Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:
Í vikunni tók ég þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Lettlandi. Á leiðinni af flugvellinum í Riga kom ég við á Íslandstorgi, en torg eða götur tileinkaðar Íslandi eru í öllum höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna. Íslandstorgið í Riga var nefnt til heiðurs landinu okkar árið 2011 þegar tuttugu ár voru liðin frá því Ísland varð fyrst ríkja til þess að viðurkenna endurnýjað sjálfstæði Lettlands þegar það braust undan oki Sovétríkjanna og tók fyrstu skrefin í átt að því blómlega velmegunarsamfélagi sem Lettar nútímans hafa skapað og njóta.
Fréttir af athöfninni þegar torgið var nefnt, þann 24. ágúst 2011, herma að þáverandi utanríkisráðherra Lettlands hafi sagt í ræðu sinni að um einstakan viðburð væri að ræða því ekkert annað torg og ekkert stræti í Riga væri nefnt eftir landi. Forveri minn í starfi, Össur Skarphéðinsson, mun hafa þakkað heiðurinn en látið þess getið að í þessu máli hefði Ísland ekki gert annað en það sem væri rétt og sagði einnig að mikilvægt væri að fámenn ríki stæðu saman.
Það er oftast gifturíkast að taka ákvarðanir út frá því sem er rétt, en stundum krefst það þó sérstaks hugrekkis. Hún var ekki óumdeild, ákvörðun Íslands um að vera fyrst til að viðurkenna endurheimt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, og til voru þau sem trúðu hvorki að tímabært né óhætt væri að styðja samfélögin til frelsis enda var hann harður illi húsbóndinn, Sovétríkin, sem riðaði til falls, niðurlægður og til alls vís. Þá þótti ekki sjálfsagt að ögra þeim með þessum hætti. En sem betur fer höfðu stjórnmálamenn þess tíma hugrekki til að brjóta ísinn, vera fyrst, að gera það sem var rétt – í krafti okkar fullveldis, sem þjóð meðal þjóða og að stórum hluta; í krafti smæðarinnar.
Mikill árangur á 30 árum
Eystrasaltsríkin og Norðurlöndin eru skemmtileg blanda. Svíþjóð er langfjölmennasta ríkið í þessum hópi en ekkert þeirra telst fjölmennt í alþjóðlegu samhengi. Saman hafa þessi ríki þó áhugaverða sögu að segja því öll bjóða þau upp á frábær lífsskilyrði. Norðurlöndin hafa öll haft langvarandi frið til þess að þróa sín samfélög en Eystrasaltsríkjunum hefur tekist að ná miklum árangri á þeim rétt rúmlega þrjátíu árum sem liðin eru frá því þau brutust undan oki Sovétríkjanna. Öll ríkin eru einarðir talsmenn alþjóðalaga og alþjóðlegrar samvinnu. Fyrir fámenn ríki sem tekist hefur að skapa íbúum sínum góð lífsskilyrði er það nefnilega þess virði að leggja sitt af mörkum til að standa vörð um veröld þar sem hinir stóru mega ekki valta yfir þá smærri með ofbeldi og hótunum.
Ákvörðunin um að sýna forystu í því að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna hefur elst vel. Ákvörðunin var tekin af hugsjón en með henni eignaðist Ísland þrjá af sínum allra traustustu vinum í samfélagi þjóðanna til viðbótar við okkar traustu norrænu vina- og frændþjóðir. Það er margfalt þess virði fyrir okkur að rækta þetta samband af þeirri virðingu og alúð sem það á skilið því að við Íslendingar þurfum ekki að velkjast í vafa um hvort þessi þrjú ríki við botn Eystrasalts myndu standa með okkur ef á reyndi.
Mikilvægt samstarf
Það skiptir máli að taka því alvarlega að vera frjáls og fullvalda. Því fylgja ekki eingöngu réttindi, því fylgir ábyrgð og skyldur. Það skiptir máli að ljóst sé hvar Ísland stendur þegar tekin er afstaða til virðingar fyrir alþjóðalögum. Við kæmumst sannarlega upp með að gera minna, segja minna og tala lægra. En það felst virðing fyrir fullveldinu og frelsinu í því að taka afstöðu og tala skýrt. Og fyrir okkur sem eigum allt undir því að landamæri, lögsaga og alþjóðalög séu virt þá ættum við aldrei að skorast undan því að gera það sem er rétt og segja það sem er satt þegar kemur að því að standa vörð um mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar – að alþjóðalög standi jafnan vörð um bæði þá stærstu og smæstu. Það er undirstaða þess samfélags sem okkur hefur farnast að byggja upp. Og það er rétt að gera gagnvart þeim sem þrá að vera frjáls.
Samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna er okkur því gríðarlega mikilvægt. Ríkin eiga margt sameiginlegt og sterka sögu saman en ólíka sögu líka. Eystrasaltsríkin eiga sára sögu og þekkja því miður á eigin skinni hvað er undir. Fyrir þann litla hóp á Íslandi sem enn ekki skilur hvers lags örlög það eru að vera undir oki Kremlarvaldsins þá má hiklaust mæla með því að hann spyrji vini okkar sem búa yfir þeirri sáru reynslu.
Breytt landslag heimsmála kallar á enn öflugra samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á alþjóðavettvangi. Það er okkur eðlislægt að vinna þétt saman. Okkar vegna en líka til að sýna pólitískan stuðning við málstað sem er þess virði að berjast fyrir og standa vörð um. Stuðningurinn skiptir nefnilega í alvöru máli. Ísland á að vanda sig við að gera það sem er rétt, og umbera ekki þegar órétti er beitt.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 10. september 2023.