Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Ófremdarástand ríkir í sorphirðu í Reykjavík. Kvartanir um að yfirfullar tunnur hafi ekki verið losaðar vikum og jafnvel mánuðum saman, berast úr flestum hverfum borgarinnar. Mikið ber á því að heimilissorp sé skilið eftir á grenndarstöðvum. Þá hefur verið sagt frá því í fréttum að talsvert sé um að borgarbúar fari sjálfir með yfirfullar sorptunnur á endurvinnslustöðvar til losunar þar sem ekkert bóli á öskubílnum.
Sorp hefur einnig safnast upp við grenndarstöðvar í áður óþekktum mæli þar sem margir gámar eru yfirfullir. Slíkar kvartanir eru reyndar ekki nýjar af nálinni en í sumar hefur keyrt um þverbak.
Yfirfullar tunnur og gámar
Furðu sætir að stjórnendur Reykjavíkurborgar skuli auka á vandræðin við grenndarstöðvarnar með því að hvetja íbúa til að losa sig þar við sorp, sem kemst ekki lengur í tunnur við heimili.
Afar óheppilegt er að borgaryfirvöld láti sorp safnast upp með slíkum hætti á grenndarstöðvum enda eru margar þeirra nálægt íbúabyggð. Síðasta vetur bárust kvartanir um að rusl fyki frá yfirfullum grenndarstöðvum inn á íbúðarlóðir. Vegna veðurblíðu hefur vonandi lítið verið um slíkt í sumar en nú er langt liðið á það og haustlægðirnar við bæjardyrnar.
Ótrúleg velgengni?
Með ólíkindum er að því skuli haldið fram að innleiðing nýs flokkunarkerfis gangi ,,ótrúlega vel“ eins og fulltrúi borgarinnar gerði í fréttum Ríkisútvarpsins í vikunni. Þótt dreifing nýrra tunna gangi samkvæmt áætlun er fráleitt að halda því fram að innleiðingin gangi ,,ótrúlega vel“ þegar sorphirða fer öll úr skorðum við breytinguna.
Sorphirða er ein mikilvægasta þjónusta hvers sveitarfélags. Vitað er að misbrestur á henni getur haft almennan sóðaskap og jafnvel heilbrigðisvanda í för með sér. Misheppnuð innleiðing nýs flokkunarkerfis gæti einnig breytt viðhorfi borgarbúa í garð slíkrar flokkunar til hins verra. Slæmt er ef slíkur viðhorfsvandi bætist við hinn vandann, sem er ærinn.
Undirritaður hefur ítrekað fjallað um vanda sorphirðunnar á vettvangi borgarstjórnar og bent á leiðir til úrbóta. Því miður hefur núverandi meirihluti borgarstjórnar verið áhugalítill um þennan mikilvæga málaflokk.
Fyrsti fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur eftir sumarleyfi var haldinn í gær en málefni sorphirðunnar voru þar ekki á dagskrá. Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tókum málið upp á fundinum og lögðum fram tillögur til úrbóta.
Bætt hirða heimilissorps
Í fyrsta lagði leggjum við til að tafarlaust verði brugðist við því ófremdarástandi, sem ríkir í sorphirðu í Reykjavík. Stóraukinn kraftur verði settur í hirðu heimilissorps þar til tekist hefur að vinna upp hinar miklu tafir, sem orðið hafa á undanförnum mánuðum. Tímabundið verði leitað til verktaka eða jafnvel nágrannasveitarfélaga um aðstoð í þessu skyni á meðan tiltækur tækjabúnaður og mannafli Reykjavíkurborgar dugir ekki til.
Aukin umhirða grenndarstöðva
Jafnframt leggjum við til að strax verði bætt úr því ástandi, sem ríkir varðandi gámalosun og umhirðu á grenndarstöðvum í Reykjavík. Aukinn kraftur verði settur í losun gáma og umhirðu við stöðvarnar. Leitað verði til verktaka um tímabundna aðstoð í þessu skyni á meðan útboð á umhirðu grenndarstöðva stendur yfir. Þá verði settar upp áberandi merkingar við grenndarstöðvar um að óheimilt sé með öllu að skilja óflokkað heimilissorp eftir við þær.
Vonandi verða tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til þess að fyrirkomulag og stjórnun sorphirðu verði stórbætt hjá Reykjavíkurborg sem og hjá Sorpu þar sem borgin fer með rúmlega 60% eignarhlut.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. ágúst 2023.