Ríkið kaupi upp eignir í Grindavík
'}}

Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins telur rétt að ríkið bjóðist til að kaupa allt íbúðarhúsnæði í Grindavík sem Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir ekki. Þessu lýsti hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 17. janúar (sjá hér).

Vilhjálmur Árnason ritari Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður lýsti yfir sömu sjónarmiðum í samtali við Morgunblaðið á mánudag (sjá hér).

Óli Björn vill jafnframt að eigendum verði veittur forkaupsréttur á eignum sínum svo þeir geti gengið að þeim vísum þegar talið verður öruggt að búa í Grindavík á ný og forsendur skapast til að byggja bæinn að nýju.

„Von­in og trú­in er sterk­asta afl okk­ar í glím­unni við erfiðleika. Stjórn­völd­um og Alþingi ber skylda til þess að veita Grind­vík­ing­um von og styrkja trú þeirra á framtíðinni. Gefa þeim tæki­færi til að ráða ör­lög­um sín­um – taka sjálf­stæða ákvörðun án þving­ana. Bolt­inn er hjá rík­is­stjórn og Alþingi,“ segir Óli Björn.

Vilhjálmur hafði áður lýst því að þetta væri eina lausnin í málefnum Grindvíkinga. Þetta sé stóra málið sem Grindvíkingar kalli eftir og að það muni leysa flest vandamál ríkisstjórnarinnar. Hann sé vongóður um að stjórnvöld fari þessa leið sem sé besta og skilvirkasta leiðin.

Óli Björn segir að staðan á Reykjanesi sé ein stærsta áskorun sem Íslandingar hafi staðið frammi fyrir síðustu áratugi.

„Framtíð eins glæsi­leg­asta sveit­ar­fé­lags lands­ins er ógnað með al­var­legri hætti en við höf­um fengið að kynn­ast frá eld­gos­inu í Vest­manna­eyj­um 1973. All­ir Íslend­ing­ar horfðu agndofa á krafta nátt­úr­unn­ar þegar eld­gíg­ur opnaðist inn­an bæj­ar­marka Grinda­vík­ur og hraun lagði und­ir sig nokk­ur hús,“ seg­ir Óli Björn.

Hann segir okkur öll bera þá von í brjósti að hægt verði að endurbyggja Grindavík. En þó nauðsynlegt sé að halda í vonina verði raunsæi að ráða, ekki síst þegar komi að stuðningsaðgerðum ríkisins fyrir íbúa og fyrirtæki. Við blasi að langur tími muni líða þar til óhætt verði talið fyrir Grindvíkinga að snúa aftur heim.

Íslendingar þurfi að laga sig að nýjum veruleika. Reisa varnarmannvirki þar sem hægt sé, en einnig að þróa byggðina á Reykjanesi og á höfðuðborgarsvæðinu með öðrum hætti en áður var talið óhætt að gera.

Greinina í heild sinni má finna hér.