Arnbjörg Sveinsdóttir ræðir þingferilinn
'}}

Arnbjörg Sveinsdóttir fyrrverandi alþingismaður, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og bæjarfulltrúi á Seyðisfirði er gestur Andra Steins Hilmarssonar í níunda þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.

Arnbjörg var í bæjarstjórn Seyðisfjarðar frá 1986-1998 og sat á Alþingi frá 1995-2009 og var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins frá 2005-2009.

„Það vill þannig til að ég kem frá mjög pólitísku heimili og faðir minn var bæjarfulltrúi á Seyðisfirði, en bestu vinir hans komu úr öðrum flokkum, til dæmis Alþýðubandalaginu. Heima við eldhúsborðið hjá mér voru stjórnmál rædd mjög mikið. Þegar ég fer í menntaskóla fór hugurinn í allar áttir en að sjálfsögðu endaði ég svo eftir góða yfirvegun hjá Sjálfstæðisflokknum. Það var ekkert annað sem kom til greina,“ segir Arnbjörg um upphaf þess að hún hóf afskipti af stjórnmálum.

Umræðan berst að ástandinu í stjórnmálunum þegar efnahagshrunið skall á haustið 2008.

„Okkur gekk rosalega vel og okkur fannst íslenskt þjóðfélag á mikilli siglingu og auðvitað gerðist margt mjög jákvætt á þessum árum en fjármálakerfið keyrði svolítið fram úr sér og í Hruninu þá er þetta mikil áskorun,“ segir hún.

Vildu frekar setja fjölskyldur og fyrirtæki í forgang en breytingar á stjórnarskrá

Hún segir að þingflokkurinn hafi neyðst til að beita málþófi eftir að slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu og minnihlutatjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fór að ræða stjórnarskrárbreytingar fyrir kosningar 2009.

„Við fórum í málþóf sem var nú ekki sérstaklega vinsælt hjá okkur sjálfum en þarna sýndi það sig að það var gott tæki til þess að þau stjórnvöld sem tóku við færu ekki út af sporinu,“ segir hún.

„Okkur þótti það náttúrulega fáránlegt að fara að ræða stjórnarskránna í upplausnarástandi þegar verkefnin voru næg við að koma okkur út úr kreppuástandinu. Að þetta skyldi vera forgangsmál í staðin fyrir að hugsa um hag fjölskyldna og fyrirtækja í landinu – það vorum við alls ekki sátt við og beittum málþófi og ræddum stjórnarskránna á mjög málefnalegan hátt,“ segir hún.

Segir hún minnistætt að nokkrir grandvarir fyrrverandi ráðherrar hafi ekki verið sáttir við að fara í málþóf en hafi notað tímann til að ræða stjórnarskránna á mjög málefnalegan hátt og að það hafi verið nauðsynlegt. Segir hún að það sé alveg ástæða til að menn skoði þær ræður mjög vel þegar aftur verði farið í að ræða breytingar á stjórnarskránni.

Aðstoðaði starfsmenn þingsins við að varna mótmælendum inngöngu

Spurð að því hvort aldrei hafi komið til greina að hætta hreinlega þegar ástandið var hvað verst segir hún: „Nei, þetta var bara verkefnið sem við urðum að vinna. Á tíðum voru auðvitað mikil læti. Það var til dæmis varla hægt að vinna í þingflokksherberginu því það stóðu einhverjir og bönkuðu á gluggann. En einhvern tíma leit ég út um gluggann og horfði í augun á sveitunga mínum og hann tók félaga sinn sem var með honum og þeir löbbuðu burtu. Greinilega kunnu ekki alveg við þetta.“

Eins minnist hún þess þegar ráðist var upp á þingpallana. Þá hafi hún verið á skrifstofu þingisns og aðstoðað starfsfólk þingsins við að halda við hurð sem lggur frá stiganum upp á þingpalla til að varna fólki inngöngu inn í þinghelgina.

„Þetta var óskaplega sérstakt ástand. En ég leit bara á þetta sem verkefni að takast á við þetta og maður var ekkert skelkaður þannig heldur var þetta bara eitthvað sem við þurftum að gera. Að reyna að vinna okkur út úr þessu ástandi sem var og auðvitað með hag fjölskyldna og fyrirtækja í forgrunni,“ segir hún.

 Sjávarútvegskerfið reynst vel

„Ég held að sú leið sem valin var og við unnum að sé sú leið sem hafi farnast íslensku samfélagi best því að sjávarútvegurinn er auðvitað að skila eins og hann er rekinn núna vel til þjóðarbúsins. Það er auðvitað það sem skiptir máli að stjórnendur geti stýrt sínum fyrirtækjum með þeim hætti að sem mestur arður komi frá því og skili sér í formi skatttekna í ríkissjóð,“ segir Arnbjörg þegar talið berst að sjávarútvegnum.

„Það er ekki gott ef að ríkið er of mikið að skipta sér af atvinnulífinu. Við þekkjum það af sögunni. Hvað þá að vera beinir þátttakendur sem við erum alls ekki sammála. Ég held að það hafi mjög sýnt sig í sjávarútvegi að kvótakerfið og sú leið sem við fórum í að stýra sjávarútveginum í löggjöfinni – það hefur reynst vel og þá leysa fyrirtækin sín mál þegar að þau þekkja umhverfið og hafa öruggt umhverfi til að starfa í,“ segir hún.

