Björn Bjarnason fer yfir stjórnmálaferilinn í yfirgripsmiklu viðtali

Fjórði þáttur nýrrar þáttaraðar í tilefni af 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára lýðveldis. Andri Steinn Hilmarsson ræðir við Björn Bjarnason fyrrverandi menntamálaráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra um hans stjórnmálaferil. Björn settist á þing árið 1991 og sat þar til ársins 2009 eða í 18 ár samfellt. Í viðtalinu rekur Björn sinn stjórnmálaferil og fjölmörg stór mál sem hann vann að á löngum ferli. Viðtalið má einnig finna hér í hljóðformi.

Eitt af því sem hann nefnir er EES-samningurinn 1994.

„Sem formaður utanríkismálanefndar kom það í hlut minn að leiða frumvarpið í gegnum þingið. Þetta er mjög stór lagaflokkur, samningurinn hundruð greina. Við héldum svo marga fundi að það er ótrúlegt þegar litið er til baka hvernig við komumst yfir það á þeim tíma sem höfðum. Líka þegar litið er á þær deilur og þá hörku sem var í þessum umræðum. Við kláruðum það í tæka tíð. Þetta var það mál sem var mesta átakamálið á þessum árum ´91 til´95. Hart um þetta deilt. Það er ekki fyrr en 2007 sem allir þingflokkar verða einhuga um það að aðildin að EES sé Íslendingum fyrir bestu,“ segir Björn.

Ræddi hann einnig ýmsar raddirraddir um EES-samninginn í dag og hvernig samningurinn hafi gagnast okkur þessi 30 ár frá því hann var innleiddur á Íslandi.

Þá nefndi hann stjórnarmyndunarviðræður 1995 þegar Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að mynda ríkisstjórn með Framsóknarflokknum í stað Alþýðuflokksins. Nefndi hann að Alþýðuflokkurinn hafi eftir innleiðingu EES-samningsins verið farinn að ræða hvort næsta skref ætti að vera innganga í ESB sem Björn o.fl. hafi verið mótfallnir. Hann sagði að þetta hafi skapað hjá sér ákveðna tortryggni í garð Alþýðuflokksins og að hann hafi beitt sér fyrir því að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn sem hafi gengið eftir. Það hafi varað í 12 ár sem sé mjög langur tími í íslenskri stjórnmálasögu þegar horft er á samstarf tveggja stjórnmálaflokka.

„Ég sat í þessum ríkisstjórnum 1995 til 2009 þegar hrunið varð og stjórn okkar og Samylkingarinnar sprakk,“ segir hann.

Kom að tilfærslu grunnskóla til sveitarfélaganna

Hann nefnir einnig tilfærslu grunnskólanna frá ríkis til sveitarfélaga. Hann tók við því verkefni af hendi Ólafs G. Einarssonar sem var menntamálaráðherra 1991-1995. Segir Björn að hverjum einasta steini hafi verið velt og að það hafi engin stór mál komið upp síðar eftir að tilfærslan gekk eftir.

„Ég er mjög stoltur af því hvernig það tókst að gera þetta og flytja grunnskólana til sveitarfélaganna,“ segir hann.

Þá nefnir hann nýjar námskrár en segir að þær hafi því miður ekki staðið nógu lengi. Það hafi verið í höndum ráðherra að gera á þeim breytingar og að allar síðari tíma breytingar hafi ekki verið til góðs að hans mati.

Björn ræðir aðra stóra breytingu sem unnið var að í tíð hans í menntamálaráðuneytinu þegar opnað var á einkarekstur í háskólastarfi. Nefnir hann að Listaháskóli Íslands hafi orðið til og að ýtt hafi verið undir háskólastarfsemi hjá Verslunarskóla Íslands sem síðar hafi orðið Háskólinn í Reykjavík. Eins að ýtt hafi verið undir háskólastarfsemi á Bifröst. Mikilvægt hafi verið að losa um einkokun ríkisins í háskólastarfi sem hafi skilað miklu.

Kosningarnar 2003, Baugsmálið o.fl.

Björn sat í borgarstjórn Reykjavíkur 2002-2006 og ræðir borgarmálin í viðtalinu, m.a. um Orkuveitu Reykjavíkur og annað sem þá var uppi.

Þá ræðir hann einnig kosningarnar 2003 og fræga ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Borgarnesi í aðdraganda þeirra kosninga.

