1.500 mánaðarlaun í umsýslu sjóða

Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:

Sjóðir ým­iss kon­ar á veg­um hins op­in­bera sem styðja og efla það mý­marga sem á borð sam­fé­lags kem­ur geta skipt veru­legu máli. Hann var til að mynda góður dóm­ur­inn frá stofn­anda Kerec­is í sum­ar þegar hann sagði að ís­lenska ný­sköp­un­ar­um­hverfið væri eitt það besta í heimi og veitti nauðsyn­leg­an stuðning við fram­göngu nýrra ís­lenskra fyr­ir­tækja. Svipaða sögu er hægt að segja um mik­il­vægi sjóða til að styðja og efla ýmsa aðra geira sam­fé­lags­ins.

Í öllu því sem vel er gert er þó hætta á að kerf­inu vaxi gagn­rýn­is­laust fisk­ur um hrygg og yf­ir­sýn­in verði á end­an­um lít­il, skurðpunkt­ar skar­ist og sér­hæf­ing og for­gangs­röðun tap­ist. Ég lagði því fram fyr­ir­spurn til allra ráðherra rík­is­stjórn­ar­inn­ar til að freista þess að fá yf­ir­sýn yfir sjóðaum­hverfið og spurði hversu marg­ir sjóðir væru á for­ræði þeirra og hver væri sjóðsupp­hæð og um­sýslu­kostnaður hvers og eins sjóðs. Síðustu svör bár­ust ný­lega.

Skör­un á milli sjóða og hár um­sýslu­kostnaður

Í svör­um ráðherr­anna við fyr­ir­spurn minni kem­ur fram að sam­an­lögð fjár­fram­lög sjóðanna eru tæp­lega 22,5 millj­arðar króna á ári. Kostnaður af um­sýslu sjóðanna er hins veg­ar met­inn á tæp­an millj­arð ár­lega. Það þykir mér há tala og til glöggv­un­ar er hún ígildi tæp­lega 1.500 meðal­mánaðarlauna á ár­inu 2022.

Svör­in staðfesta að það virðist vera of lít­il yf­ir­sýn yfir sjóðakerfið í heild með skör­un á milli ým­issa sjóða um svipuð mál­efni og jafn­vel milli ráðuneyta. Það sem er einnig um­hugs­un­ar­vert er að um­sýslu­kostnaður sjóðanna er mis­jafn og oft ótrú­lega mik­ill miðað við stærð og um­fang. Af 55 sjóðum voru ein­ung­is 19 sjóðir með und­ir 5% af út­hlutuðum fjár­mun­um í um­sýslu­kostnað. Af þeim sjóðum sem höfðu hærri um­sýslu­kostnað voru 27 sjóðir með 5-10%, sjö sjóðir með 10-25% og tveir sjóðir með yfir fjórðung í um­sýslu­kostnað.

Það seg­ir sig sjálft að hér er hægt, og verður, að gera bet­ur. Það er ábyrgðar­hluti okk­ar sem störf­um í stjórn­mál­um að vera stöðugt gagn­rýn­in á hverja ein­ustu krónu sem er eytt af hálfu hins op­in­bera og þá ekki síst á verðbólgu­tím­um.

Ég er viss um að al­veg eins og sum­ir sjóðir eru mjög mik­il­væg­ir eru aðrir það ekki. Þar verður að hafa vilja til að for­gangsraða. Ég er líka viss um að um­sýslu­kostnaði sé hægt að ná niður með meiri heild­ar­sýn og samþætt­ingu. Verk­efnið nú verður að vera að skoða hvernig við get­um bætt sjóðaum­hverfið með auk­inni skil­virkni og ein­blínt á þau verk­efni sem þurfa aðstoð til að vaxa og dafna sam­fé­lag­inu til góðs.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. ágúst 2023.