Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Sumarið er yfirleitt ekki tími stórra frétta. Gúrkutíð þekkja flestir blaða- og fréttamenn. Þá verður jafnvel hið ómerkilega, sem á öðrum tímum vekur enga athygli, að „stórfrétt“ fjölmiðla sem hafa ekki úr miklu að moða. Sumarið er tíminn þegar fólk vill slappa af. Eiga stund með sjálfu sér og sínum nánustu. Njóta lífsins í slökun, leggjast í ferðalög innanlands og utan og sinna áhugamálum betur en aðra tíma ársins.
Það er hins vegar ekki hægt að kvarta yfir fréttaleysi sumarið 2023. Þetta er sumarið þar sem gúrkutíðin virðist ekki ætla að ganga í garð. Eldgos á Reykjanesi á hug og hjörtu fjölmiðlamanna sem annarra landsmanna. Hvalveiðibann og stjórnsýsla matvælaráðherra, birting greinargerðar setts ríkisendurskoðenda um Lindarhvol (sem ekki er sá pólitíski eldsmatur sem stjórnarandstaðan hafði vonast til), sala á hlutabréfum í Íslandsbanka og eftirmál hennar, hitabylgja í Evrópu hafa í nokkru fangað athyglina, a.m.k. tímabundið. Fyrir okkur áhugamenn um knattspyrnu er heimsmeistaramót kvenna kærkomin afþreying. Í sumarfríi hafa fæstir hins vegar áhuga á fréttum um efnahagsmál. Afkoma ríkissjóðs, lánshæfi, verðbólga og utanríkisviðskipti eru ekki efst í hugum þeirra sem reyna að nýta sumarið til að hlaða batteríin fyrir komandi vetur. Og ekki veitir af.
Áskoranir og góða staða
Á komandi mánuðum og misserum verðum við Íslendingar að mæta miklum áskorunum. Á vinnumarkaði reynir á atvinnurekendur og launafólk. Það verður hvorki einfalt né létt að tryggja aðhald í ríkisfjármálum og samþætta þau við skynsama stefnu í peningamálum. Ríkisstjórnin (og eftir atvikum Alþingi) stendur frammi fyrir flóknum verkefnum. Tryggja verður stórsókn í orkuöflun – án orku verður stöðnun og orkuskiptin draumsýn. Koma þarf böndum á kostnað vegna móttöku flóttamanna. Endurskoða verður samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins frá grunni, stokka upp allt gjaldakerfi umferðar og tryggja fjármögnun viðamikillar uppbyggingar samgöngukerfisins um allt land. Ná farsælli niðurstöðu í endurskoðun á tryggingakerfi öryrkja. Móta húsnæðisstefnu á grunni einfaldara regluverks þar sem byggt er undir séreignarstefnuna samhliða því að búa til jarðveg fyrir heilbrigðan leigumarkað. Verkefnalistinn er langur.
En við erum í góðri stöðu til að takast á við þessar og aðrar áskoranir.
Við erum að ná árangri í baráttunni við verðbólguna. Ársverðbólgan fór hæst í 10,2% í febrúar síðastliðnum en er komin niður í 7,6%. Enn er of snemmt að fagna sigri á gömlum fjanda enda erum við langt frá 2,5% verðbólgumarkaði Seðlabankans. En stefnan er rétt. Forsenda þess að hægt verði að byggja undir skynsama kjarasamninga með auknum kaupmætti er að árangur í verðlagsmálum náist til lengri tíma.
Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) reiknar með að verðbólga á komandi ári verði um 3,3% enda verði áfram aðhald í opinberum fjármálum og peningamálum. Að mati stofnunarinnar er staða efnahagsmála góð. Í skýrslu OECD sem kynnt var í liðnum mánuði eru lagðar til ýmsar aðgerðir til úrbóta. Margar tillögurnar eru skynsamar en aðrar bera þess merki að annaðhvort skilja sérfræðingar OECD ekki íslensk efnahagsmál eða viðhorf þeirra litast um of af rörsýn nokkurra íslenskra embættismanna sem eiga erfitt með að skilja t.d. samhengi milli skattheimtu og samkeppnishæfni þjóða.
Betra lánshæfi
OECD er ekki eini aðilinn sem horfir jákvæðum augum til efnahagsmála á Íslandi. Alþjóðamatsfyrirtækið Moody‘s breytti fyrr í mánuðinum horfum um lánshæfi ríkissjóðs úr stöðugum í jákvæðar og staðfesti A2-lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs. Nokkrum vikum áður hafði S&P Global Ratings gert hið sama. Moody‘s rökstyður mat sitt:
· Góður árangur stjórnvalda í að draga úr hallarekstri ríkissjóðs og lækkandi skuldahlutfall hins opinbera sem eykur líkur á að styrkur opinberra fjármála verði endurheimtur hraðar en áður var talið.
· Auknar líkur eru á að sterkar vaxtarhorfur lykilatvinnuvega og áframhaldandi viðleitni til að auka fjölbreytni í efnahagslífi dragi úr áhrifum áfalla á hagkerfið í framtíðinni.
Þó ætla mætti annað af málflutningi stjórnarandstöðunnar hefur afkoma ríkissjóðs ítrekað verið betri en reiknað var með á síðustu árum. Í frétt á vef fjármálaráðuneytisins kemur fram að útlit sé fyrir að tekjur verði nær 50 milljörðum króna hærri en gjöld fyrir vaxtatekjur og vaxtagjöld.
En jafnvel þótt vel hafi tekist til er enn mikið verk eftir í ríkisfjármálum. Útgjöldin eru of há og í alþjóðlegum samanburði eru skattar of háir. En bætt lánshæfi gefur vonir um að ríkissjóður fái að njóta betri kjara í framtíðinni, ekki síst borið saman við önnur lönd sem berjast við miklar opinberar skuldir og lítinn sem engan vöxt efnahagslífsins. Hagstæðari lánakjör ríkissjóðs og fyrirtækja stuðla að bættri afkomu og styrkja lífskjör landsmanna.
Í skugganum
Fréttir af jákvæðum viðhorfum erlendra aðila til stöðu íslenskra efnahagsmála fara fyrir ofan garð og neðan þegar við reynum að njóta nokkurra sumarvikna og falla í skuggann af eldgosi og jarðhræringum. Hið sama á við um frétt Hagstofunnar um að verðmæti þjónustuútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá maí 2022 til apríl 2023, hafi verið 798 milljarðar króna og aukist um 53%. Á sama tíma er áætlað að verðmæti þjónustuinnflutnings hafi verið 590,5 milljarðar og aukist um 36% miðað við tólf mánaða tímabilið þar á undan. Þjónustujöfnuður var því jákvæður um 207,5 milljarða.
Og fáir hafa veitt athygli frétt um að eigið fé einstaklinga hækkaði um liðlega 1.600 milljarða króna eða 26,5% á síðasta ári. Frá 2013 hefur eigið fé aukist um 250% – hvorki meira né minna.
Allar þessar fjármála- og efnahagsfréttir eru góðar sumar-fréttir og gefa tilefni til bjartsýni sé rétt haldið á málum á komandi mánuðum og misserum. Áskorunin felst í því að spila rétt úr góðri stöðu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. júlí 2023.