Óli Björn Kárason alþingismaður skrifaði í gær áhugaverða grein í Morgunblaðið þar sem hann rekur þær skattkerfisbreytingar sem átt hafa sér stað í tíð Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu síðasta áratuginn. Fjallað var einnig um efni greinarinnar hér. Þar eru raktar lækkanir tekjuskatts, og lækkanir tryggingagjalda, tolla og vörugjalda, erfiðafjárskatts og fjármagnstekjuskatts.
Óli Björn vísar í greininni í ítarleg svör fjármála- og efnahagsráðuneytisns á þeim breytingum sem gerðar hafa verið á síðusta áratug. Hann segir að ljóst megi vera af svörum ráðuneytisins að skattkerfisbreytingarnar hafi lækkað skatta bæði á heimili og fyrirtæki og aukið ráðstöfunartekjur heimilanna. Þá sýni gögnin að sú aukning sé hlutfallslega mest hjá tekjulægri heimilum. Í frétt í gær úr efni greinarinnar er í því samhengi nefnt að í ár sé innheimta tekjuskatts af einstaklingum 61 milljarði lægri en var árið 2013 þegar Bjarni tók við embætti fjármála- og efnahagsráðherra, það jafngildir um 5 milljörðum lægri skattheimtu tekjuskatts af einstaklingum á mánuði þetta árið. Uppsafnað á tímabili Bjarna í ráðuneytinu hefur innheimta tekjuskatts verið 333 milljörðum lægri en miðað við óbreytt tekjuskattskerfi.
Svarið er ekki tæmandi um alla þá skatta sem hafa verið lækkaðir eða afnumdir. Kemur fram í svarinu að ekki séu teknar með breytingar sem hafi mjög lítil tekjuáhrif og ekki heldur breytingar á krónutölugjöldum nema þær hafi breyst að raunvirði til hækkunar og lækkunar. Eins eru veiðigjöld ekki meðtalin né skattfrjáls úttekt séreignarsparnaðar vegna íbúðakaupa. Þá séu tímabundnir skattar sem ekki voru framlengdir undanskildir, s.s. auðlegðarskattur sem féll niður árið 2015. Tekjuáhrifin af honum fyrir ríkissjóð eru metin á 10,7 milljarða á verðlagi ársins. Eins var orkuskattur felldur niður ári síðar sem lækkaði skattbyrðina um 2,2 milljarða.
Þá segir Óli Björn ráðuneytið benda á í sínu svari að skattar hafi hagræn áhrif á ákvarðanir heimila og fyrirtækja og þar með á hinar ýmsu hagstærðir, þar með talið skattstofnana sjálfa.
„Það er virkilega ánægjulegt að sjá þennan skilning sem mér finnst oft vanta í umræðu um skatta. Þannig geta tekjur ríkissjóðs hækkað þótt skatthlutfall sé lækkað vegna aukinna umsvifa. Þá geta tekjur af öðrum sköttum hækkað þótt tekjur af öðrum lækki vegna breytinga á skatthlutföllum. Dæmi um þetta er auknar tekjur af virðisaukaskatti vegna lækkunar tekjuskatts,“ segir Óli Björn.
Hann segir að hversu mikil hækkunin sé fari eftir aðstæðum á hverjum tíma og á jaðarneysluhneigð. Svipað megi sega um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað. Jákvætt samhengi sé á milli endurgreiðsluhlutfalls og tekna ríkissjóðs af öðrum skattstofnum, eins og tryggingagjaldi og tekjuskatti.
150 milljarða lækkun
Á meðfylgjandi mynd sést að tekjur ríkisins af virðisaukaskatti er yfir 24 milljörðum hærri en ef kerfið hefði verið óbreytt frá 2012.
„Neðra þrep virðisaukans var hækkað, efra þrepið lækkað og skattstofninn breikkaður. Ávinningur ríkissjóðs er verulegur samkvæmt áætlunum. Á móti kemur afnám almennra vörugjalda og niðurfelling flestra tolla, að undanskildum landbúnaðarvörum, sem talið er að leiði til 20 milljarða lægri skatta á þessu ári. Uppsöfnuð áhrif af niðurfellingu vörugjalda og tolla eru um 150 milljarðar á tímabilinu. Áhrif virðisaukaskattsbreytinga eru liðlega 163 milljarðar,“ segir Óli Björn.
Óli Björn nefnir kolefnisgjöld og umhverfisskatta sem hafa hækkað til að styðja við sett markmið í loftslagsmálum.
„Ég hef haft töluverðar efasemdir um ágæti kolefnisgjaldsins. Vísbendingar eru um að gjaldið leggist misjafnlega þungt á atvinnugreinar sem og launafólk. Umhverfisskattar, svokallaðir grænir skattar, kunna að vera skynsamlegir. Hættan er sú að þeir verði skjól fyrir aukna skattheimtu og hafi neikvæð áhrif á samkeppnishæfni þjóðarinnar. Þessu til viðbótar hefur verið varað við því að grænir skattar leggist hlutfallslega þyngra á þá sem lægstu tekjurnar hafa. Umhverfisskattar geta því aukið efnahagslegan ójöfnuð,“ segir hann.
Þá nefnir hann fjármálamarkaðinn sem hafi þurft að bera byrðar á síðustu árum. Hann nefnir að uppsafnaðar skattabreytingar á fjármálamarkaðinn frá 2013 nemi liðlega 176 milljörðum króna og muni þar langmestu um bankaskattinn. Skatturinn hafi verið lagður á árið 2011 og hækkaður verulega í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það hafi verið gert ekki síst til að fjármagna umfangsmiklar leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána. Alþingi hafi svo samþykkt í lok árs 2019 að lækka bankaskattinn í áföngum til ársins 2024.
„Lækkunin styður við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka skilvirkni í fjármálakerfinu og lækka kostnað neytenda. Bankaskatturinn skilaði alls um 147 milljörðum króna frá 2013 til 2023,“ segir Óli Björn.
Bönd á skattagleðina
Óli Björn segir að því verði illa mótmælt að frá árinu 2013 hafi töluvert áunnist í að hemja skattagleði ríkisins.
„Árangurinn blasir við þegar rýnt er í tölulegar upplýsingar. En jafnvel þótt flest skrefin sem stigin hafa verið síðasta áratuginn séu í rétta átt, stendur sú staðreynd óhögguð að Ísland er háskattaland í alþjóðlegum samanburði. Ég hef verið óþreytandi við að benda á að skattbyrði launafólks og fyrirtækja hafi bæði áhrif á samkeppnishæfni þjóðarinnar og á lífskjör,“ segir hann.
Hann segir Bjarna Benediktsson skilja eftir góðan vegvísi eftir rúman áratug í fjármálaráðuneytinu. Þann vegvísi muni þeir stjórnmálamenn sem líta á einstaklinga og fyrirtæki sem tekjuhlaðborð ekki nota.
„Við hin skiljum að hófsemd í skattheimtu og öðrum álögum skilar sífellt auknum tekjum í ríkissjóð þar sem ýtt er undir efnahagsstarfsemi. Þær auknu tekjur eru forsenda þess að sótt verði áfram fram í uppbyggingu velferðarkerfisins og mikilvægra samfélagslegra og efnahagslegra innviða,“ segir hann.
Hér má finna grein Óla Björns í heild sinni.
Hér má finna frétt um sama efni frá því í gær.+