„Í kosningunum 2003 þá var Ingibjörg Sólrún að taka við Samfylkingunni og flytur þessa frægu ræðu í Borgarnesi. Það var þetta deilumál; Baugur, Bónus, Sjálfstæðisflokkurinn, vinir Davíðs í viðskiptaheiminum, óvinir Baugsamanna og allt þetta mál sem Bláa höndin, Hallgrímur Helgason og þessir snillingar, fóru að skipta sér af stjórnmálum,“ segir hann og einnig: „Þessir sem voru vinir Davíðs og hinir – hún var fulltrúi hinna.“

Hann ræðir einnig Fréttablaðið.

„Fréttablaðið var gefið þarna út og kemur í ljós síðar um vorið að Fréttablaðið var komið í eigu Baugsmanna. Þeir keyptu það með leynd 2002 og það er upplýst í kosningabaráttunni að þeir eiga Fréttablaðið. Þetta var mjög hörð kosningabarátta og andstæðingar Sjálfstæðisflokksins töldu sér trú að þeir myndu vinna þessar kosningar. Gríðarleg vonbrigði að þeir töpuðu,“ segir hann.

„Það er alltaf draumurinn hjá þessu fólki að valta yfir Sjálfstæðisflokkinn og gera út af við hann. Það gerðist ekki og varð áframhald af samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks,“ segir hann og að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafi samið um að hafa stólskipti á miðju kjörtímabili.

Þá nefnir hann fjölmiðlamálið svokallaða sem kom upp í maí 2004 þegar Ólafur Ragnar Grímsson ákveður að beita synjunarvaldinu í fyrsta sinn. Rekur hann það mál nokkuð og segir að þær áhyggjur sem þá hafi verið uppi um frjálsa fjölmiðlun.

„Fjölmiðlamálið var sett í það ljós að það ætti að drepa Fréttablaðið,“ segir hann. Hann segir að þetta hafi ekki átt við rök að styðjast enda hafi allir fjölmiðar farið á hausinn nema Morgunblaðið og Ríkisútvarpið þrátt fyrir að ekki yrði af innleiðingu fjölmiðlalaganna.

Hann rekur einnig Baugsmálið áfram og segir að Baugsmenn hafi verið orðnir mjög hatrammir. Minnist prófkjörs Sjálfstæðisflokksins 2006 og kosninganna 2007.

„Þegar Jóhannes í Bónus birti auglýsingar og hvatti fólk til að strika yfir mig svo ég næði ekki kjöri. En ég hélt svo áfram sem dómsmálaráðherra árið 2007 í stjórn með Samfylkingunni,“ segir hann.

Þá nefnir Björn ýmis önnur stór mál á sínum ferli.

„Lög um Landhelgisgæsluna, lög um almannavarnir, að koma á fót sérsveitinni. Breytingarnar sem við urðum að gera þegar varnarliðið fór, efla Landhelgisgæsluna, þyrlusveitina, nýtt varðskip, eftirlitsflugvél o.s.frv. Þetta voru miklur breytingatímar og átakatímar,“ segir hann.

Stjórnmálin orðin meira flöt

Eins er hann spurður út í stærstu breytingarnar á stjórnmálunum og nefnir þar fjölda flokka á Alþingi. Þegar hann hafi komið inn í stjórnmálin hafi verið sama gamla flokkaskipanin, fjórflokkurinn og svo einstaka flokkabrot.

Nú segir hann að stjórnmálin séu orðin meira flöt. Það endurspeglist í því að það þurfi þriggja flokka ríkisstjórn.

Eins nefnir hann að eftir fjármálahrunið hafi komið meiri illska í pólitíkina og að umræðan hafi tekið á sig verri mynd.

Hann segir samt að stjórnmálin gangi ágætlega.

„Ísland hefur aldrei staðið betur en núna þegar litið er á efnahaginn og hvernig við stöndum út á við peningalega þurfum við ekki að kvarta. Núna þegar búið er að gera kjarasamninga til margra ára, þetta er óþekkt og hefur ekki þekkst áður,“ nefnir hann og einnig: „Pólitíkin hefur versnað en pólitískur árangur er góður. Þeir sem stjórna hafa getað tekist á við gríðarlega erfið viðfangsefni og leyst þau.“

Sjálfstæðismenn vildu ekki ganga í ESB

Björn var spurður sérstaklega út í breytingar á flokknum.

„Það er að flísast út úr flokknum. Það er ekkert gamanmál þegar gamall flokksbróðir og vinur Þorsteinn Pálsson og Þorgerður Katrín, fólk sem maður vann náið með, fer og stofnar sérstakan flokk til að vinna að aðild að Evrópusambandinu,“ segir hann.

Nefnir hann að haustið 2008 hafi Samfylkingin viljað láta kanna það hvort Sjálfstæðisflokkurinn myndi vilja breyta um stefnu í ESB-málum og stíga það skref að berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

„Það er segin saga að ef eru einhver viðfangsefni brýn þá koma ESB-sinnar og segja; Notum  tækifærið og reynum að koma Íslandi inn í ESB,“ segir hann.

