Ásmundur Friðriksson alþingismaður:
Fyrr í haust lagði ég fram þingsályktunartillögu um lyfjahamp á Alþingi. Í tillögunni felst að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem hafi það hlutverk að útbúa frumvarp sem heimili ræktun lyfjahamps til kannabisræktunar og framleiðslu og dreifingu á kannabislyfjum í lækningaskyni. Markmið tillögunnar er í grunninn tvíþætt: að lina þjáningar fólks og skapa atvinnutækifæri.
Stórsókn í lyfjaframleiðslu
Umræða um mögulega lögleiðingu kannabisefna hér á landi er ekki ný af nálinni. Það er mikilvægt að við fylgjumst vel með þeirri framþróun sem hefur átt sér stað í málaflokknum á síðustu árum og gætum þess að missa ekki af lestinni. Við gerð þingsályktunartillögunnar leit ég til tilraunaverkefnis í Danmörku sem hófst árið 2018. Sambærilegt verkefni hér á landi myndi byggja á rannsóknum og gæti jafnvel skapað ný tækifæri til nýsköpunar í landbúnaði og ekki síst í lyfjaiðnaði á orkuríkum svæðum, til að mynda á Suðurlandi og á Suðurnesjum.
Með tillögunni er ég ekki að leggja til lögleiðingu kannabisefna í afþreyingarskyni. Ég tel það þó ekki réttlætanlegt að meina sjúklingum aðgang að kannabisvörum sem gætu stórbætt lífsgæði, af þeirri ástæðu einni að einhverjir kynnu að misnota þær. Ljóst er að langvinnir verkir eru stórt samfélagslegt vandamál og mikill kostnaður fyrir samfélagið í formi tapaðrar starfsgetu og álags fyrir heilbrigðiskerfið. Þrátt fyrir að sannanir fyrir jákvæðum áhrifum kannabiss sem lyfs í læknisfræðilegum tilgangi séu enn sem komið er takmarkaðar tel ég að ávinningur af læknisfræðilegum kannabisvörum vegi þyngra en neikvæð áhrif. Ég hef fundið fyrir miklum áhuga á málinu og hvatningu utan úr samfélaginu, ekki síst frá einstaklingum sem sjálfir hafa þurft að glíma við langvinna verki.
Fjárhagsleg verðmæti
Auk þeirrar gagnsemi lyfjahamps sem fjölmargar rannsóknir benda til, m.a. til meðferðar á flogaveiki, kvíða, vöðvakrampa og geðrofi, tel ég einnig gríðarlega atvinnumöguleika felast í ræktun kannabisplantna hér á landi. Árið 2021 voru kannabisvörur í Bandaríkjunum seldar fyrir alls 25 milljarða bandaríkjadala, þar af 65% í lækningaskyni. Áætlanir gera ráð fyrir að kannabisvörur verði seldar fyrir allt að 100 milljarða bandaríkjadala árið 2028. Er því ljóst að um ört vaxandi iðnað er að ræða, hvort sem er vestanhafs eða í Evrópu, þar sem æ fleiri ríki kanna möguleika á því að heimila notkun kannabisefna upp að einhverju marki. Þá má benda á að sala á kannabisvörum skilaði allt að 3 milljörðum bandaríkjadala í virðisaukaskatt í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem hafa lögleitt kannabisefni árið 2022.
Það er gríðarlegur ávinningur fyrir samfélagið að leita allra leiða til að bæta líf og heilsu Íslendinga. Við getum ekki rekið lestina í þessum efnum á grundvelli rökstuðnings sem byggður er á fordómum og vanþekkingu. Við stöndum frammi fyrir gríðarlegum heilsuvanda þjóðarinnar sem fer vaxandi. Lausnirnar eru til staðar og reynsla nágrannaríkja er fyrir framan okkur.
Hitt er svo að kannabismarkaður er vaxandi víða um heim og veltir gríðarlegum fjárhæðum. Það er afar svart að láta þessa hagsmuni í hendurnar á þeim sem stýra undirheimunum eins og staðan er í dag. Eltum Dani og komum Íslandi inn í framtíðina!
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2023.