Allir sem eiga aðild að ríkisstjórninni fái notið sín

„Það eru þrír flokkar í ríkisstjórn. Fyrir þeim öllum vil ég berjast þannig að allir fái sín notið sem eiga aðild að ríkisstjórninni. Það skiptir máli til þess að við náum þessum pólitíska stöðugleika sem ég legg mikið virði í,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í ræðu sinni í gær á fundinum á Nordica hóteli.

Hann sagði að vissulega gæti tekið á að gera málamiðlanir stundum. Það sé ekkert sjálfsagt að miðla málum þegar verið sé að tala um hugsjónir og stefnumál sem búið sé að leggja mikla vinnu í að móta og mikil sannfæring sé fyrir að þurfi að komast til framkvæmda og eigi brýnt erindi við fólkið í landinu.

„En við skulum gæta okkar á því að ganga ekki of langt í kröfunni um að okkar áherslur í hverju og einu máli verði einar látnar ráða. Hvar endum við þá? Með enga samstarfsmenn, enga aðra flokka sem geta unnið með okkur,“ sagði Bjarni

Hann sagði að sjálfstæðismenn yrðu að viðurkenna og ræða meira um að þegar það séu átta flokkar á Alþingi þurfi að leita leiða til að vinna að framfaramálum fyrir þjóðina.

„Þetta höfum við verið að gera í ólíkum ríkisstjórnum. Við gerum ekki málamiðlanir út frá grundvallarsannfæringu okkar og við erum ekki til í og ég var aldrei til í að ræða um ríkisstjórn nema hún forgangsraði þessum stóru mikilvægu málum sem ég var að ræða um áðan. Við munum líka þurfa að ræða um fleira og undir það bið ég ykkur að vera búin,“ sagði hann.

Ræðu Bjarna í heild sinni má nálgast hér fyrir neðan: