Ævintýri á Vestfjörðum

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

„Um­gjörð um ný­sköp­un á Íslandi er bara best í heimi. Það er hvergi betra að vera ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki en á Íslandi,“ sagði Guðmund­ur Fer­tram Sig­ur­jóns­son, stofn­andi Kerec­is á Ísaf­irði, í viðtali við Kristján Kristjáns­son á Sprengisandi Bylgj­unn­ar síðastliðinn sunnu­dag. Hér var talað skýrt enda þekkja fáir bet­ur rekst­ur og áskor­an­ir ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækja en Guðmund­ur Fer­tram.

Í síðustu viku var til­kynnt um sölu á öllu hluta­fé í Kerec­is til alþjóðlega lækn­inga­vöru­fyr­ir­tæk­is­ins Coloplast, sem er með höfuðstöðvar í Dan­mörku. Kaup­verðið er fast að 180 millj­örðum króna. Í frétt frá Kerec­is kem­ur fram að hlut­haf­ar við söl­una séu um 400 tals­ins, þar á meðal stofn­and­inn, meðstofn­end­ur, flest­ir starfs­menn Kerec­is, vest­firsk­ir frum­kvöðlar og sprota­fjár­fest­ar, inn­lend­ir og alþjóðleg­ir fjár­fest­ar.

Ætla má að allt að 60 millj­arðar króna af kaup­verðinu verði eft­ir á Vest­fjörðum, hjá ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um sem höfðu trölla­trú á Guðmundi og Kerec­is. Með ein­um eða öðrum hætti munu þess­ir miklu fjár­mun­ir styrkja mann- og at­vinnu­líf á Ísaf­irði og ná­grenni í ná­inni framtíð.

Saga Guðmund­ar Fer­tram er mögnuð. Hún er saga upp­finn­inga­manns með nýj­ar hug­mynd­ir og tækni. Saga frum­kvöðuls með skýr­ar hug­sjón­ir sem hann hef­ur náð að láta ræt­ast með dugnaði og óbilandi trú á framtíð fyr­ir­tæk­is­ins. „Minn draum­ur með stofn­un Kerec­is var tvíþætt­ur – að þróa aðferðir til að fækka aflimun­um og græða sár, sam­hliða því að efla at­vinnuþróun á Vest­fjörðum,“ seg­ir Guðmund­ur í frétt frá Kerec­is. „Hvort tveggja hef­ur tek­ist og þessi samn­ing­ur er sögu­leg­ur, þar sem vest­firskt sprota­fyr­ir­tæki er orðið eitt verðmæt­asta fé­lag Íslands­sög­unn­ar. Sár­aroðið hef­ur gert stór­kost­legt gagn í Banda­ríkj­un­um og nú munu marg­falt fleiri sjúk­ling­ar fá tæki­færi til að nota vör­una um heim all­an, auk þess sem fram­leiðslu­um­svif á Ísaf­irði aukast. Þannig hef­ur draum­ur­inn ræst.“

Allt frá 2013 hef­ur fyr­ir­tækið verið með kauprétti handa starfs­mönn­um. Þess­ir starfs­menn eru nú að upp­skera ríku­lega. Og svo eru til stjórn­mála­menn sem vinna gegn því að starfs­menn fyr­ir­tækja eigi tæki­færi til að eign­ast beina hluti í fyr­ir­tæki og njóta þess þegar vel geng­ur. Jafn­vel inn­an líf­eyr­is­sjóða er þessi hugs­un því miður til staðar.

Vegna kauprétt­ar­stefnu Kerec­is fjölgaði ís­lensku eigna­fólki tölu­vert í liðinni viku og ís­lenskt sam­fé­lag stend­ur sterk­ara á eft­ir. Stjórn­völd eiga að ýta und­ir beina þátt­töku starfs­manna í rekstri fyr­ir­tækja, en ekki hindra með marg­flókn­um regl­um, skött­um og tak­mörk­un­um.

Skýr skila­boð

Í áður­nefndu viðtali á Sprengisandi talaði Guðmund­ur Fer­tram hreint út eins og Vest­f­irðing­ar gera. Hann hrósaði því sem vel hef­ur verið gert en gagn­rýndi það sem miður fer.

