Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:
Á þeim tíma sem liðinn er frá því vinaþjóðir okkar í Eystrasaltinu fengu á ný staðfest sjálfstæði sitt í upphafi 10. áratugar síðustu aldar hefur orðið mögnuð og afgerandi umbylting á lífsgæðum þar. Nú er landsframleiðsla á mann þar hærri en í sumum löndum í Vestur-Evrópu, löndum sem stóðu þeim langtum framar á þeim mælikvarða fyrir þrjátíu árum; höfðu jafnvel margfalda landsframleiðslu á mann umfram Eystrasaltsríkin.
Öll Eystrasaltslöndin eru nú hluti af Atlantshafsbandalaginu og eru hluti af Evrópska efnahagssvæðinu í gegnum aðild sína að Evrópusambandinu. Saga þessara tiltölulega fámennu ríkja á síðustu áratugum veitir ákaflega mikinn innblástur þeim sem trúa því að mögulegt sé að gera þannig grundvallarbreytingar á samfélögum að það skili sér á minna en einni kynslóð í algjörri umbyltingu í lífsgæðum. Eins og nærri má geta þótti stjórnvöldum í Moskvu allt ómögulegt við þessa þróun; allt frá staðfestingu á sjálfstæði ríkjanna og til þátttöku þeirra í vestrænni samvinnu. Þegar Eystrasaltsríkin gengu í bandalagið árið 2004 var það sums staðar túlkað sem ögrun við Rússland og vissulega heyrðist hljóð úr horni. Sem betur fer létu bandalagsríkin þó ekki hræða sig til þess að hætta við að veita þeim aðild. Afdráttarlaus stuðningur Íslands við metnað þessara ríkja á þeim tímum þegar ýmis lönd voru meira vaklandi, hefur svo sannarlega reynst vera afstaða sem við getum verið stolt af.
Stór verkefni og vandasöm
Hin mikla umbylting í þeim ríkjum sem áður voru undir hæl Sovétríkjanna, en njóta þess nú að taka þátt í samvinnu vestrænna ríkja, hefur vitaskuld ekki farið framhjá íbúum í öðrum ríkjum sem stjórnvöld í Moskvu hafa talið sig mega hafa afskipti af. Í síðustu viku var haldið upp á afmæli stjórnarskrár Úkraínu og flutti forseti Úkraínu við það tækifæri ræðu í þinginu um hvernig hann sér fyrir sér þróun landsins eftir að stríðinu lýkur.
Í málflutningi hans hnígur allt að sama marki; að gera samfélagið í Úkraínu samkeppnishæft í alþjóðlegu tilliti. Hann leggur áherslu á að efla menntun, auka enskukunnáttu, uppræta spillingu og koma upp og standa vörð um réttarríki sem allir borgarar landsins geta treyst á.
Þetta eru stór verkefni og vandasöm í samfélagi þar sem spilling hefur verið landlæg í embættismannakerfi, viðskiptalífi og meðal stjórnmálamanna. Í stað samfélags geðþótta og klíkuskapar vilja stjórnvöld í Úkraínu byggja upp samfélag þar sem mannlíf og atvinnustarfsemi þarf ekki að lúta persónulegum tiktúrum valdhafa, svo lengi sem það er í samræmi við lög.
Nýlegar upplýsingar úr könnun í Úkraínu sýndi fram á að næstum 80% af Úkraínumönnum þekkja persónulega til einhvers sem hefur fallið eða særst á vígstöðvunum við að verjast innrás Rússa. Þessar tölur sýna hvers lags hrikalegt áfall úkraínska þjóðin er að ganga í gegnum. Afleiðingar þessara hörmunga munu vafalaust hafa áhrif um langa hríð. Fyrir utan þá sem falla þá munu örkuml hrjá marga, svo ekki sé minnst á andlegar afleiðingar þess að upplifa þann hrylling sem stjórnvöld í Moskvu kjósa á degi hverjum að halda áfram að láta rigna yfir úkraínsku þjóðina.
Framtíð Úkraínu getur verið glæst og björt
Það er nefnilega ekki of oft endurtekið sem úkraínsk stjórnvöld benda ítrekað á; að Rússland getur hvenær sem er tekið ákvörðun um að stöðva stríðið með því að flytja herafla sinn af svæðum sem tilheyra öðru ríki. Ef Rússland lætur af stríðsrekstri sínum þá lýkur stríðinu. Ef Úkraína hættir að verjast þá er úti um Úkraínu.
Stjórnvöld í Kænugarði hafa sýnt ótrúlegt baráttuþrek og seiglu. Meira að segja á upphafsdögum stríðsins, þegar nánast allir spáðu snemmbúnum sigri Rússa, þá sátu stjórnmálamenn og embættismenn í loftvarnabyrgjum og undirbjuggu umsóknir Úkraínu að Evrópusambandinu.
Þær fórnir sem nú er verið að færa á vígvellinum eru færðar í þeirri von og vissu að Úkraínu standi opinn sá kostur að feta sömu leið og vinaþjóðir okkar í Eystrasaltinu; að þeim muni takast að byggja upp samfélag þar sem fólk hefur sanngjörn tækifæri, þar sem lög og réttur ríkja en ekki spilltar klíkur.
Það er ekki tilviljun að Eystrasaltsþjóðirnar eru meðal þeirra sem standa allra fremst í stuðningi við varnarbaráttu Úkraínu. Íbúar þeirra vita mætavel hversu miklu máli skiptir að hafa bundist þéttum böndum inn í öryggissamstarf og markaði Vesturlanda í upphafi aldarinnar.
Margt á eftir að koma í ljós um þróun mála í Úkraínu og enginn veit hvaða stefnu hið hryllilega innrásarstríð Rússlands mun taka. Það sem hins vegar blasir við er að með réttum ákvörðunum og í réttum félagsskap getur framtíð Úkraínu verið bæði glæst og björt. Valkostirnir eru skýrir og úkraínska þjóðin berst fyrir betri framtíð gegn afturhaldi, kúgun og spillingu. Hvar sem Ísland getur lagt lóð á vogarskálar rétts málstaðar í þeim efnum eigum við gera það.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1. júlí 2023.