Kistill mömmu fákur þinn
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Það er fátt betra en að vera á hest­baki í ís­lenskri nátt­úru. Njóta alls þess sem nátt­úr­an hef­ur upp á að bjóða. Sól­ar­upp­komu eða sól­ar­lags, and­vara eða hávaðaroks, úðans eða úr­hell­is, fjalla og dala. Í góðum fé­lags­skap er iðulega riðið sam­an í sam­tali, stund­um í þögn en allra best þegar brest­ur á með söng. Ég hef lík­lega verið um fimm ára göm­ul þegar ég lærði þetta skemmti­lega ljóð:

Ríðum heim til Hóla.
Pabba kné er klár­inn minn,
kistill mömmu fák­ur þinn,
ríðum heim til Hóla.

Ég var orðin aðeins eldri, og far­in að horfa til þess að læra hesta­fræði á Hól­um, þegar mér var sagt að þegar Skag­f­irðing­ar færu að hinum merka stað Hól­um í Hjalta­dal þá segðu þeir að þeir væru að fara „heim að Hól­um“. Ég hef nokkr­um sinn­um farið „heim að Hól­um“, síðast nú í júlí og ávallt hrif­ist af sögu og menn­ingu staðar­ins.

Í nærri þúsund ár hafa Hól­ar í Hjalta­dal hafa verið eitt helsta menn­ing­ar- og mennta­set­ur lands­ins. Staður­inn hef­ur átt því láni að fagna að fjöl­marg­ir merk­ir leiðtog­ar hafa haldið merkj­um Hóla á lofti og fundið leiðir til að efla starf­sem­ina. Stund­um hef­ur verið litið svo á að skól­inn sé í sam­keppni við aðra ís­lenska há­skóla en í hröðu alþjóðlegu um­hverfi, þar sem nem­end­ur setja það ekki fyr­ir sig að stunda nám hvar sem er í heim­in­um, verðum við að horf­ast í augu við að besta leiðin til að styrkja sam­keppn­is­stöðu ís­lenskra há­skóla er að þeir starfi sam­an. Við erum of fá­menn þjóð til að reka sjö há­skóla. Eina leiðin til að auka slag­kraft þeirra er að þeir taki hönd­um sam­an. Sam­keppn­in á ekki á að vera á milli lands­byggðar eða höfuðborg­ar, op­in­berra há­skóla og einka­rek­inna held­ur Íslands og um­heims­ins sem ger­ir allt til að laða til sín besta fólkið. Við eig­um að bjóða nem­end­um upp á nám sem er verðmætt um all­an heim og stenst sam­keppni við það sem þar býðst. Það er ekki ein­ung­is lyk­il­inn að sam­keppn­is­hæfni ís­lenskra há­skóla held­ur sam­fé­lags­ins alls.

Í síðustu viku skrifaði ég und­ir vilja­yf­ir­lýs­ingu ásamt rek­tor­um Há­skól­ans á Hól­um og Há­skóla Íslands um að aukið sam­starf milli skól­anna eða sam­ein­ingu. Báðir skól­ar telja slíkt sam­starf styrkja sína starf­semi. Þeir sýna mikla fram­sýni með þessu skrefi en skól­arn­ir hafa lengi átt í far­sælu sam­starfi þegar kem­ur að rann­sókn­um og kennslu. Þeir sjá mik­il tæki­færi í að ganga lengra í þá átt en m.a. er ætl­un­in að skoða þá út­færslu að skól­arn­ir starfi sam­an sem einn skóli en að starf­rækt­ar séu sjálf­stæðar öfl­ug­ar starf­sein­ing­ar víða um land. Með því er hægt að auka hag­kvæmni og á sama tíma efla gæði náms­ins.

Eðli­legt er að fólk velti vöng­um yfir því hvort að sam­ein­ing minni stofn­un­ar á lands­byggðinni við stærri stofn­un á höfuðborg­ar­svæðinu feli það í sér að verk­efni fær­ist al­farið á möl­ina. Það á þó ekki við í þessu til­viki þar sem nú þegar liggja fyr­ir áform um spenn­andi upp­bygg­ingu bæði á Hól­um í Hjalta­dal og á Sauðár­króki, meðal ann­ars með enn öfl­ugra námi í fisk­eldi og land­búnaði. Slík tæki­færi ætl­um við að nýta til að efla sam­keppn­is­hæfni lands­ins alls og byggja spenn­andi framtíð á sögu og arf­leið sem við meg­um vera stolt af.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2023.