Ert þú ósáttur atvinnurekandi?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Fyrr í sumar auglýsti ég eftir ábendingum og umkvörtunum frá atvinnulífinu um rekstrarumhverfið hérlendis. Mér hafa síðan borist fjölmörg erindi enda af nógu að taka.

Efnahagsleg velferð okkar, atvinnustig og verðmætasköpun er grundvölluð á framtaki einstaklinga, sérstaklega þeirra sem reka og vinna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þetta er óumdeilanleg staðreynd sem virðist því miður hafa skolast til í vitund landsmanna. Ég hef orðið vör við það víða og hef jafnvel þurft að rökræða um það á Alþingi hverjir það eru sem skapa auðinn. Verðmætin sem standa undir samneyslu okkar; fjármunina sem þarf til að greiða fyrir þjónustu hins opinbera.

Flókið regluverk og þungar álögur eru að sliga rekstur margra fyrirtækja. Eftirlitið er of mikið og kröfur til aðila með afmarkaðan og einfaldan rekstur úr hófi fram. Afleiðingin er sóun og minni framleiðni sem leiðir til lakari lífskjara en ella.

Við sjálfstæðismenn eigum að vera málsvarar framtaks og sjálfsbjargarviðleitni. Samkeppnishæfni skiptir meginmáli fyrir atvinnulífið. Okkur þingmönnum ber skylda til að leggja okkar af mörkum til að tryggja hana. Aðeins þannig getum við tryggt almenningi áframhaldandi góð og jafnvel betri lífskjör.

Af þeim sökum hef ég nýtt þinghléið í sumar til að vinna að þingmálum í þágu fyrirtækjanna, starfsfólks þeirra og eigenda. Ég mun halda þessari vinnu áfram og hvet atvinnurekendur til að senda mér fleiri erindi á dilja.mist@althingi.is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. ágúst 2023