Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður og forseti Norðurlandaráðs:
Þing Norðurlandaráðs var haldið í Osló á dögunum. Þar hlotnaðist mér sá heiður að vera kosin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2024. Oddný Harðardóttir er varaforseti og saman ætlum við að stýra Norðurlandaráði á næsta ári og halda Norðurlandaráðsþing hér á landi í október.
Norðurlandaráð er samstarfsvettvangur skipaður 87 þingmönnum frá öllum Norðurlöndunum. Þetta er viðamesta alþjóðasamstarf Alþingis en sjö þingmenn sitja í Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Þingfundir eru haldnir tvisvar á ári þar sem afgreiddar eru ályktanir og teknar ákvarðanir um þau mál sem þingið vill að ríkisstjórnir Norðurlandanna finni lausnir á. Undirbúningur ályktana á sér stað inni í nefndum ráðsins og hjá flokkahópum.
Friður og öryggi á norðurslóðum
Yfirskrift formennskuáætlunarinnar sem við kynntum á þinginu í Osló er „Friður og öryggi á norðurslóðum“ með þeirri áherslu að stuðla að öryggi Norðurlanda og bandalagsþjóða þeirra á norðurslóðum en jafnframt vekja athygli á nauðsyn þess að draga úr spennu á svæðinu og finna friðsamlegar lausnir. Með orðinu „öryggi“ í yfirskrift áætlunarinnar eigum við ekki aðeins við öryggismál í hefðbundnum skilningi heldur einnig margt annað sem tengist velferð og framtíð Norðurlanda og sérstaklega íbúa á norðurslóðum. Þar má nefna velferðarmál, stöðu jaðarhópa af ýmsu tagi, fæðuöryggi og erfiðleika fjölmiðla á jaðarsvæðum.
Staðan sem upp er komin eftir allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 hefur haft mikil áhrif á samvinnu norðurslóðaríkja. Samstarfið við Rússa er nánast í lamasessi. Norðmenn, sem nú eru í formennsku í Norðurskautsráðinu, hafa fengið það erfiða verkefni að finna leiðir út úr þeirri flóknu stöðu sem upp er komin. Við teljum að náið og gott samstarf Norðurlanda sé lykilatriði í þessu sambandi. Við erum ekki ein um þá skoðun. Mikilvægi samvinnu Norðurlanda í norðurslóðamálum var nefnt í skýrslu um varnar- og öryggismál sem Thorvald Stoltenberg vann fyrir utanríkisráðherra landanna árið 2007, í skýrslu Björns Bjarnasonar um norrænt samstarf í öryggis- og utanríkismálum frá árinu 2020 og í skýrslu Jan-Eriks Enestams frá 2021 um almannavarnir á Norðurlöndum sem unnin var fyrir samstarfsráðherrana.
Þróun mála á norðurslóðum skiptir alla heimsbyggðina máli enda sýna mörg ríki þessu svæði mikinn áhuga, ekki aðeins hin eiginlegu norðurslóðaríki. Nefna má Kína sem stefnir að því að opna nýja silkileið í norðri sem á að vera hluti af „Belti- og brautáætluninni“.
Við á Norðurlöndum leggjum mikið upp úr því að farið sé að alþjóðalögum, að mannréttindi séu virt og að viðmið réttarríkisins séu í hávegum höfð. Ég lít svo á að sem norðurslóðaríki sé það skylda okkar að verja þessi gildi á norðurslóðum og að koma í veg fyrir hernaðarkapphlaup og stjórnlaust auðlindakapphlaup.
Þegar norðurslóðir eru til umræðu verður ekki hjá því komist að fjalla um loftslagsmál. Hlýnun á norðurslóðum er að jafnaði fjórum sinnum meiri en í öðrum heimshlutum. Bráðnun íss opnar siglingarleiðir og aðgang að auðlindum.
Norðurlöndin boðberar friðar
Styrkur Norðurlanda og norræns samstarfs byggist ekki á því að við séum sammála um allt. Við höfum oft gengið í gegnum erfiða tíma í samskiptum okkar og verið ákaflega ósammála. Meginstyrkur okkar er sá að við getum tekist á við áskoranir og ágreiningsefni á góðan og friðsamlegan hátt. Friður hefur ríkt í innbyrðis samskiptum Norðurlanda í meira en 200 ár. Það er merkilegur árangur og það eru fáir heimshlutar sem hafa búið við slíka gæfu. Vonandi getur sú reynsla stuðlað að friði og góðum samskiptum á norðurslóðum og á öðrum nágrannasvæðum okkar.
