Óli Björn Kárason alþingismaður:
Samkeppnishæfni íslensks atvinnulífsins byggist á nokkrum stoðum. Skipulag raforkumála er ein þeirra mikilvægustu. Raforkuöryggi – trygg nægjanleg orka – er forsenda atvinnu- og verðmætasköpunar og þar með almennra lífskjara. Án orku verður lítið gert.
Illa er hægt að mótmæla því að ein dýrmætasta auðlind okkar Íslendinga sé hrein orka. Ekki síst þess vegna getum við aldrei gengið þannig fram að við afsölum okkur fullum yfirráðum yfir orkuauðlindunum; fallvötnunum og jarðvarma að ógleymdum vindinum.
Það er margt sem er okkur óhagstætt. Ísland er strjálbýlt eyland, langt frá öðrum mörkuðum. Flutningskostnaður og annað óhagræði rýrir samkeppnishæfni landsins, jafnt í útflutningi sem innflutningi. En það er hins vegar margt sem spilar með okkur – gefur okkur forskot á aðrar þjóðir. Í grein hér í Morgunblaðinu í september 2018 benti ég meðal annars á að aðgangur að hreinni og hlutfallslega ódýrri orku auki samkeppnishæfni atvinnulífsins og styrki ímynd landsins sem perlu náttúru og hreinleika:
„Yfirráð yfir skipulagi auðlinda sem tryggja okkur hreina orku skipta ekki síður máli þegar við tökumst á við áskoranir í loftslagsmálum og náttúruvernd.“
Metnaðarfull aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er óframkvæmanleg án orkuauðlinda og skynsamlegrar sjálfbærrar nýtingar þeirra. Hástemmdar yfirlýsingar á alþjóðlegum loftslagsfundum eða til heimabrúks eru án innihalds ef lítill vilji er til að nýta tækifærin til grænnar orkuöflunar.
Samofið grunngildum
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á skynsamlega nýtingu orkuauðlinda enda samofin grunngildum flokksins. Í ályktunum landsfundar árið 2022 er lögð rík áhersla á orkumálin. Bent er á hið augljósa: Ætli Íslendingar að ná metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum verður meðal annars að leggja áherslu á orkuskipti í lofti, láði og legi. Í ályktun atvinnuveganefndar segir orðrétt: „Íslensk útflutnings- og framleiðslufyrirtæki skulu njóta þess samkeppnisforskots sem felst í notkun á grænni íslenskri orku.“ Og nokkru síðar: „Ísland á að vera miðpunktur orkusækins iðnaðar með samkeppnishæfu raforkuverði.“
Flokksráðsfundur í ágúst síðastliðnum var afgerandi í stjórnmálaályktun um orkumálin:
„Raforkuöryggi er forsenda öflugrar byggðar og atvinnulífs um allt land. Ávinningur af grænni orkubyltingu er óumdeildur. Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland verði leiðandi í orkuskiptum og fyrirmynd annarra þjóða. Forsenda orkuskipta og árangurs í baráttu við loftlagsbreytingar er tryggt aðgengi að grænni orku. Í þeim efnum eiga Íslendingar fleiri tækifæri en flestar aðrar þjóðir.
Tafarlaust þarf að stórauka framleiðslu grænnar orku. Treysta verður flutningskerfi raforku. Endurskoða skal lög um rammaáætlun og einfalda regluverk og stjórnsýslu tengda grænni orkuvinnslu. Hagsmunir almennings og almennra notenda verða að vera í forgangi við græn orkuskipti.“
Neyðarhemill
Að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði atvinnuveganefnd Alþingis fram frumvarp til að tryggja að fyrirsjáanlegur orkuskortur kæmi ekki niður á heimilum og minni fyrirtækjum. Í greinargerð er bent á að mikil umframeftirspurn hafi verið eftir raforku á undanförnum árum og „nýtt orkuframboð hefur ekki haldið í við aukna eftirspurn“. Verði frumvarpið samþykkt fær Orkustofnun tímabundna heimild sem á að tryggja almennum notendum, þ.e. öðrum notendum en stórnotendum, forgang. Með öðrum orðum: Ef orkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja er ógnað getur Orkustofnun gripið í neyðarhemil. Líkur eru á að heimildin verði virkjuð á yfirstandandi vetri. Þar spila saman skortur á nýrri orku og vond staða miðlunarlóna.
Frumvarpið er viðbragð við stöðu sem fáir trúðu að þjóð sem á fjölmarga kosti í orkuöflun gæti lent í. Orkuskorturinn hefur þegar haft áhrif. Þriðja veturinn í röð neyðast fiskimjölsverksmiðjur til að brenna olíu vegna raforkuskorts. Því er haldið fram að aukin olíunotkun vegna þessa síðasta vetur hafi þurrkað út allan loftslagsávinning af öllum innfluttum rafmagnsbílum frá upphafi. Þannig vinnur orkuskortur gegn orkuskiptum og við fjarlægjumst háleit markmið í loftslagsmálum.
Við stöndum á ákveðnum krossgötum. Ef stjórnvöld meina eitthvað með áherslu á orkuskipti – draga úr og á endanum hætta notkun á jarðefnaeldsneyti – þarf að hefja stórátak í grænni orkuframleiðslu. Án nægrar grænnar orku er allt tal um orkuskipti merkingarlaust.
Í einfaldleika sínum getum við sagt að orkuöryggi sé allt í senn atvinnu-, byggða- og velferðarmál fyrir utan þjóðaröryggi. Og einmitt þess vegna komast stjórnvöld; ríkisstjórn, Alþingi og grunnstofnanir á sviði skipulags- og orkumála, ekki hjá því að taka höndum saman við að ryðja úr vegi hindrunum sem koma í veg fyrir nýja græna orkuöflun.
Ég hef ítrekað haldið því fram að ein frumskylda stjórnvalda á hverjum tíma sé að verja og styrkja samkeppnishæfni landsins. Tryggja að íslensk fyrirtæki og launafólk verði ekki undir í harðri alþjóðlegri samkeppni. Aðeins þannig er hægt að sækja fram og bæta lífskjör alls almennings og standa við loforð um öflugt velferðarsamfélag. Án tryggrar orku er grafið undan lífskjörum framtíðarinnar.
Ríkisstjórn og löggjafi sem skilja ekki eða virða að vettugi frumskyldur sínar þurfa að endurskoða erindi sitt.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. desember 2023.