Samfylkingin boðar hvorki nýja stefnu né nýja hugsun 

Óli Björn Kárason alþingismaður segir tillögur Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum reistar á sandi í nýlegri grein í Morgunblaðinu. Þar vitnar hann í nýútgefinn bækling frá flokknum sem fjalli um áherslur í heilbrigðismálum. Áður var fjallað um efni greinarinnar hér. 

Óli Björn vitnar í orð Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingarinnar frá því síðastliðið vor þar sem hún tali um að endurskoða þurfi hvernig heilbrigðiskerfið sé fjármagnað en að fram til þessa hafi hún ekki lagt spil sín á borðin þegar komi að aukinni skattheimtu. Talað sé um að sameinast um að sækja tekjur sem hljómi betur en að tala hreint út um skattahækkanir.

Hann segir að vísu rætt í bæklingi Samfylkingarinnar um að draga úr misræmi milli skattlagningar fjármagns- og launatekna. En hvað í því felist sé óljóst. Að venju sé lofað að tryggja að arður af sameignlegum náttúruauðlindum nýtist í þágu samfélagsins alls og að boðuð sé endurskoðun á tekjuskattskerfinu. Það verði gert með það markmið að færast nær velferðarsamfélögum Norðurlanda. En hvað Samfylkingin eigi við með því sé óljóst enda ætli flokkurinn að útfæra aukna skattheimtu nánar „eftir samtöl við fólkið í land­inu um hús­næðis- og kjara­mál frá vori fram á haust 2024“.

„Það skal játað að ég varð fyr­ir tölu­verðum von­brigðum með „ör­uggu skref­in“ sem Sam­fylk­ing­in hef­ur boðað. Ég átti von á ít­ar­leg­um til­lög­um um breytt skipu­lag og fjár­mögn­un heil­brigðis­kerf­is­ins. Þær von­ir voru reist­ar á sandi,“ segir Óli Björn.

„Sam­fylk­ing­in er ekki að boða nýja stefnu – hvað þá nýja hugs­un – í heil­brigðisþjón­ustu,“ segir hann.

Hann segir Þjóðarmarkmiðin sem minnst er á í bæklingnum almenn og sett þannig fram að allir geti tekið undir. Það eina sem liggi fyrir sé löngun Samfylkingarinnar til að auka útgjöld til heilbrigðismála um tugi milljarða á ári með því að taka stærri sneið af þjóðarkökunni. „Enn og aft­ur skipt­ir stærð kök­unn­ar ekki mestu held­ur hlut­falls­leg stærð sneiðar­inn­ar.“

„Ég hef haldið því fram, m.a. í blaðaskrif­um, að ís­lensk heil­brigðisþjón­usta sé í póli­tískri sjálf­heldu frá­breyti­leika og verri þjón­ustu – sé fangi kröf­unn­ar um sí­fellt auk­in út­gjöld, án skýrra mæli­kv­arða um gæði eða kröf­unn­ar um að fjár­mun­um sé varið af skyn­semi,“ segir Óli Björn.

Ekki verði annað séð en að það sé sjálfstætt markmið Samfylkingarinnar að auka útgjöld til heilbrigðismála. Öllum hafi mátt vera ljóst að Íslendingar standi frammi fyrir því að auka útgjöld til heilbrigðismála á komandi árum.

„En það má aldrei verða sjálf­stætt mark­mið að auka út­gjöld­in líkt og Sam­fylk­ing­in legg­ur upp með. Keppikeflið er öfl­ug heil­brigðisþjón­usta og auk­in lífs­gæði borg­ar­anna, betri nýt­ing fjár­muna, vinnu­afls, tækja og fast­eigna, sam­hliða inn­leiðingu tækni­lausna og ný­sköp­un­ar,“ segir hann.

Val­kost­irn­ir að skýr­ast

Óli Björn segir tugmilljarða kosningaloforð í heilbrigðismálum ekki eina útspilið sem Samfylkingin verði með fyrir næstu kosningar. Auknar millifærslur verði boðaðar, stórátak í félagslegu húsnæði og þannig megi lengi telja.

Hann segir það blasa við að á nýju kjörtímabili muni skattar og álögur á einstaklinga og fyrirtæki hækka verulega, komist Samfylkingin í ríkisstjórn. Líklega verði fyrirmyndin sótt til Reykjavíkurborgar. Samfylkingin hugsi með hryllingi til þess þegar hið opinbera „afsali“ sér tekjum eða þegar tekjustofnar séu „vannýttir“ með því að skattar og gjöld séu ekki í hæstu hæðum.

„Það er göm­ul saga og ný að skattagleði í anda Sam­fylk­ing­ar­inn­ar dreg­ur kraft­inn úr samfélag­inu. Hvat­inn til efna­hags­legra um­svifa ein­stak­linga og fyr­ir­tækja hverf­ur. Hætt­an er sú að þjóðarkak­an minnki hægt og bít­andi sem aft­ur er ein leið til að auka út­gjöld til heil­brigðismála sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu í sam­ræmi við stefnu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, þótt þau lækki jafn­vel að raun­v­irði.

Að þessu leyti eru val­kost­ir kjós­enda að skýr­ast,“ segir hann í greininni sem í heild sinni má finna hér.