Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Það er fátt betra en að vera á hestbaki í íslenskri náttúru. Njóta alls þess sem náttúran hefur upp á að bjóða. Sólaruppkomu eða sólarlags, andvara eða hávaðaroks, úðans eða úrhellis, fjalla og dala. Í góðum félagsskap er iðulega riðið saman í samtali, stundum í þögn en allra best þegar brestur á með söng. Ég hef líklega verið um fimm ára gömul þegar ég lærði þetta skemmtilega ljóð:
Ríðum heim til Hóla.
Pabba kné er klárinn minn,
kistill mömmu fákur þinn,
ríðum heim til Hóla.
Ég var orðin aðeins eldri, og farin að horfa til þess að læra hestafræði á Hólum, þegar mér var sagt að þegar Skagfirðingar færu að hinum merka stað Hólum í Hjaltadal þá segðu þeir að þeir væru að fara „heim að Hólum“. Ég hef nokkrum sinnum farið „heim að Hólum“, síðast nú í júlí og ávallt hrifist af sögu og menningu staðarins.
Í nærri þúsund ár hafa Hólar í Hjaltadal hafa verið eitt helsta menningar- og menntasetur landsins. Staðurinn hefur átt því láni að fagna að fjölmargir merkir leiðtogar hafa haldið merkjum Hóla á lofti og fundið leiðir til að efla starfsemina. Stundum hefur verið litið svo á að skólinn sé í samkeppni við aðra íslenska háskóla en í hröðu alþjóðlegu umhverfi, þar sem nemendur setja það ekki fyrir sig að stunda nám hvar sem er í heiminum, verðum við að horfast í augu við að besta leiðin til að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra háskóla er að þeir starfi saman. Við erum of fámenn þjóð til að reka sjö háskóla. Eina leiðin til að auka slagkraft þeirra er að þeir taki höndum saman. Samkeppnin á ekki á að vera á milli landsbyggðar eða höfuðborgar, opinberra háskóla og einkarekinna heldur Íslands og umheimsins sem gerir allt til að laða til sín besta fólkið. Við eigum að bjóða nemendum upp á nám sem er verðmætt um allan heim og stenst samkeppni við það sem þar býðst. Það er ekki einungis lykilinn að samkeppnishæfni íslenskra háskóla heldur samfélagsins alls.
Í síðustu viku skrifaði ég undir viljayfirlýsingu ásamt rektorum Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands um að aukið samstarf milli skólanna eða sameiningu. Báðir skólar telja slíkt samstarf styrkja sína starfsemi. Þeir sýna mikla framsýni með þessu skrefi en skólarnir hafa lengi átt í farsælu samstarfi þegar kemur að rannsóknum og kennslu. Þeir sjá mikil tækifæri í að ganga lengra í þá átt en m.a. er ætlunin að skoða þá útfærslu að skólarnir starfi saman sem einn skóli en að starfræktar séu sjálfstæðar öflugar starfseiningar víða um land. Með því er hægt að auka hagkvæmni og á sama tíma efla gæði námsins.
Eðlilegt er að fólk velti vöngum yfir því hvort að sameining minni stofnunar á landsbyggðinni við stærri stofnun á höfuðborgarsvæðinu feli það í sér að verkefni færist alfarið á mölina. Það á þó ekki við í þessu tilviki þar sem nú þegar liggja fyrir áform um spennandi uppbyggingu bæði á Hólum í Hjaltadal og á Sauðárkróki, meðal annars með enn öflugra námi í fiskeldi og landbúnaði. Slík tækifæri ætlum við að nýta til að efla samkeppnishæfni landsins alls og byggja spennandi framtíð á sögu og arfleið sem við megum vera stolt af.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2023.