Nefnir hann vinnu sem Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins setti af stað sama haust þar sem afstaða sjálfstæðismanna til ESB aðildar var skoðuð.

„Niðurstaðan var alveg skýr. Sjálfstæðismenn höfðu ekki áhuga á aðild Íslands að ESB,“ segir Björn.

„Það var liður í því að Samfylkingin gekk til samstarfs við Vinstri græna. Síðan höldum við landsfund í mars 2009 og þar samþykkjum við að Ísland fari ekki í ESB án þess að það verði borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu hvort það ætti að sækja um aðild. Þetta er orðið stefna allra flokka núna,“ segir hann.

Hann segir að þetta deilumál hafi stuðlað að því að Viðreisn varð til.

„Viðreisn sem er núna hætt að tala um ESB aðildina af nokkrum þunga. Það kemur upp ef þau eru þráspurð þá játa þau að það blundi með þeim,“ segir hann.

Náum árangri með sjálfstæðisstefnunni

Rætt var við Björn um framtíðina og um sjónarmið margra um að flokkurinn stefni ekki í rétt átt.

„Mér finnst að þetta sé frekar að menn séu farnir að fletja of mikið út og alltaf að reyna að taka tillit til svo margra sjónarmiða og halda að það skili einhverju sem máli skiptir. Þú ferð yfirleitt alltaf meira og meira út á kantinn. Þú verður að stilla þér upp og standa föstum föstum. Sem við sjálfstæðismenn höfum með okkar grunnstefnu og allt það sem hún stendur fyrir. Ef þú stendur á henni og spyrnir þá nærðu árangri en í þessum flokkafjölda þá þarftu að gera málamiðlanir og það er náttúrulega hluti af reiðinni eða þunganum innan Sjálfstæðisflokksins að það hafi orðið að semja við Vinstri græna. Mönnum finnst það of langt gengið. Menn geta kannski samið við Framsókn. Menn geta samið við jafnaðarmenn. En Vinstri grænir eru svo langt út á túni fyrir okkur að við teygjum okkur of langt og þá fara að hrynja af okkur perlufestarnar,“ segir hann.

Hann segir að loftslagsmálin séu ekki mál sem muni sameina menn. Þau skipi fólki frekar í hópa.

„Orkumálin ættu hins vegar að vera mál sem við ættum að geta náð utan um. En þá er búið að búa til svo mikið regluverk að það lamast allt,“ segir hann.

„Það er nú eitt af því sem ég hef fengið tækifæri til að sinna undanfarin misseri er landbúnaðarmál og byggðafesta og annað slíkt. Þar fer maður inn í heim þar sem regluverkið og eftirlitskerfið setur mönnu mjög þröngar skorður oft á tíðum,“ segir hann og ræðir að það þurfi að vinna gegn of miklu regluverki. Það sé ekki einfalt, kosti mikla vinnu og mikla sannfæringu. En ekki síður annars konar baráttuaðferðir þegar netheimar eru orðnir jafn öflugir og í dag með öðruvísi leiðum til að koma á framfæri skoðunum fólks og hafa áhrif á fólk.

Losa fólk undan smáreglum og afskiptasemi ríkisvaldsins

„Ég myndi hafa það sem eitt af höfuðbaráttumálunum að fara ofan í þetta með stjórnkerfið. Ég tel líka að stjórnkerfið hafi verið illa leikið eftir hrunið og eftir breytingar sem voru gerðar og það sé búið að brjóta það allt of mikið upp. Fólk hafi það á tilfinningunni að það fái ekki þá niðurstöðu og þau svör sem þurfi. Þess vegna sé vantraustið á stjórnmálamenn meðal annars,“ segir Björn aðspurður um það hver væru hans helstu baráttumál ef hann stæði í stafni stjórnmálanna í dag.

„Ég myndi leggja mig mjög fram um að finna slíkar lausnir til þess að knýja mál fram, eins og ég tel að hafi gerst til dæmis með því að opna háskólakerfið, til dæmis með því að setja lög um almannavarnir, kerfi sem er svo sveigjanlegt að það getur lagað sig jafnt að náttúruhamförum og öllu því sem gerist. Við getum notað það. Það þurfi svona sveigjanlegri kerfi sem falla að okkar stjórnarháttum og losa fólk undan þessum smáreglum og afskipasemi ríkisvaldsins sem eru orðin ansi mikil,“ segir hann.

Nálgast má viðtalið á Spotify hér.