Glæpahópar hreiðra um sig á Íslandi
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Ekkert lát hefur verið á frásögnum af alvarlegum ofbeldisglæpum og árásum í Svíþjóð. Ofbeldisaldan hefur verið rakin til átaka glæpagengja sem þar hafa hreiðrað um sig. Tugir hafa látið lífið í tengslum við ofbeldisátök, m.a. í skotbardögum. Morðtilraunir og sprengjuárásir eru daglegt brauð og yfirvöld virðast nánast ráðþrota. Sífellt fleiri saklausir borgarar sem engin tengsl hafa við gengin verða fyrir barðinu á ofbeldinu. Lögreglan í Svíþjóð hefur þurft að auka viðbúnað sinn og hefur jafnvel verið rætt um aðstoð hersins vegna ástandsins.

Vegna þessa ræddumst við dómsmálaráðherra Guðrún Hafsteinsdóttir við á Alþingi um skipulagða glæpastarfsemi. Ég spurði ráðherrann út í þróun skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi undanfarin ár. Sömuleiðis hvort og þá til hvaða aðgerða hún hygðist grípa til að sporna við skipulagðri brotastarfsemi. Til samanburðar óskaði ég eftir því að ráðherra greindi frá þróuninni á Norðurlöndum og viðbrögðum stjórnvalda þar.

Dómsmálaráðherra benti á að hérlendis væri aukin ógn vegna skipulagðrar brotastarfsemi og að aukin umsvif erlendra glæpahópa væru merkjanleg hér á landi. Um væri að ræða hópa sem bæði væru umsvifamiklir á fíkniefnamörkuðum víða um heim og hópa sem stunda skipulagt smygl á fólki í bland við mansal. Sömuleiðis væru skýrar vísbendingar um umfangsmikið peningaþvætti á Íslandi. Líklegt væri að glæpahópar myndu leitast við að auka umsvif sín hérlendis á komandi árum. Ráðherrann benti m.a. á fjölgun alvarlegra ofbeldisbrota, m.a. brota þar sem hnífum er beitt og tilkynninga um vopnaburð.

Dómsmálaráðherra fór yfir hvernig skipulagðir glæpahópar hefðu náð að skjóta rótum á Norðurlöndum. Það hefði haft í för með sér margvíslegan samfélagsvanda. Átök þessara hópa hefðu verið áberandi bæði í Svíþjóð og Danmörku. Vopnaburður hefur aukist, alvarlegum líkamsárásum fjölgað og manndrápum sömuleiðis.

Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vita hvaða lærdóm við getum dregið af þróuninni á Norðurlöndum og viðbrögðum stjórnvalda þar. Dómsmálaráðherra sagði að miðlun þekkingar, upplýsinga og reynslu milli ríkja væri lykilatriði í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Því væri nauðsynlegt að efla samstarf við önnur ríki. Í því skyni væri m.a. mikilvægt að samræma valdheimildir lögreglu hér á landi og heimildir lögreglu í nágrannaríkjum okkar.

Það er vel þekkt að Íslendingar eru oft árum eða áratug á eftir hinum Norðurlandaþjóðunum í þróun á ýmsum málaflokkum. Eins og með svo margt er mikilvægt að við fylgjumst vel með þróuninni þar og hvaða lærdóma við getum dregið af alvarlegri stöðu sem upp er komin hjá vinaþjóðum okkar. Það er síðan umhugsunarvert að hérlendis sé nokkur hópur manna sem telja okkur geta látið sem ekkert sé og að ekki þurfi að grípa til ráðstafana vegna þessa.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023