Fá ekki að prófa búnað í íslenskri lögsögu

Berglind Ósk Guðmundsdóttir alþingismaður:

Verðmætin í íslenskum sjávarútvegi verða ekki einungis til við það eitt að veiða fiskinn úr sjónum, heldur þarf að vinna fiskinn, gera út honum verðmæti og selja á samkeppnismörkuðum. Þær gríðarlegu fjárfestingar sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa farið í á undanförnum árum í nýsköpun, með nýjum skipum, hátæknivinnslum og búnaði um borð skila meiri verðmætum úr auðlindinni og efla samkeppnishæfni greinarinnar.

Þá hefur íslenskum sjávarútvegi borið gæfa til þess að fjárfesta í vinnslubúnaði sem er þróaður og framleiddur af íslenskum fyrirtækjum. Mörg þeirra fyrirtækja eru meðal fremstu í sínum geira á heimsvísu. Það stendur þeim fyrir þrifum að erlendum aðilum, sem kaupa búnað af íslenskum fyrirtækjum fyrir hundruð milljóna, er ekki heimilt að prófa nýja búnaðinn innan íslenskrar lögsögu heldur þarf fiskiprófunin (e. fishing trial) að fara fram t.d. innan lögsögu ESB með tilheyrandi óhagræði allra hlutaðeigandi. Ekki er um að ræða mikið magn fisks, en skipin þurfa eftirfylgni með uppsetningu og aðlögun á vinnslubúnaði í einhvern tíma eftir ísetningu hér á landi.

Áform um lagabreytingu

Á liðnu þingi lagði ég fram fyrirspurn til matvælaráðherra er sneri að því hvort ráðherra hyggist styðja við nýsköpun í sjávarútvegi með því að heimila framkvæmd fiskiprófanna fyrir erlend skip innan íslenskrar lögsögu.

Núverandi lagarammi gerir einungis ráð fyrir tímabundnum veiðitilraunum og vísindalegum rannsóknum í fiskveiðilandhelgi Íslands en ráðherra svaraði fyrirspurn minni á þann veg að breyta þurfi lögunum til að heimila fyrrgreindar fiskiprófanir í íslenskri lögsögu, þ.e. að prufukeyra búnað á erlendum skipum sem keyptur er hérlendis af íslenskum fyrirtækjum í eftirfylgni af íslenskum aðilum.

Það er því ánægjulegt greina frá því að nú hefur ráðherra boðað áform um lagabreytingu á þann veg að heimilt verði að veita aðilum skilyrt, takmörkuð og tímabundin leyfi til veiða og til að prófa nýjan vinnslu- og veiðafærabúnað í skipum.

Ryðjum hindrunum úr vegi

Samkeppni í sjávarútvegi á alþjóðavísu er hvert sem á er litið hörð. Vaxtatækifæri sjávarútvegsins felast í því að bæta nýtingu auðlindarinnar. Má því líta svo á að vaxtatækifæri íslensku hátæknifyrirtækjanna, sem þróa og selja vinnslubúnað til nýtingar hérlendis eða til útflutnings, séu nánast ótakmörkuð. Því er til mikils að vinna að ryðja hindrunum sem þessari úr vegi þeirra, efla þannig samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og stórauka útflutningsmöguleika greinarinnar.

Grétin birtist í Fiskifréttum 1. september 2023.