Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Með svipuðum hætti og við Íslendingar höfum gert með okkur þjóðarsáttmála um að tryggja öllum aðgengi að nauðsynlegri og góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag höfum við sameiginlega heitið því að tryggja að öll börn og unglingar njóti góðrar menntunar. Okkur hefur ekki tekist að uppfylla þetta loforð og margt bendir til að við séum að færast fjær því að standa við sáttmálann.
Ég hef lengi haft töluverðar áhyggjur af menntakerfinu og gæðum menntunar, allt frá grunnskóla- til háskólastigs. Áhyggjur mínar hafa síst minnkað með árunum og þá sérstaklega hvað viðkemur gæðum grunnskólanáms, sem er undirstaða alls annars náms. Hér er ekki við kennara eða foreldra að sakast. Kerfið er brotið.
Við Íslendingar rekum einn dýrasta grunnskóla heims. Sem hlutfall af landsframleiðslu verjum við um 2,3% til hans. Ekkert þróað land ver jafnmiklu og Ísland í rekstur grunnskóla. Árangurinn er hins vegar ekki í samræmi við kostnaðinn. Árið 2018 var Ísland í 39. sæti í Pisa-könnun, sem er alþjóðlegt könnunarpróf í 79 löndum. Kannaður er lesskilningur og læsi á stærðfræði og náttúruvísindi. Rúmlega þriðjungur íslenskra drengja náði ekki grunnhæfniviðmiðum lesskilnings. Tæplega fimmtungur stúlkna náði ekki grunnfærni. Frammistaða í lesskilningi á Íslandi var mun lakari en annars staðar á Norðurlöndum og nokkuð undir meðaltalinu í löndum OECD.
Aðhaldið skortir
Foreldrar fá litlar eða engar upplýsingar um hvernig skóli sem börnin þeirra sækja stendur sig í samanburði við aðra skóla. Þó ættu upplýsingarnar að liggja fyrir – annars eru yfirvöld menntamála að bregðast eftirlitshlutverki sínu. Aðhald frá foreldrum er því í besta falli takmarkað og enn takmarkaðra með því að valfrelsi um skóla er í reynd ekkert fyrir meirihluta þeirra. Afburðakennarar fá ekki að njóta hæfileika sinna og atvinnumöguleikar þeirra eru skertir vilji þeir á annað borð halda áfram kennslu.
Með réttu er hægt að halda því fram að grunnskólinn sé mikilvægasti hluti menntakerfisins – hornsteinninn sem öll önnur menntun byggist á. Sé hornsteinninn veikburða er allt menntakerfið, frá framhaldsskólum til háskóla, veikburða.
Menntakerfið og skipulag þess getur aldrei verið einkamál fáeinna embættismanna, sérfræðinga eða kennara. Menntun er án nokkurs vafa eitt mikilvægasta sameiginlega verkefni okkar allra. Hagvöxtur, bætt lífskjör og samkeppnishæfni landsins byggist ekki síst á menntun og vísindastarfi. Jöfn tækifæri og öflugt menntakerfi fylgjast að.
Við stöndum frammi fyrir mikilli áskorun: Að endurskipuleggja grunnskólann og treysta grunn menntunar. Þannig efnum við fyrirheitið um að tryggja börnunum okkar góða menntun og veganesti sem nýtist til allrar framtíðar.
Samkeppnin og gæðin
Fyrsta skrefið er að viðurkenna að ekkert tryggi gæði og hagkvæmni betur en samkeppni. Þetta á við um menntakerfið eins og flest annað. Samkeppni verður ekki innleidd í grunnskólana án þess að gefa foreldrum valfrelsi þegar kemur að menntun barna. Valfrelsi samhliða jafnrétti til náms verður ekki án þess að tryggja að fé fylgi hverjum nemanda. Foreldrar verða því ekki bundnir af því að senda barnið í hverfisskólann eða skóla sem „kerfið“ hefur ákveðið, heldur þann skóla sem þeir telja að henti barninu best og uppfyllir best kröfur um gæði. Skólar sem bjóða upp á góða menntun munu blómstra en þeir lökustu verða undir í samkeppninni og leggja upp laupana. Við getum kallað þetta valdeflingu foreldra og barna sem losna úr fjötrum kerfis sem hefur brugðist. Um leið verður raunveruleg samkeppni um starfskrafta kennara og þeir munu njóta þess.
Því miður höfum við oftar en ekki fallið í þá gryfju að ætla að leysa vandamál með því að ausa meiri fjármunum úr sameiginlegum sjóðum. Fémildi stjórnmálamanna er mikil þegar þeir neita að horfast í augu við að vandi, sem glímt er við, liggi ekki í fjárskorti heldur í kerfinu sjálfu. Vandinn er kerfislægur.
Margir, ekki síst vinstrimenn, hafa ekki náð að yfirvinna að því er virðist innbyggðan fjandskap gagnvart sjálfstætt starfandi skólum og valfrelsi foreldra og nemenda. Kannski vegna þess að þeir eiga erfitt með að gera greinarmun á því hver greiðir fyrir þjónustuna (hið opinbera) og hver veitir hana (jafnt einkaaðilar sem opinberir). Afleiðingin er hverfandi samkeppni og fábreyttari valkostir. Kostnaðinn bera nemendur, kennarar og að lokum samfélagið allt.
Í nóvember 2019 skrifaði ég meðal annars hér á síðum Morgunblaðsins:
„Jafnrétti til náms er ekki aðeins þjóðhagslega skynsamlegt heldur arðvænlegt efnahagslega og félagslega. Menntun er öflugasta tæki samfélagsins til að stuðla að jöfnuði og gefa ungu fólki tækifæri. Við Íslendingar getum haldið áfram að rífast um skatta og gjöld, skipulag eftirlitsiðnaðarins, ríkisrekstur fjölmiðla, áfengi í búðir og rammaáætlanir. Ágreiningsefnin eru fjölmörg. En við hljótum að ná saman um að nýta öflugasta jöfnunartækið – menntakerfið – til hagsbóta fyrir alla óháð efnahag eða búsetu.“
Fyrir nokkrum árum var sett háleitt markmið um að íslenskir háskólar yrðu í hópi þeirra bestu í heiminum. Ef grunnurinn sem byggt er á – grunnskólinn – er veikburða verður markmiðið fjarlægara.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. ágúst 2023.