa veru sem framkvæmdastjóri. Geir Hallgrímsson biður mig að koma í Valhöll að hitta sig að máli,“ segir Inga Jóna um aðdragandann að því að hún var fyrst kvenna ásamt Kjartani Gunnarssyni ráðin framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins árið 1980.
„Þá fer hann að ræða það við mig hvort ég vilji taka að mér að vera framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Ég var nú hugsi, þetta kom mér á óvart að hann væri að ræða þetta við mig. Svo sagði ég við hann að ég hefði auðvitað mikinn áhuga á því, en ég væri ekki góð í að safna peningum. Ég væri ekki góð í að styrkja fjárhag flokksins sem ég vissi af veru minni í miðstjórn að þurfti á góðri styrkingu að halda. En ég væri óhrædd við að hella mér í alla pólitíkina sem fylgdi þessu starfi. Fram að þessu hafði framkvæmdastjóri þingflokks jafnframt komið úr röðum þingmanna sjálfra og það var orðið góð stemning fyrir því að breyta þeirri stöðu. Lyktirnar urðu þær að við Geir Hallgrímsson ræddum þetta fram og til baka. Svo kom að því að hann sagði: „Hvernig líst þér á Kjartan að hann taki við rekstri flokksins og fjármálunum?“ segir hún og að hún hafi svarað því að sér litist mjög vel á það. Þau myndi starfa vel saman
„Það varð niðurstaðan og þá tók ég í raun og veru við því að vinna með þingflokknum að stefnumótun. Það voru á þessum tíma mjög öflugar málefnanefndir og það kom í minn hlut að stýra starfi málefnanefndanna og vinna með þingmönnum að einstökum þingmálum. Koma öðru skipulagi inn í þessa veröld. Þetta var mjög skemmtilegt og ánægjulegur tími,“ segir Inga Jóna.
Verður aðstoðarmaður menntamálaráðherra 1984
„Það var eftir kosningarnar 1983, þá gekk allt svona þokkalega vel hjá okkur. Þá er Ragnhildur Helgadóttir orðin menntamálaráðherra. Í raun og veru bara önnur konan til að verða ráðherra í sögunni. Auður Auðuns hafði orðið dómsmálaráðherra 1970. Ragnhildur hefur samband við mig og hún hafði kynnst mér í miðstjórn, því hún hafði verið fulltrúi þingflokksins í miðstjórn. Þannig að við höfðum starfað þar saman. Hún spurði hvort ég vildi koma og vera með henni í menntamálaráðuneytinu. Þetta var á miðju sumri 1983,“ segir Inga Jóna um aðdragandann að því að hún var ráðin aðstoðarmaður ráðherra.
Inga Jóna sagði Ragnhildi að hún vildi mjög gjarnan gera þetta en að hún ætti von á barni. Henni hafi fundist mjög vandræðalegt að koma í menntamálaráðuneytið og ætla svo í barnsburðarleyfi eftir nokkra mánuði. Það sé skýringin á því að hún byrjaði ekki sem aðstoðarmaður ráðherra fyrr en 1984, ári eftir þingkosningar. Dóttir sín hafi fæðst í janúar það ár.
„Svo var ég komin í ráðuneytið í maí. Svo fór ég með henni í heilbrigðisráðuneytið þegar stólaskitpin urðu 1985 í ríkisstjórninni,“ segir Inga Jóna.
Ragnhildur Helgadóttir var hörku stjórnmálamaður
Hún segir að það hafi verið algjörlega frábært að vinna með Ragnhildi.
„Hún var hörku stjórnmálamaður. Hún var mjög dugleg. Hún vann mjög mikið sjálf. Hún fylgdi eftir sannfæringu sinni alveg til hins ítrasta og var ekki á því að gefast upp. Það var alveg til þess tekið hvað hún var einörð í því að leiða til lykta eitt af okkar baráttumálum á þessum árum sem var frelsi í útvarpsmálum. Afnema einokun ríkisútvarpsins. Hún fylgdi því eftir að flytja frumvarp og afla stuðnings í þinginu. Þar voru stjórnarflokkarnir ekki einhuga. Framsóknarflokkurinn sem var í ríkisstjórn með okkur var ekki allur í því, en Bandalag jafnaðarmanna kom til og lagði því máli lið. Hún með einurð sinni og dugnaði og útsjónarsemi kom þessu máli í höfn,“ segir hún um Ragnhildi og frumvarp hennar sem leyfði frjálst útvarp árið 1986.
„Hún var svo skemmtilega óhrædd. Hún var djörf, ákveðin, sanngjörn og mjög hlý og góð manneskja. Þannig að ég lærði mjög mikið af henni,“ segir Inga Jóna ennfremur.