En það dugar ekki fyrir okkur að státa af afrekum fyrri tíma og prédika yfir öðrum að gera eins og við. Við þurfum líka að rækta og þróa okkar samstarf og laga okkur að breyttum aðstæðum. Norræn samfélög eru stöðugt að breytast og sömuleiðis umheimurinn. Ef Norðurlandaráð og norrænt samstarf stendur í stað við þessar aðstæður hættum við smám saman að skipta máli.
Framtíð norræns samstarfs
Starf Norðurlandaráðs byggist á Helsingforssamningnum sem undirritaður var árið 1962. Einhverjar breytingar hafa verið gerðar á samningnum en hann stendur að meginhluta til óbreyttur. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ákvað í byrjun þess árs að skipa starfshóp um endurskoðun á samningnum. Af sögulegum ástæðum er ekkert fjallað í honum um öryggis- og varnarmál. Að mínu mati er mikilvægt að því verði breytt nú. Umsóknir Svía og Finna um inngöngu í Nató hafa opnað á mikilvægi þess að öryggis- og varnarmál séu á dagskrá Norðurlandaráðs. En það er fleira sem liggur þarna undir. Mútte B. Egede, forsætisráðherra Grænlands, hélt ræðu á Norðurlandaráðsþingi í Osló um daginn þar sem hann lýsti því með áhrifaríkum hætti hvernig Grænlendingar upplifi sig sem aukagesti í partíi norræns samstarfs en ekki sem raunverulega þátttakendur.
Samkvæmt Helsingforssamningnum sem er einskonar stjórnarskrá Norðurlandaráðs eru norrænu ríkin fimm, það er að segja Ísland, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk, fullgildir aðilar að samstarfinu en Færeyjar, Grænland og Álandseyjar eiga fulltrúa sem eru hluti af landsdeildum Danmerkur og Finnlands. Færeyjar hafa um langt skeið sóst eftir því að fá fulla aðild að Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni og nú virðast Grænlendingar vera að taka sömu stefnu. Umræðan um stöðu þeirra verður því augljóslega stór hluti af endurskoðun Helsinforssamningsins.
Framtíðartungumál í norrænu samstarfi
Eitt af því sem við viljum skoða er staða tungumálanna í norrænu samstarfi. Fyrir marga Norðurlandabúa er skandinavískan eitt af því sem tengir saman löndin.
Á Íslandi hefur kunnáttu í skandinavískum málum hrakað um langt skeið en samtímis hefur enskukunnátta aukist. Útlit er fyrir að þessi þróun haldi áfram. Að óbreyttu má því búast við að aðstöðumunur til þátttöku í samstarfinu á grundvelli tungumálakunnáttu aukist. Svipuð staða er uppi í Finnlandi og búast má við að þróunin verði í sömu átt í Færeyjum og á Grænlandi.
Á Íslandi og í hinum norrænu löndunum hefur innflytjendum fjölgað mikið. Mikilvægt er að þeir fái sömu tækifæri og möguleika og þeir sem fæddir eru á Íslandi til að sinna störfum innan stjórnsýslu, viðskipta og menningar þar sem norrænt samstarf er oft í hávegum haft. Það er nógu erfitt fyrir þá sem hingað flytja að læra íslensku sem þó er mikilvægt og nauðsynlegt til að geta tekið fullan þátt í íslensku samfélagslífi. En að krefjast þess að þetta fólk læri einnig dönsku eða annað skandinavískt tungumál er ótækt.
Víða hefur enskan náð yfirhöndinni í norrænu samstarfi en þó ekki alls staðar. Ég vil meina að samstarfið sjálft sé meira virði en tungumálið sem við tölum. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að það er kostur fyrir Íslendinga að kunna eitthvað fyrir sér í skandinavískum tungumálum. Það auðveldar okkur að nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast í hinum norrænu löndunum og í norrænu samstarfi. Íslendingar eru yfirleitt mjög jákvæðir gagnvart norrænu samstarfi og það er okkur mikilvægt enda velja flestir Íslendingar sem nema erlendis að læra í Danmörku eða annars staðar í Skandinavíu. Flestir Íslendingar sem flytja til útlanda fara einmitt til Norðurlanda. Þegar Danir, Norðmenn og Svíar koma saman velja þeir yfirleitt að tala móðurmálið sitt og virðast að minnsta kosti að einhverju leyti skilja hvorir aðra.
Tungumálakunnátta má ekki verða hindrun sem útilokar einstaklinga frá því að taka þátt í norrænu samstarfi.
Formennskuáætlunina má kynna sér hér:
https://www.norden.org/is/node/84051
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. nóvember 2023.