Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Samkvæmt nýbirtri útkomuspá Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir 4,8 milljarða halla af rekstri borgarsjóðs árið 2023. Samhliða muni samstæða Reykjavíkurborgar skila 4,4 milljarða rekstrarhalla, sem er 12,5 milljarða neikvæð sveifla frá áætlun. Þetta kalla borgarstjóri og skósveinn hans, oddviti Framsóknar, ánægjuleg tíðindi.
Digurbarkalegar yfirlýsingar
Fyrir tæpu ári birtust nokkuð digurbarkalegar yfirlýsingar meirihlutans, um að fram undan væru einhverjar mestu hagræðingaraðgerðir frá hruni. Þegar betur var að gáð reyndust áformin bæði léttvæg og máttlaus. Ekki til þess fallin að hreyfa nálina í rekstri borgarinnar.
Nú, að ári liðnu, sést glöggt að útgjöld borgarinnar hafa ekki dregist saman svo nokkru nemur – þvert á móti blásið út langt umfram verðlagsþróun og kjarasamningsbundnar launahækkanir. Samhliða hefur starfsfólki ekki fækkað á neinu sviði, þrátt fyrir boðaða fækkun stöðugilda.
Eina ástæða þess að rekstrarhallinn fer úr rúmum 15 milljörðum í tæpa fimm er gríðarlegur tekjuvöxtur borgarinnar. Í ár hafa skatttekjur, jöfnunarsjóðstekjur og arðgreiðslur til borgarinnar vaxið um tæplega 21 milljarð milli ára. Samhliða hefur launakostnaður og rekstrarkostnaður þyngst sem nemur 11 milljörðum. Margumtalaður 10 milljarða viðsnúningur í rekstri borgarinnar skýrist því ekki af hagræðingu – hann er sóttur beint í vasa skattgreiðenda.
Stór hluti aukinna skatttekna er fólginn í hækkun fasteignagjalda þessa árs, í kjölfar 20% hækkana fasteignamats. Langflest stærstu sveitarfélög landsins brugðust við hækkun matsins með lækkun álagningarhlutfalla. Reykjavík sá ekki ástæðu til þess, þrátt fyrir ítrekaðar tillögur okkar sjálfstæðismanna. Sjái Samfylking tekjutusku þá vindur hún hana.
Treysta á sölu Perlunnar
Fulltrúar meirihlutans gleðjast þessi dægrin yfir væntum viðsnúningi næsta árs, en þá er áætlað að borgarsjóður skili loks jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Þau láta hins vegar hjá líða að nefna að viðsnúningurinn byggist á þeirri lykilforsendu að Perlan í Öskjuhlíð verði seld fyrir minnst 3,5 milljarða. Takist það ekki verður rekstrarhallinn að líkindum þrír milljarðar.
Samhliða reiða þau sig á tugmilljarða arðgreiðslur frá Orkuveitu næstu árin. Ef arðgreiðslnanna nyti ekki við myndi rekstur borgarinnar verða ósjálfbær næstu fjögur árin hið minnsta.
Áframhaldandi skuldasöfnun
Árið 2022 jukust skuldir samstæðu borgarinnar um 44 milljarða og er áformað að ný lántaka nemi 219 milljörðum næstu fimm árin. Skuldir borgarsjóðs jukust um 25 milljarða og munu halda áfram að aukast. Áætlað er að árið 2028 muni afborganir langtímalána og leiguskulda nema 14,6 milljörðum árlega, sem er um tvöfaldur hallinn af málaflokki fatlaðs fólks í Reykjavík!
Það er ljóst að bregðast þarf við látlausri skuldasöfnun borgarinnar og huga fljótt að skipulegri niðurgreiðslu skulda.
Áþreifanlegar aðgerðir sem hreyfa nálina
Það mun taka nokkur ár og heilmikið átak að vinda ofan af áralangri óstjórn í rekstri borgarinnar. Á næstu vikum munu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks kynna tillögur sem eru raunverulega til þess fallnar að hreyfa nálina í rekstri borgarinnar. Tillögurnar munu miða að umfangsmikilli hagræðingu í rekstri og minnkun yfirbyggingar. Þær munu snúa að einföldun stjórnkerfis og auknum rekstrarútboðum. Þær munu jafnframt snúa að eignasölu og þeirri áherslu að borgin standi ekki í samkeppnisrekstri.
Það þarf breyttar áherslur og raunhæfar aðgerðir til að koma böndum á rekstur borgarinnar. Mikilvægasta aðgerðin er þó sennilega sú að skipta um meirihluta í Reykjavík.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023.