Tek undir með Vil­hjálmi Birgis­syni um að metnir verði kostir og gallar nýs gjald­miðils
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Ég tek undir með formanni Starfsgreinasambandsins sem telur rétt að þjóðin meti kosti og galla þess að taka upp annan gjaldmiðil. Gjaldmiðlar hafa nefnilega kosti og galla eins og Vilhjálmur bendir á. Hér á landi er t.d. heill stjórnmálaflokkur sem byggir alla sína tilveru á trúnni á að evran sé töfralausn fyrir Ísland. En til að slíkt mat verði ekki bara enn eitt þrætueplið þarf að tryggja að sem flestir sem málið varðar hafi aðkomu að því.

Flestar upplýsingar liggja fyrir. Það þarf að bara að draga þær saman og taka það með sem máli skiptir. Við slíka skoðun eða samantekt þarf meðal annars að líta til þess hvernig nýr gjaldmiðill hentar atvinnuvegunum, t.d. þeim sem eru gjaldeyrisskapandi. Varðandi heimilin skipta vextir máli, en þó miklu fremur heildargreiðslur vegna húsnæðisöflunar. Skoða þarf áhrif á verðbólgustig og vaxtatekjur og – gjöld fyrirtækja, annars vegar, og almennings hins vegar. Sömuleiðis hver áhrif ólíkra hagsveiflna á mismunandi gjaldmiðlasvæðum gætu orðið á þjóðarbúskapinn. Að lokum þarf að skoða fórnarkostnaðinn við nýjan gjaldmiðil. Með upptöku evru kæmi aðild að ESB. Hver er óhjákvæmilegur fórnarkostnaður þjóðarinnar við afsal úthafsveiðanna til ESB? Hver yrði væntanlegur fórnarkostnaður og áhætta við afhendingu fiskimiðanna undir yfirráð ESB? Þetta geta Samtök fiskframleiðenda og -útflytjenda upplýst.

Sjálfgefið sýnist að Seðlabankinn geri þessa skoðun með aðkomu annarra. Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur myndu örugglega vilja hafa hönd í bagga. Til að skoðunin geti gengið hratt og örugglega yrði að takmarka fjölda slíkra aðila. Best væri að ESB sinnar kæmu sér saman um einn mann. Að öðrum ólöstuðum væri Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar, nánast sjálfkjörinn til að vera slíkur fulltrúi. Það kæmi sér vel að niðurstaða lægi fyrir áður en kjarasamningar hefjast fyrir alvöru. Þá getum við lagt þessa þrætu á hilluna, a.m.k. um skeið. Það er enginn gjaldmiðill fullkominn en það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að fólk þekki kosti og galla mismunandi gjaldmiðla ef taka á umræðuna á lýðræðislegan hátt.

Greinin birtist á visir.is 21. nóvember 2023.