Óli Björn Kárason alþingismaður segist í nýlegri aðsendri grein í Morgunblaðinu hafa beðið „nokkuð spenntur“ eftir ítarlegum og útfærðum tillögum Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum. Hann segir formann flokksins og aðra þingmenn hans hafa byggt skipulega undir miklar væntingar meðal kjósenda um áætlun um stórsókn í heilbrigðismálum undir forystu Samfylkingarinnar.
„En fjallið tók joðsótt og síðasta mánudag fæddist lítil mús. Í fallegum 24 blaðsíðna bæklingi er lítið bitasætt og fátt nýtt. Engar nýjar hugmyndir eða tillögur um breytt skipulag heilbrigðiskerfisins.
„Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum“ – er sögð verklýsing fyrir nýja ríkisstjórn með fimm þjóðarmarkmiðum og öruggum skrefum í rétta átt. (Tískuorð Samfylkingarinnar þessa mánuðina og líklega fram að kosningum er „öryggi“.) Þjóðarmarkmiðin fimm eru almenn og raunar svo sjálfsögð að draga verður í efa að það finnist Íslendingur sem setur sig upp á móti þeim,“ segir Óli Björn.
Óli Björn vitnar í orð Kristrúnar Frostadóttur úr löngum inngangi í bæklingi Samfylkingarinnar þar sem hún segir að uppi sé pólitískur ágreiningur um sýn og stefnu, aðferðir og fjármögnun og að þar vilji Samfylkingin bjóða upp á skýran valkost.
„Hafi markmiðið með útspili Samfylkingarinnar síðasta mánudag verið að bjóða upp á skýra valkosti á flokkurinn langt í land. Nema kannski að einu leyti. Þjóðarmarkmiðunum ætlar Samfylkingin að ná með gamalkunnugum aðferðum vinstrimanna; auka útgjöldin. Vinstrimenn mega varla sjá vandamál eða verkefni án þess að bjóðast til að leysa þau með auknum útgjöldum. Og útgjöldin verða fjármögnuð með aukinni skattheimtu,“ segir Óli Björn.
Í þessu sambandi bendir hann á að Samfylkingin boði hækkun ríkisútgjalda til heilbrigðismála á komandi árum um 1-1,5% af vergri landsframleiðslu. Það jafngildi 38-57 milljörðum króna miðað við landsframleiðslu síðasta árs.
„Auðvitað er forðast að tala um skattahækkanir, heldur verði að „sameinast um að sækja tekjur og taka meðvitaða ákvörðun um að fjármagna vegferðina“. Fjármögnunina á að „tryggja á tekjuhlið ríkissjóðs“! Fullyrt er að aukning útgjalda skipti sköpum „til að nýta betur það fjármagn sem nú þegar er veitt til málaflokksins“. Í huga samfylkinga er best að auka útgjöldin til að tryggja skynsamlega og hagkvæma nýtingu fjármuna ríkisins!“ segir hann segir hann í greininni sem finna má hér.