Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Framsóknarflokkurinn blés fyrir rúmu ári lífi í andvana meirihluta í Reykjavík undir forystu Samfylkingarinnar. Laun lífgjafarinnar voru borgarstjórakeðjan sem hengd verður á Einar Þorsteinsson eftir um fimm mánuði. Viðbrögð Framsóknar, viðbótarinnar við meirihluta Samfylkingarinnar, við vandamálum borgarinnar hafa síðustu fjórtán mánuði verið þau að víkja sér ávallt undan ábyrgð og skella skuldinni á fyrri meirihluta. Sú afsökun dugar nú þó skammt. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík þarf núna að bera ábyrgð á fjármálaóreiðunni, á leikskólavandanum, á mistökunum og yfirlæti borgarkerfisins í garð íbúa. Þrátt fyrir loforð um breytingar fyrir kosningar hefur í raun lítið breyst.
Nú stefnir í sams konar vanda í leikskólamálum og Framsóknarflokkurinn vék sér undan að bera ábyrgð á fyrir ári. Rekstrarniðurstaða fyrsta ársfjórðungs var nálega tvöfalt verri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Skammtímaskuldir voru 2.600 milljónum króna hærri en en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir. Stutt er í hálfsársuppgjör og líklegt er að það stefni í enn meiri óefni en hefur áður gert þrátt fyrir stórkarlalegar yfirlýsingar meirihluta Samfylkingarinnar um rekstrarátak, hagræðingu – og að eingöngu verði ráðið í nauðsynleg störf. Ónauðsynlegu störfin liggja að vísu óbætt hjá garði en þegar hart er í ári þarf víst að færa fórnir.
Borgarbúar verða síðan bara að vona að í vetur verði farið eftir niðurstöðu stýrihóps um endurskoðun á þjónustuhandbók vetrarþjónustu og borgin taki mið af magni snjókomunnar og ryðji götur í vetur þegar snjóar, en ekki á öðrum tímum.
Stærsti vandinn er samt að um allt í borgarkerfinu, kerfinu sem á að þjónusta borgarbúa, hefur hreiðrað um sig yfirlæti gagnvart borgarbúum. Yfirlæti sem lekur frá yfirstjórn borgarinnar og smýgur um borgarkerfið. Borgarkerfið er ekki fyrir fólkið, fólkið er fyrir borgarkerfið. Ef andmælum er hreyft eða bara óskað eftir þjónustu er viðhorfið að best sé að „þegja og gera ekki neitt“, eins og heyrðist á fundi íbúaráðs Laugardals í vor.
Framsóknarflokkurinn lofaði að breyta þessu en stóð ekki við það og sekkur því til botns í áliti borgarbúa með loforðið um borgarstjórakeðjuna eins og lóð um hálsinn.
Í þrjá áratugi hefur Samfylkingin eða ígildi hennar og samstarfsflokkar farið með stjórn borgarinnar. Þótt ýmislegt hafi heppnast á þessum þrjátíu árum stendur upp úr að Reykjavíkurborg hefur aldrei staðið jafn illa fjárhagslega. Þess vegna gengur illa að leysa leikskólavandann, þess vegna gengur illa að halda borginni hreinni og þess vegna gengur illa að veita grunnþjónustu.
Samfylkingin lofar nú að gera fyrir Ísland það sem hún hefur gert fyrir Reykjavík. Trúaðir hljóta að biðja til síns guðs að svo verði ekki, trúlausir hljóta að signa sig engu að síður.
Fyrir kosningar lofaði Framsókn breytingum. Þær hafa látið á sér standa og það eina sem við vitum að muni breytast er að í stað Dags B. Eggertssonar sest Einar Þorsteinsson í stól borgarstjóra. Allt annað verður eins, fjármálaóreiðan, sviknu loforðin í leikskólamálum og yfirlætið í garð borgarbúa verður hið sama og áður. Allt í boði loforða Framsóknarflokksins um breytingar í borginni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. ágúst 2023.