Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
„Umgjörð um nýsköpun á Íslandi er bara best í heimi. Það er hvergi betra að vera nýsköpunarfyrirtæki en á Íslandi,“ sagði Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi Kerecis á Ísafirði, í viðtali við Kristján Kristjánsson á Sprengisandi Bylgjunnar síðastliðinn sunnudag. Hér var talað skýrt enda þekkja fáir betur rekstur og áskoranir nýsköpunarfyrirtækja en Guðmundur Fertram.
Í síðustu viku var tilkynnt um sölu á öllu hlutafé í Kerecis til alþjóðlega lækningavörufyrirtækisins Coloplast, sem er með höfuðstöðvar í Danmörku. Kaupverðið er fast að 180 milljörðum króna. Í frétt frá Kerecis kemur fram að hluthafar við söluna séu um 400 talsins, þar á meðal stofnandinn, meðstofnendur, flestir starfsmenn Kerecis, vestfirskir frumkvöðlar og sprotafjárfestar, innlendir og alþjóðlegir fjárfestar.
Ætla má að allt að 60 milljarðar króna af kaupverðinu verði eftir á Vestfjörðum, hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem höfðu tröllatrú á Guðmundi og Kerecis. Með einum eða öðrum hætti munu þessir miklu fjármunir styrkja mann- og atvinnulíf á Ísafirði og nágrenni í náinni framtíð.
Saga Guðmundar Fertram er mögnuð. Hún er saga uppfinningamanns með nýjar hugmyndir og tækni. Saga frumkvöðuls með skýrar hugsjónir sem hann hefur náð að láta rætast með dugnaði og óbilandi trú á framtíð fyrirtækisins. „Minn draumur með stofnun Kerecis var tvíþættur – að þróa aðferðir til að fækka aflimunum og græða sár, samhliða því að efla atvinnuþróun á Vestfjörðum,“ segir Guðmundur í frétt frá Kerecis. „Hvort tveggja hefur tekist og þessi samningur er sögulegur, þar sem vestfirskt sprotafyrirtæki er orðið eitt verðmætasta félag Íslandssögunnar. Sáraroðið hefur gert stórkostlegt gagn í Bandaríkjunum og nú munu margfalt fleiri sjúklingar fá tækifæri til að nota vöruna um heim allan, auk þess sem framleiðsluumsvif á Ísafirði aukast. Þannig hefur draumurinn ræst.“
Allt frá 2013 hefur fyrirtækið verið með kauprétti handa starfsmönnum. Þessir starfsmenn eru nú að uppskera ríkulega. Og svo eru til stjórnmálamenn sem vinna gegn því að starfsmenn fyrirtækja eigi tækifæri til að eignast beina hluti í fyrirtæki og njóta þess þegar vel gengur. Jafnvel innan lífeyrissjóða er þessi hugsun því miður til staðar.
Vegna kaupréttarstefnu Kerecis fjölgaði íslensku eignafólki töluvert í liðinni viku og íslenskt samfélag stendur sterkara á eftir. Stjórnvöld eiga að ýta undir beina þátttöku starfsmanna í rekstri fyrirtækja, en ekki hindra með margflóknum reglum, sköttum og takmörkunum.
Skýr skilaboð
Í áðurnefndu viðtali á Sprengisandi talaði Guðmundur Fertram hreint út eins og Vestfirðingar gera. Hann hrósaði því sem vel hefur verið gert en gagnrýndi það sem miður fer.
Umgjörðin um nýsköpun er sú besta í heiminum er ekki ónýt einkunn sem frumkvöðull gefur stefnu stjórnvalda. Á síðustu árum hefur Tækniþróunarsjóður verið stórefldur. Endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar verið auknar hressilega og ný hugsun innleidd þar sem stuðningur við nýsköpun er á markaðslegum forsendum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem nýsköpunarráðherra, hafa verið brimbrjótar í þessum efnum. Stofnun Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs, var stórt skref. Þegar ákveðið var að hækka skattaafslátt einstaklinga vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum tímabundið úr 50% í 75% af fjárhæð fjárfestingar árið 2020, voru stjórnvöld að senda skýr skilaboð um að staðið skyldi við bakið á sprotum um allt land. Þennan skattaafslátt þarf að gera varanlegan.
Stefnan hefur svo sannanlega borið ávöxt. Kerecis er aðeins nýjasta dæmið. Þau eru miklu fleiri. Stuðningur við nýsköpun er fjárfesting í framtíðinni. Fjárfesting í nýjum tækifærum og störfum. Og nýsköpun á sér stað um allt samfélagið. Ég hef lýst íslenskum sjávarútvegi sem risastóru nýsköpunarfyrirtæki. Vöruþróun er ör í landbúnaði og fáar atvinnugreinar hafa náð meiri árangri í framleiðniaukningu. Tölvuleikjafyrirtæki, lyfja- og líftæknifyrirtæki og þannig má lengi telja, eru að leggja hornsteina að lífskjörum framtíðarinnar.
Guðmundur var með skýr og ákveðin skilaboð til stjórnmálamanna. Hann skilur ekki þá stjórnmálamenn sem berjast gegn Reykjavíkurflugvelli sem sé „inngangurinn“ inn í landsbyggðina. Fyrir fólk og fyrirtæki úti á landi sé flugið mikilvægt alveg með sama hætti og samgöngur á landi. Hann er gagnrýninn á fyrirhugaða borgarlínu, sem sé gömul tækni. Á sama tíma séu samgöngur á Vestfjörðum í lamasessi. Góðar samgöngur eru ein mikilvægasta forsenda fyrir öflugu atvinnulífi á Vestfjörðum eins og annars staðar á landinu. Þegar þing kemur saman í haust verður ný samgönguáætlun lögð fram. Við þinglega meðferð ættu þingmenn að sækja í brunn Guðmundar Fertram og fleiri frumkvöðla og atvinnurekenda. Og ekki má gleyma aðgengi að orku – grænni orku. Okkar bíða miklar áskoranir í að tryggja örugga græna orku um allt land.
Verðmæti úr engu
Fyrir þann sem barist hefur fyrir uppbyggingu atvinnulífsins, reynt af megni að ryðja braut sjálfstæða atvinnurekandans, hugvitsmannsins og frumkvöðulsins er það gefandi að verða vitni að því þegar einstaklingar ná árangri. Hugmyndafræðin byggir á einfaldleika frelsis þar sem fólk nýtur eigin dugnaðar og hugvits. Að baki liggur sannfæring um að ekkert þjóðfélag geti sótt fram og bætt lífskjör án hugvits og framtaks. Framtaksmaðurinn og sprotinn eru drifkraftar framfara og aukinna lífsgæða.
Guðmundur Fertram og starfsfólk Kerecis mega svo sannarlega vera stolt af ævintýrinu á Ísafirði sem heldur áfram. Við hin eigum að samgleðjast. Enn einu sinni fáum við staðfestingu á því hversu mikilvægt það er að umhverfi frumkvöðla og sprotafyrirtækja sé þannig að ýtt sé undir og stutt við framtakssemi á öllum sviðum atvinnulífsins. Frumkvöðull og hugsjónamaður hefur náð að búa til ótrúleg verðmæti úr engu, með hugviti og dugnaði. Það eru einstaklingar eins og Guðmundur Fertram og starfsmenn Kerecis sem byggja undir velsæld íslensks samfélags og styrkja mannlífið og velferðarsamfélagið, fái þeir tækifæri til þess. Sem betur fer eigum við fleiri eins og Guðmund Fertram. Það er hlutverk okkar sem erum í stjórnmálum að tryggja að þeir fái að njóta sín.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. júlí 2023.