Hún hafi svo ákveðið eftir þingkosningar 1987 að draga sig í hlé og vera heimavinnandi.
„Þetta voru búin að vera annasöm ár. Ég ákvað að gera það en þá tók að mér ýmis trúnaðarstörf, eins og að vera formaður framkvæmdastjórnar flokksins um tíma. Fylgdi eftir ýmsum málum,“ segir hún.
Verður borgarfulltrúi árið 1994
„En svo var það 1994 þegar það er prófkjör fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Þegar ljóst var hverjir hefðu gefið kost á sér í prófkjörinu hafði kjörnefnd heimild til að leita fleiri tilnefninga. Af því að einn okkar aðal borgarfulltrúi hafði á síðustu stundu ákveðið að vera ekki með þá fannst þeim að það þyrfti að fá fleiri konur í prófkjörið. Þeir hringdu í mig, hvort ég væri reiðubúin að skella mér í þennan slag. Ég auðvitað hugsaði málið smá stund og sagðist reiðubúin. Þannig að ég fór í prófkjör í Reykjavík í fyrsta sinn þá,“ segir hún um aðdragandann að því að hún fór í borgarmálin.
Í þessum kosningum segir hún að R-listinn hafi komist í meirihluta í borginni og hún hafi því komið inn í borgarmálin í minnihluta.
Verður oddviti borgarstjórnarflokksins árið 2002
„Ég hafði gefið kost á mér í 1. sætið 1998 en náði því ekki. En var svo beðin um það þegar Árni Sigfússon ákvað að draga sig í hlé að afloknum þeim kosningum að ég tæki við oddvitastöðunni. Það var samþykkt og ég gerði það og gerði mitt besta þessi fjögur ár,“ segir hún um aðdragandann að því að hún varð oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
„Á vettvangi borgarmálanna eru mörg skemmtileg mál. Þetta er öðruvísi pólitík en landsmálapólitíkin,“ segir hún.
„Maður þarf að vera í mjög miklum samskiptum við borgarbúa. Ég lagði áherslu á það meðan ég stýrði þarna för að efla hverfafélögin eins og ég gæti. Bæði til þess að búa til stuðning út í öllum hverfum, koma upplýsingum út í hverfin og koma hugmyndum frá hverfunum og fólkinu í hverfunum til okkar. Hvað mætti betur fara, hvaða hugmyndir þau væru með og svo framvegis,“ segir hún.
Inga Jóna segir að á þeim tíma hafi borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins verið í kjöraðstæðum og getað hóað saman á svipstundu nokkur hundruð manns í gegnum þetta starf og lagt mál upp fyrir trúnaðarmenn sem væru í bígerð, í deiglu eða þyrfti að útskýra.
„Mér fannst skipta mjög miklu máli að beita flokksstarfinu í borgarstjórn Reykjavíkur með þessum hætti. Ég var ekki að finna upp á því - þetta var kerfi sem var til sem mér finnst skipta mjög miklu máli í pólitísku starfi okkar að við hlúum að og treystum,“ segir hún.
Hún segist hafa sjálf unnið mikið að atvinnumálum í borginni á þessum tíma. Hún sé alin upp í sjávarútvegi og þekki því vel til þar og hafi farið í hafnarstjórn.
„Svo var ég í menningarmálunum og skipulagsmálum. Ég hafði mikinn áhuga á skipulagsmálum. Við unnum heilmikið starf þar við að koma fram nýrri sýn í skipulagsmálum. Settum fram nokkuð ígrundaðar hugmyndir í lok þessa kjörtímabils 1998-2002 þar sem við lögðum áherslu á að byggð í Reykjavík þróaðist með Sundum. Kölluðum það „Borgin við sundin“. Þá voru uppi hugmyndir um Sundabrautina – það eru 25 ár liðin. Við vildum keyra þetta áfram með því meðal annars að byggja upp með leiðinni. Byggja upp í Geldinganesi. Halda áfram og þá var Kjalarnesið komið inn sem hluti af Reykjavík. Það hafði verið loforð til þess hluta sem var orðið lítið samfélag að það yrði allt gert til að treysta sambandið og greiða leiðir við Reykjavík. Þeir voru orðnir hluti að Reykjavík. Þeir bíða enn,“ segir hún um starfið í borgarstjórninni í sinni tíð sem oddviti. Eins nefnir hún umferðarmálin.
„Það var alveg ljóst að við þurftum að gera samgöngur miklu greiðari innan borgarinnar. En það var ótrúlega undanlegur hljómur hjá þessum meirihluta að loka götum og tefja umferð,“ sagði hún.
Hún segist muna eftir að sett hafi verið risa stór blómaker í Hafnarstræti svo fólk gæti ekki keyrt þar.
