Íslenski fundarhamar Sameinuðu þjóðanna
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna var sett í vikunni í 78. sinn og voru augu heimsins venju samkvæmt á New York, borginni sem valin var til þess að hýsa þessa mikilvægustu alþjóðastofnun heims. Ráðherravika allsherjarþingsins hefur í gegnum tíðina verið vettvangur margra sögulegra viðburða og dramatískra tilþrifa. Meðal þeirra frægustu var árið 1960 þegar Níkíta Krútsjev aðalritari sovéska kommúnistaflokksins varð svo heitt í hamsi að hann reif sig úr skónum og barði honum í púltið. Forseti þingsins brást við með því að negla fundarhamrinum ákaft í borðið með þeim afleiðingum að hann hrökk í sundur.

Fundarhamarinn sem um ræðir var íslensk smíð, Ásmundarnautur, hannaður af Ásmundi Sveinssyni, og hafði verið gefin Sameinuðu þjóðunum þegar höfuðstöðvar þeirra voru teknar í notkun árið 1952. Nýr hamar var smíðaður en hann hvarf með dularfullum hætti. Enn var sendur nýr hamar árið 2006 en við setningu þingsins sl. þriðjudag gerðist það aftur að forsetinn reyndist helst til harðhentur og hamarinn góði fór í sundur. Verður nýr smíðaður og sendur í hans stað við fyrsta tækifæri.

Í ræðu minni í allsherjarþinginu á síðasta ári nefndi ég sérstaklega fundarhamarinn og það táknræna gildi sem hann hefur í sal Sameinuðu þjóðanna, þar sem ætlast er til þess að leiðtogar stórvelda hlýði leikreglunum eins og fulltrúar þeirra smæstu. Þegar Íslandi var falið að halda leiðtogafund Evrópuráðsins sl. vor var ákveðið að það væri viðeigandi að gefa þeirri stofnun einnig fundarhamar, smíðaðan eftir frummyndinni. Að mínu mati fer einkar vel á því að fámennt og herlaust ríki hafi tækifæri til þess að leggja einmitt þennan tiltekna hlut til mikilvægra alþjðóðastofnana, enda blasir við að virðing fyrir alþjóðalögum og gott alþjóðasamstarf er ríkjum eins og Íslandi mikilvæg.

Mér hefur verið þetta mikilvægi alþjóðakerfisins sérlega hugleikið frá því ég tók við núverandi hlutverki mínu. Það skiptir máli fyrir okkur Íslendinga að vanda til allrar framgöngu okkar á alþjóðavettvangi og gera það sem í okkar valdi stendur til þess að standa vörð um þær grundvallarreglur að ríki geti ekki hrifsað til sín land og lögsögu annnarra ríkja með vopnavaldi og að þegar upp koma deilur milli ríkja þá ráði lög og reglur en ekki stærð og styrkur.

Árleg könnun Maskínu sem unnin var um viðhorf almennings á Íslandi til alþjóðasamstarfs sýnir fram á að hér á landi ríkir mikill skilningur á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs. Þannig segja 72,9% að Ísland treysti á alþjóðalög og alþjóðastofnanir til að tryggja að lögsaga og landamæri séu virt, en 4,9% telja svo ekki vera. Yfirgnæfandi meirihluti (71,5%) telur að hagsæld Íslands byggist á alþjóðasamvinnu (5,3% telja svo ekki vera) og alþjóðlegum viðskiptum (76,9% en 4,2% telja þau ekki skipta afgerandi máli) og að þátttaka í alþjóðasamstarfi styrki fullveldi Íslands (72,5% en 3,7% eru ósammála). Þá er áhugavert að mjög afgerandi meirihluti teljur skipta máli að Ísland tali  máli mannréttinda á alþjóðlegum vettvangi; 84,7% eru sammála því en 5,5% telja það ekki skipta máli. Í könnunni kom líka fram að 83,8% eru andvíg því að Ísland eigi í samskiptum við Rússland á alþjóðavettvangi en 5,6% eru hlynnt slíkum samskiptum. Allar þessar niðurstöður benda ótvírætt til þess að Íslendingar skilji mætavel mikilvægi þess að við sinnum okkar alþjóðamálum af þeirri alúð og metnaði sem svo mikilsverður málaflokkur á skilið. Að finna þennan skilning á mikilvægi alþjóðamála er vindur í segl okkar sem sinnum þeim fyrir hönd Íslands.

Það er þó ljóst í mínum huga að margt í alþjóðastofnunum samtímans tekur helst til mikið með af þeirri heimsmynd sem var uppi þegar kerfið var sett upp eftir síðari heimsstyrjöld. Þörf er á hraðari þróun í átt til samtímans. Annars vegar virðist blasa við að valdahlutföll, meðal annars í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þurfa að taka mið af gjörbreyttri heimsmynd. Hér er ekki síst nauðsynlegt að bregðast við því að eitt ríki með fast sæti í öryggisráðinu, Rússland, þverbrýtur nú stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna í landvinningastríði sínu í Úkraínu. Hins vegar þurfa aljóðlegar stofnanir að taka mið af gríðarlegum breytingum sem hafa orðið á öllum sviðum samfélagsins þegar kemur að vinnulagi og samskiptum milli fólks. Þótt ákveðin íhaldssemi og varkárni sé skynsamleg þegar kemur að breytingum á aldagömlu verklagi, þá verður ekki framhjá því litið að margt í starsfháttum stórra alþjóðastofnanna virkar beinlínis forneskjulegt. Það er mikilvægt að tryggja að stofnanir og kerfi staðni ekki og Ísland á að vera rödd sem stendur vörð um mikilvægi þess með því að leggja jákvæðar og uppbyggilegar tillögur til þess hvernig alþjóðakerfið getur haldið í við samfélagsþróunina og endurnýjað erindi sitt gagnvart nýjum kynslóðum.

Það framlag Íslands, að leggja alþjóðastofnunum eins og Sameinuðu þjóðunum til fundarhamar, undirstrikar að þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst alþjóðlegt samstarf einmitt um að í stað þess að sprengjugnýr og byssuhvellir skeri úr um deiluefni milli þjóða, þá ráði lög og regla aljóðakerfins þar sem ákafur sláttur fundarhamars á tréblokk kemur í stað átaka. Við vonumst því til þess að geta sem fyrst afhent Sameinuðu þjóðunum endurnýjaðan fundarhamar.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 24. september 2023.