Um­gjörðin um ný­sköp­un er sú besta í heim­in­um er ekki ónýt ein­kunn sem frum­kvöðull gef­ur stefnu stjórn­valda. Á síðustu árum hef­ur Tækniþró­un­ar­sjóður verið stór­efld­ur. End­ur­greiðslur vegna rann­sókna- og þró­un­ar verið aukn­ar hressi­lega og ný hugs­un inn­leidd þar sem stuðning­ur við ný­sköp­un er á markaðsleg­um for­send­um. Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, sem ný­sköp­un­ar­ráðherra, hafa verið brimbrjót­ar í þess­um efn­um. Stofn­un Kríu, sprota- og ný­sköp­un­ar­sjóðs, var stórt skref. Þegar ákveðið var að hækka skatta­afslátt ein­stak­linga vegna fjár­fest­inga í ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækj­um tíma­bundið úr 50% í 75% af fjár­hæð fjár­fest­ing­ar árið 2020, voru stjórn­völd að senda skýr skila­boð um að staðið skyldi við bakið á sprot­um um allt land. Þenn­an skatta­afslátt þarf að gera var­an­leg­an.

Stefn­an hef­ur svo sann­an­lega borið ávöxt. Kerec­is er aðeins nýj­asta dæmið. Þau eru miklu fleiri. Stuðning­ur við ný­sköp­un er fjár­fest­ing í framtíðinni. Fjár­fest­ing í nýj­um tæki­fær­um og störf­um. Og ný­sköp­un á sér stað um allt sam­fé­lagið. Ég hef lýst ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi sem risa­stóru ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki. Vöruþróun er ör í land­búnaði og fáar at­vinnu­grein­ar hafa náð meiri ár­angri í fram­leiðniaukn­ingu. Tölvu­leikja­fyr­ir­tæki, lyfja- og líf­tæknifyr­ir­tæki og þannig má lengi telja, eru að leggja horn­steina að lífs­kjör­um framtíðar­inn­ar.

Guðmund­ur var með skýr og ákveðin skila­boð til stjórn­mála­manna. Hann skil­ur ekki þá stjórn­mála­menn sem berj­ast gegn Reykja­vík­ur­flug­velli sem sé „inn­gang­ur­inn“ inn í lands­byggðina. Fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki úti á landi sé flugið mik­il­vægt al­veg með sama hætti og sam­göng­ur á landi. Hann er gagn­rýn­inn á fyr­ir­hugaða borg­ar­línu, sem sé göm­ul tækni. Á sama tíma séu sam­göng­ur á Vest­fjörðum í lamasessi. Góðar sam­göng­ur eru ein mik­il­væg­asta for­senda fyr­ir öfl­ugu at­vinnu­lífi á Vest­fjörðum eins og ann­ars staðar á land­inu. Þegar þing kem­ur sam­an í haust verður ný sam­göngu­áætlun lögð fram. Við þing­lega meðferð ættu þing­menn að sækja í brunn Guðmund­ar Fer­tram og fleiri frum­kvöðla og at­vinnu­rek­enda. Og ekki má gleyma aðgengi að orku – grænni orku. Okk­ar bíða mikl­ar áskor­an­ir í að tryggja ör­ugga græna orku um allt land.

Verðmæti úr engu

Fyr­ir þann sem bar­ist hef­ur fyr­ir upp­bygg­ingu at­vinnu­lífs­ins, reynt af megni að ryðja braut sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ans, hug­vits­manns­ins og frum­kvöðuls­ins er það gef­andi að verða vitni að því þegar ein­stak­ling­ar ná ár­angri. Hug­mynda­fræðin bygg­ir á ein­fald­leika frels­is þar sem fólk nýt­ur eig­in dugnaðar og hug­vits. Að baki ligg­ur sann­fær­ing um að ekk­ert þjóðfé­lag geti sótt fram og bætt lífs­kjör án hug­vits og fram­taks. Fram­taksmaður­inn og sprot­inn eru drif­kraft­ar fram­fara og auk­inna lífs­gæða.

Guðmund­ur Fer­tram og starfs­fólk Kerec­is mega svo sann­ar­lega vera stolt af æv­in­týr­inu á Ísaf­irði sem held­ur áfram. Við hin eig­um að sam­gleðjast. Enn einu sinni fáum við staðfest­ingu á því hversu mik­il­vægt það er að um­hverfi frum­kvöðla og sprota­fyr­ir­tækja sé þannig að ýtt sé und­ir og stutt við fram­taks­semi á öll­um sviðum at­vinnu­lífs­ins. Frum­kvöðull og hug­sjónamaður hef­ur náð að búa til ótrú­leg verðmæti úr engu, með hug­viti og dugnaði. Það eru ein­stak­ling­ar eins og Guðmund­ur Fer­tram og starfs­menn Kerec­is sem byggja und­ir vel­sæld ís­lensks sam­fé­lags og styrkja mann­lífið og vel­ferðarsam­fé­lagið, fái þeir tæki­færi til þess. Sem bet­ur fer eig­um við fleiri eins og Guðmund Fer­tram. Það er hlut­verk okk­ar sem erum í stjórn­mál­um að tryggja að þeir fái að njóta sín.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. júlí 2023.