Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:
Vinnubrögð Íslandsbanka sem opinberuðust í sátt við fjármálaeftirlit Seðlabankans voru mikil vonbrigði. Það er skiljanlegt að málið skilji eftir vonda tilfinningu hjá fólki enda mörgum brugðið yfir því sem þar misfórst og eins hefur margt misjafnt, og mis-satt, verið sagt allt frá fyrstu dögum útboðsins. Í þessu máli sem öðrum skiptir þó máli að skilja kjarnann frá hisminu.
Nú þegar sáttin er ljós finnst mörgum sem það sé fjarstæðukennt að segja söluna sögulega farsæla. Það skal ekki gert lítið úr því að misbrestir hafa komið í ljós við framkvæmdina sem hafa alvarleg áhrif og verður að mæta af heiðarleika og festu. Sáttin varpar til að mynda ljósi á óásættanleg vinnubrögð Íslandsbanka þar sem almennir fjárfestar fengu í einhverjum tilfellum stöðu fagfjárfesta án þess að uppfylla skýrar lagalegar kröfur þar um. Af þessum atriðum er auðvitað mikilvægt að læra þó ljóst sé að lögum eða útboðsskilmálum var þar ekki um að kenna heldur framkvæmdinni af hálfu bankans. Hins vegar gengu forgangsmarkmið sölunnar eftir, betur en vonir stóðu til, hvort sem litið er til verðs, afsláttar eða eftirmarkaðs svo nokkuð sé nefnt og verður einnig að fá að vera tiltekið í skoðun málsins í heild.
Málið hefur frá upphafi liðið fyrir að mikil upplýsingaóreiða hefur einkennt það. Fyrir einungis nokkrum dögum kom fram enn eitt dæmið þess efnis þegar þingmaður Samfylkingarinnar sagði í Kastljósi að upplegg útboðsins hefði verið í lagi ef um hefði verið að ræða stofnanafjárfesta eins og lífeyrissjóði, en þeim hafi verið „haldið utan við þetta“ eins og þingmaðurinn orðaði það. Það er skiljanlegt að fólki þyki það skrítið – enda er það ekki rétt. Lífeyrissjóðir tóku ekki bara þátt heldur voru umsvifamestu fjárfestar útboðsins og eru langstærstu hluthafar bankans ásamt ríkissjóði.
Í samfélagi okkar eru illa rekin fyrirtæki og vel rekin, góð vinnubrögð og slæm. Lélegt handbragð á stöku stað má þó ekki verða til þess að við gefumst upp og kúvendum verkefninu. Við hendum ekki bílnum og kaupum hest þótt það springi dekk. Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að stjórnmálin missi ekki móðinn nú í því verkefni að halda áfram að losa um hlut ríkisins í Íslandsbanka. Ríkið er langt því frá gæðastimpill á að fyrirtæki gangi betur en í einkageiranum. Í bankastarfsemi þarf ekki að leita lengra en til samfélagsbankans Íbúðalánasjóðs til að minna okkur á að ríkisrekstur getur verið hrikalegur þótt fallegur hugur liggi eflaust að baki.
Prinsipp málsins um að losa ríkið af áhættusömum fjármálamarkaði stendur í mínum huga óhaggað og mikilvægt að við höldum áfram á þeirri mikilvægu vegferð eftir að hafa lagað dekkið sem sprakk og dregið nauðsynlegan lærdóm af því sem betur hefði mátt fara.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2023.