Rætt var um nýsköpun í sjávarútvegi sem er að skila miklu til þjóðarbúsins s.s. Kerecis sem er fyrsti einhyrningur Íslands í íslenskri nýsköpun og vinnur úr þorskroði.

„Þetta er afleyðing af þessu af því að sjávarútvegurinn gat rekið sig með þeim hætti að byggja sig upp, byggja upp góðan fiskiskipaflota. Þetta gerist ekki í tómarúmi. Það þarf rammann utan um þetta og þá verður til nýsköpun þegar að menn hafa tækifæri til þess,“ segir hún.

Þá rifjar hún það upp þegar hún starfaði fyrst í sjávarútvegi. Þá hafi ástandið verið þannig að sjávarútvegurinn hafi hangið á horreiminni.

„Það var alltaf verið að stýra efnahagslífinu í kringum sjávarútveginn þannig að annað hvort var útgerðin að detta á hausinn eða fiskvinnslan. Ég var gjaldkeri í sjávarútvegsfyrirtæki og skrifstofustjóri og það var alltaf spurninginn að fara með listann til bankastjórans hvort hann væri já eða nei maður. Þetta er bara ekki umhverfi sem er hægt að lifa við og byggja upp almennilegar atvinnugreinar,“ segir hún.

Stærstu skrefin í jafnréttismálum alltaf tekin í tíð Sjálfstæðisflokksins

„Ég tel að það hafi verið mjög farsælt skref fyrir fjölskyldur í landinu að sú leið var farin. Frumvarpið var unnið í fjármálaráðuneytinu hjá Geir Haarde og að hluta í félagsmálaráðuneytinu og ég kom aðeins að undirbúningi að því. Síðan fór það inn í þingið og auðvitað voru ekki allir sáttir við svona byltingu sem var í raun og veru fyrir fjölskyldur í landinu og ýmsir sem gátu séð eitthvað neikvætt við það. En mér tókst sem formaður í félagsmálanefnd að leiða þetta í gegnum nefndina með farsælum hætti þannig að okkur tókst á einum þingvetri að koma þessu í gegnum þingið,“ segir hún um fæðingarorlofslögin þar sem réttur feðra til töku orlofs var innleiddur og setir að þar hafi verið um mikið jafnréttismál að ræða.

„Ég er nokkuð viss um að ef þetta hefði dregist aðeins lengur, ef þetta hefði farið fram á næsta þing hefðu andstæðingarnir verið búnir að safna betur vopnum sínum gegn málinu. En ég held að þetta hafi svo sannarlega sýnt sig fyrir ungar fjölskyldur að þarna er feðraorlofið og fæðingarorlofið komið inn þar sem foreldrar hafa jöfn tækifæri. Þetta var hugsað frá upphafi þannig að þetta væri jafnréttismál og ég held að það hafi algjörlega sýnt sig og ég held að Sjálfstæðisflokkurinn megi vera mjög stoltur af þessu skrefi sem flokkurinn tók þarna,“ segir hún.

Þá bætir hún við: „Ef við horfum á jafnréttisbaráttuna í gegnum tíðina þá hafa stærstu skrefin alltaf verið tekin í tíð Sjálfstæðisflokksins. Ég held að það væri vert að skoða það hvernig sú saga er.“

Nauðsynlegt að tala saman

Þá er rætt um breytingar sem orðið hafa á stjórnmálunum.

„Samfélagsmiðlarnir breyta rosalega miklu. Að sumu leyti áhyggjuefni en auðvitað er það með allar framfarir að það þarf að takast á við þær með opnum huga og hvernig við getum þá nýtt samfélagsmiðlana til þess að koma okkar grunngildum áfram,“segir hún um breytingar á umhverfi stjórnmálanna.

Hún segir hættu að fólk sé þar í of miklum bergmálshelli að tala við sjálfa sig og að skilaboðin komist ekki á milli hópa. Þá sé fólk ekki að tala saman.

Sjálfstæðisflokkurinn arkitekt að íslensku velferðarsamfélagi

„Hjá Sjálfstæðisflokknum hefur þetta alltaf verið svo mikilvægt. Þetta er lýðræðisflokkur. Við getum alltaf talað saman. Við höldum stóra landsfundi þar sem við tökumst á um málin. Komumst að niðurstöðu og þetta er eins í þinginu þar sem þingið er málstofa þar sem menn eru að ræða og bera saman sjónarmið og komast að niðurstöðu. Hættan er þegar öll umræða fer að fara of mikið fram á samfélagsmiðlum að menn nái ekki að tengjast þvert á skoðanir og diskútera málin,“ segir hún.

„Sjálfstæðisflokkurinn er víðsýnn en hann er þjóðlegur. Við byggjum alltaf á grunni atvinnufrelsis og einstaklingsfrelsis sem skiptir meginmáli að fólk hafi frelsi til athafna. Sé ekki rammað of mikið inn á einhverjum ríkisklafa sem að heldur aftur af fólki. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka alltaf verið flokkur allra stétta,“ segir hún um Sjálfstæðisflokkinn.

„Ég held að þetta hafi alltaf verið ástæðan fyrir þessu góða gengi Sjálfstæðisflokksins. Ég held að ef fólk leggur sig niður við það þá skilur það þessi grundvallaratriði og það er þetta sem hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn áfram og þetta hefur leitt íslenskt þjóðfélag áfram af því að flokkurinn hefur verið það lengi við völd og er arkitekt að því hvernig íslenskt velferðarsamfélag er í dag,“ segir hún.

Þáttinn má finna á á Spotify hér.