Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Fjórðungur er liðinn af nýju kjörtímabili borgarstjórnar. Meirihlutinn sem felldur var í síðustu kosningum fékk framhaldslíf í boði Framsóknar, sem þó hafði lofað breytingum. Málefnaáherslum fyrri meirihluta yrði viðhaldið – að breyttu breytanda. En hvað hefur breyst?
Sorphirða í lamasessi
Á sumarmánuðum var tekið í notkun nýtt flokkunarkerfi sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu. Í Reykjavík hefur innleiðing gengið verulega illa. Endurvinnslutunnur hafa staðið yfirfullar og ekki verið tæmdar svo vikum skiptir. Á sama tíma hafa nágrannasveitarfélög tryggt nokkuð áfallalausa innleiðingu. En í hverju felst munurinn?
Nágrannasveitarfélög hafa öll boðið út rekstur sinnar sorphirðu, en Reykjavíkurborg telur æskilegra að reka sorphirðuna sjálf. Í haust munu því 66 borgarstarfsmenn starfa við sorphirðu Reykjavíkur. Sjálfstæðisflokkur hefur ítrekað lagt til að þjónustan verði boðin út. Reynsla nágrannasveitarfélaga sé góð og engin ástæða fyrir hið opinbera að reka eigin sorphirðu. Tillagan hefur ítrekað verið felld af öllum flokkum í meirihlutanum.
Versnandi leikskólavandi
Áfram ríkir gríðarleg óvissa í leikskólamálum borgarinnar. Í liðnum kosningum sagðist Samfylking geta tryggt öllum 12 mánaða börnum leikskólapláss strax um haustið. Loforðin voru vitanlega svikin og foreldrar fjölmenntu á mótmæli í Ráðhúsinu. Meðalaldur barna við inngöngu á leikskóla reyndist vera 19 mánuðir, hækkaði upp í 20 mánuði um áramót og 22 mánuði nú í sumar. Framsókn heldur um málaflokkinn og hefur engu breytt – nema kannski því að staðan fer versnandi.
Áframhaldandi hallarekstur
Síðustu ársreikningar Reykjavíkurborgar voru engar fagurbókmenntir. Rekstrarhalli síðasta árs reyndist 15,6 milljarðar og skuldir héldu áfram að aukast. Oddviti Framsóknar lofaði að herða tökin í fjármálunum, ráðast í umfangsmiklar hagræðingar og ná fram áþreifanlegum viðsnúningi strax á þessu ári. Hann ætlaði að breyta!
Mann rak því í rogastans þegar rekstraruppgjör borgarinnar, fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins, var birt í borgarráði í sumar. Rekstrarhallinn reyndist nær fjórir milljarðar og var niðurstaðan tæplega tveimur milljörðum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Í síðastliðinni viku fór svo fram skuldabréfaútboð þar sem þátttaka var svo léleg að borgin neyddist til að hafna öllum tilboðum.
Nýjustu vendingar gefa því miður ekki góð fyrirheit um breytingar á rekstri borgarinnar.
Vaxandi samgönguvandi
Samkvæmt nýlegum mælingum Vegagerðarinnar hefur umferð á höfuðborgarsvæðinu aldrei mælst meiri, en hún jókst um 7,3% milli ára í júlímánuði, og telja sérfræðingar Vegagerðarinnar að ársumferð á höfuðborgarsvæðinu muni að líkindum aukast um 4,5% milli ára.
Illa hefur gengið að vinna að samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu og fer samgönguvandinn vaxandi. Líkt og á fyrri kjörtímabilum gerir meirihlutinn lítið til að greiða úr umferð fyrir alla fararmáta og flýta nauðsynlegum framkvæmdum. Staðan er slæm og hún versnar.
Húsnæðisuppbygging í frosti
Framsóknarflokkur lofaði uppbyggingu 3.000 íbúða árlega í Reykjavík. Lítið hefur þokast í málaflokknum. Þunglamaleg stjórnsýsla og íþyngjandi skilmálar hamla framtaki í borginni. Engin hreyfing hefur komist á uppbyggingarsvæði sem þó hafa verið á teikniborðinu um árabil. Tækifæri til uppbyggingar á nýjum og spennandi svæðum eru áfram vannýtt. Áherslubreytingar Framsóknar sjást hvergi innan sjóndeildarhringsins.
Skólastarf í uppnámi
Áfram er skólastarf í uppnámi um alla borg vegna viðhaldsvanda. Skólastjóri Laugarnesskóla sagði upp störfum í sumar vegna langvarandi ástands á húsnæði skólans. Skólabyrjun í Hagaskóla var jafnframt frestað um viku vegna tafa á framkvæmdum. Leikskólahúsnæði um alla borg liggur undir skemmdum og biðlistar lengjast til samræmis. Áfram mætti telja.
Börn í yfir 30 leik- og grunnskólum hafa verið á vergangi síðustu árin vegna margra ára uppsafnaðs viðhaldsvanda. Illa gengur að vinda ofan af vandanum og afleiðingarnar eru enn að raungerast. Starfsfólk vinnur við óviðunandi skilyrði og börn eru svipt lögbundnum rétti til menntunar.
Að heita því að breyta
Nýtt kjörtímabil endurnýjaðs meirihluta hefur farið brösuglega af stað og fátt hefur breyst til batnaðar. Reksturinn er áfram í molum og þjónustan fer versnandi. Það er ljóst að loforð um breytingar voru höfð að engu – og kjósendur voru hafðir að fífli. Það er miður – því sannarlega er betra að breyta vel en heita vel – og oft var þörf en nú er nauðsyn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 24. ágúst 2023.