Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Sem samfélag stöndum við Íslendingar frammi fyrir fjölmörgum áskorunum á komandi mánuðum og misserum. Það reynir á atvinnurekendur og forystu launafólks. Þegar tekist er á við verkefnin reynir einnig á ríkisstjórnina enda markmiðið að leysa þau með farsælum hætti í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Hvernig til tekst ræðst ekki síst af því að sæmilegt traust sé á milli launþega, atvinnurekenda og ríkisstjórnar. Ef traust og trúnaður ríkir ekki við ríkisstjórnarborðið minnka líkur á að árangur náist.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók til starfa eftir kosningar árið 2017. Þegar ákveðið var að halda samstarfi ríkisstjórnarflokkanna áfram eftir kosningarnar 2021 (sem var ekki sjálfgefið), hélt ég því fram hér á síðum Morgunblaðsins að það væri gert í þeirri trú að samstarfið yrði gott. Trúnaður yrði við ríkisstjórnarborðið og „þingmenn stjórnarliðsins bærilega sáttir við hvernig mál gangi fram“. Ég sótti, eins og oft áður, í kistu Davíðs Oddssonar og vitnaði í stefnuræðu hans sem forsætisráðherra í október 1997. Þá var samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks á sínu öðru kjörtímabili. Davíð benti á að eðli máls samkvæmt sé „togstreita á milli flokkanna um einstök mál“ en „slíkar glímur eru jafnan háðar undir formerkjum þess að ná niðurstöðu sem báðir flokkar geti unað við, en forðast er að setja samstarfsflokki óbilgjörn eða óaðgengileg skilyrði“.
Andstæð sjónarmið
Stuðningsmenn samsteypustjórna vita að það reynir ítrekað á hæfileika þeirra til að koma til móts við andstæð sjónarmið, án þess að missa sjónar á eigin hugsjónum. Í þriggja flokka ríkisstjórn reynir enn frekar á þollyndi og gagnkvæman skilning. Framganga matvælaráðherra í hvalveiðimálinu ber þess merki að lítill skilningur sé á mikilvægi þess að taka tillit til sjónarmiða samstarfsflokkanna. Engu virðist skipta að ráðherrann gangi berlega gegn vilja meirihluta ríkisstjórnarinnar. Varla er hægt annað en komast að þeirri niðurstöðu að um beina ögrun sé að ræða við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Með öðrum orðum; matvælaráðherra hefur gert atlögu að samstarfi ríkisstjórnarflokkanna. Og þar með veikt ríkisstjórnina og grafið undan möguleikum hennar til að leysa erfið verkefni á komandi mánuðum.
Sterk og skýr rök hafa verið sett fram um að matvælaráðherra hafi gengið gegn lögum með ákvörðun um að fresta hvalveiðum. Ekki verður séð að ráðherrann hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni né gætt meðalhófs – fylgt sanngjarnri og hófsamri stjórnsýslu. Gengið er þvert á stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi og í engu hugað að þeim mikla fjárhagslega skaða sem ákvörðunin veldur um 150 launamönnum og fjölskyldum þeirra. Andmælaréttur er enginn og fyrirvarinn nokkrir klukkutímar.
Snýst ekki um hvalveiðar
Óháð því hvort rétt sé að við Íslendingar stundum hvalveiðar eða ekki – óháð því hvort við áskiljum okkur rétt til að nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti eða ekki – þá er stjórnsýsla ráðherra ósanngjörn og ekki lögum samkvæm. Ráðherrann hefur kastað blautri tusku í andlit allra þingmanna samstarfsflokka ríkisstjórnarinnar. Það er pólitískur barnaskapur að halda að slíkt hafi ekki áhrif á samstarfið innan ríkisstjórnarinnar. Eitt er að minnsta kosti víst: Traust milli matvælaráðherra og stjórnarþingmanna er lítið og það mun hafa áhrif á samstarf þeirra á komandi mánuðum.
Allt frá því að ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var mynduð fyrir sex árum hefur reynt á þanþol flestra stjórnarþingmanna með einum eða öðrum hætti. Ekki var við öðru að búast þegar þrír gjörólíkir flokkar taka höndum saman.
Þrátt fyrir efasemdir hef ég, eins aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, haldið tryggð við ríkisstjórnina – verið heill í stuðningnum. En það hefur oft reynt á enda afsalaði enginn okkar réttinum til að gagnrýna, berjast fyrir breytingum á stjórnarfrumvörpum, standa í vegi fyrir framgangi vondra mála eða vinna að framgangi hugsjóna.
Framganga matvælaráðherra er vatn á myllu þeirra sem efast hafa um réttmæti þess að halda áfram samstarfi við flokk sem er lengst til vinstri. Flokk sem fagnar þegar ekki er hægt að nýta sjálfbærar orkuauðlindir, flokk sem ekki er tilbúinn til að horfast í augu við vanda vegna flóttamanna, flokk sem telur betra að auka álögur á fyrirtæki og launafólk en að nýta sameiginlega fjármuni betur, flokk sem er sannfærður um að biðraðir séu betri en að nýta einkaframtakið í heilbrigðisþjónustu.
Eitt er víst. Við sem berjumst fyrir atvinnufrelsi, sjálfbærri nýtingu auðlinda og stjórnsýslu þar sem meðalhófs og sanngirni er gætt eigum litla samleið með ráðherra sem gengur fram með þeim hætti sem matvælaráðherra hefur gert. Það eru gömul sannindi og ný að vantraust grefur undan samstarfi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. júlí 2023.