„Þetta er undarlega árátta að vilja frekar leggja steina í götu fólks í stað þess að greiða leið þess í gegnum borgina,“ segir Inga Jóna.
Þurfum alltaf að gæta að einstaklings- og athafnafrelsi
„Þegar við erum í SUS á áttunda áratugnum eru mikil gerjunarár. Mín fyrsta pólitíska vitund eins og ég var að nefna áðan ber keim aðeins af Viðreisnarárunum. Þá er byrjað að virkja. Umræður um virkjanir og stóriðju fóru að taka svolítið rými og gerðu það á fyrstu árum áttunda áratugarins. Við gegnum í EFTA og ákváðum að vera í viðskiptabandalagi við okkar vinaþjóðir,“ segir hún um eftirminnilega kafla í sinni stjórnmálabaráttu.
„Frelsismál eru auðvitað mikilvæg. Alltaf að gæta þess að frelsi einstaklingsins sé ekki skert og athafnafrelsið sé ekki skert því allur krafturinn í framleiðslunni og framþróun kemur fyrst og fremst frá einstaklingunum. Hann kemur ekki ofan frá. Þess vegna þurfum við að virkja sköpunarkraftinn í fólkinu sjálfu til þess að drífa áfram og skapa hagsæld fyrir alla þjóðina. Þetta er auðvitað meginstefið í sjálfstæðisstefnunni og hún lék okkur á tungu og sló í hjarta okkar á þessum árum og síðar. Þessi mál öll voru mjög sterk,“ segir hún.
Ráðherra Sjálfstæðisflokksins kom með fyrstu löggjöf um jafnréttismál
„Svo vil ég líka nefna að þarna er ákveðið viðhorf, ég fór auðvitað fljótt að taka þátt í almennri kvennapólitík, kvennabaráttu. Ég man eftir því þegar á þessum fyrstu árum sem ég er í pólitík þá er maður að tala fyrir meira frelsi varðandi rétt kvenna yfir eigin líkama, það er að segja að setja sanngjarna og heilbrigða löggjöf um þungunarrof. Það yrði búin til sátt um svoleiðis hluti. En grundvallarreglan að konan ræður yfir sínum líkama. Þetta var töluvert til umræðu á þessum fyrstu árum og lög um jafnan rétt kynjanna, jafna stöðu. Það er ráðherra Sjálfstæðisflokksins, það má ekki gleyma því, í kjölfarið á Kvennafrídeginum, sem kemur með fyrstu löggjöfina um jafnréttismál,“ segir Inga Jóna ennfremur.
Segir hún Sjálfstæðisflokkinn eiga góða og sterka sögu í þeim málum.
„Við erum eiginlega með besta slagorðið í jafnréttismálum finnst mér. Það er ættað frá Björgu Einardóttur. Það er: „Einstaklingsfrelsi er jafnrétti í raun.“ Ef þú virðir einstaklinginn, ef þú virðir réttindi hans og um leið skyldur þá ertu að tryggja jafnrétti. Ef að einstaklingurinn er ekki virtur og hans réttindi tryggð þá fyrirgerir þú jafnréttinu,“ segir Inga Jóna.
Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur allra stétta.
„Já ég tel það og að sumu leyti kannski aldrei brýnna. Við lifum í mjög ólíkum heimi. Allt umhverfi okkar er breytt. En grunngildi sjáflstæðisstefnunnar, ef þú horfir á þau. Þau eru tvo, höfuðgildi sjálfstæðisstefnunnar, annars vegar að standa vörð um sjálfstæði landsins og hins vegar að standa vörð um frelsi einstaklingsins og athafnafrelsi hans til þess að ná árangri fyrir heildina og standa þannig að málum að við myndum hafa hagsmuni allra stétt að leiðarljósi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið eignarstéttarflokkur og á ekki að verða. Hann er flokkur allra stétta og þannig nær hann aftur vopnum sínum. Ég er algjörlega sannfærð um það að erindi okkar er enn í mjög góðu gildi og við eigum brýnt erindi við þjóðina,“ segir hún aðspurð um hvort hún telji að erindi Sjálfstæðsiflokksins eigi jafn vel við í dag og þegar hún var á hátindi síns ferils.
Ráðleggur konum að þekkja sína rödd og fylgja sinni sannfærinu
„Ég myndi gefa þeim það ráð að þekkja sína rödd. Spyrja sjálfa sig: Hvað langar þig að gera? Hvað langar þig til að sjá gerast? Hverju viltu breyta? Fylgdu svo sannfæringu þinni,“ segir Inga Jóna að lokum aðspurð um það hvaða ráð hún myndi gefa ungum konum sem hafa áhuga á að stíga sín fyrstu skref á vettvangi stjórnmálanna.
Þáttinn má nálgast á Spotify hér.