„Þurfum að standa saman í þessari baráttu“
'}}

„Við þurfum að svara fyrir okkur. Við þurfum að standa saman í þessari baráttu. Við þurfum að mæta til leiks. Ekki láta segja okkur fyrir hvað við stöndum. Ekki láta ráðast á okkar fólk, okkar forystumenn í kjördæmum, á þinginu, í sveitastjórnum, hvar sem er, án þess að það kosti samtal. Án þess að því sé svarað með málefnalegum hætti. Við reynum alltaf að eiga málefnalegt innlegg, málefnalegt samtal við fólkið í landinu,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra á fundi með sjálfstæðismönnum á Nordica um nýliðna helgi þar sem hann ræddi m.a. um mikilvægi samstöðu sjálfstæðismanna.

„Okkur þykir vænt um lýðræðið. Okkur þykir vænt um skoðanaskipti. Pólitísk umræða þarf að vera grundvölluð á heilbrigði lýðræðislegri umræðu. Ekki sleggjudómum eða netárásum eða hvað þú vilt kalla það,“ sagði hann.

Þá nefndi Bjarni að í tæp 100 ár hafi Sjálfstæðisflokkurinn fundið leiðir til að móta grunngildi flokksins að aðstæðum hverju sinni og að ráðherrar og þingmenn flokksins hlakki til að halda áfram að vinna þessa vinnu í samvinnu við flokksmenn.

„Stefnumótun í einstökum málum gerist ekki í reykfylltum bakherbergjum. Hún gerist með því að við skynjum hjartslátt samfélagsins. Með því að við förum út og erum opin fyrir lýðræðislegri umræðu, opin fyrir röddum í flokknum okkar. Við þurfum alltaf að vera á varðbergi gagnvart árásum á flokkinn, en þurfum ekki síður að vera vakandi yfir röddum fólksins í landinu,“ sagði Bjarni

Hann nefndi hringferðir þingflokks sem hafa verið farnar árlega um landið undanfarin ár.

„Við fáum almennt svipuð skilaboð þegar við förum um landið. Í þessari hringferð síðast var margt að kallast á við fyrri hringferðir. Fólk kallar eftir því að við drögum úr afskiptum hins opinbera – það er mjög skýr rauður þráður. Að fleiri fái að freista gæfunnar án opinberra afskipta. Að við setjum framtakssömu fólki færri reglur, færri kvaðir. Það þurfi ekki alltaf að vera að sækja um leyfi fyrir öllu. Að leyfin séu ekki háð slíkum skilyrðum að það sé ósanngjarnt að fara fram á að þau séu öll uppfyllt,“ sagði hann.

Hann sagði fólk kalla eftir því að fá að grípa tækifærin í landinu án of mikilla opinberra afskipta. Sagði hann að það sé stöðugt verið að ræða og leita leiða til að ná frekari árangri í þessum efnum og að þar væri samstaðan mikil. Bjarni gaf ekki mikið fyrir áhyggjur stjórnarandstöðuþingmanna af ríkisstjórnarsamstarfinu. Sagði hann sum þeirra varla tala um neitt annað og saknaði þess að stjórnarandstaðan ræddi málin á málefnalegum grunni.

Sjá einnig fréttir af fundinum hér og hér.

Hægt er að sjá ræðuna í heild í spilaranum hér fyrir neðan: