Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Til eru þeir sem telja aldrei tímabært að ræða frelsið. Í umræðu um frelsið felst að ræða ríkisafskipti í lífi okkar borgaranna. Það er ekki aðeins hlutverk stjórnmálamanna að ræða málefni líðandi stundar. Stjórnmálin verða líka að snúast um hugmyndafræði og framtíðarsýn.
Stærsta og erfiðasta verkefnið fram undan í stjórnmálum er vissulega verðbólgan og efnahagsumhverfið. Það þýðir þó ekki að við eigum ekki að þora að stíga fram með hugmyndir að öðrum verkefnum sem geta skipt fjölmarga einstaklinga miklu máli.
Á liðnum þingvetri lagði ég fram mál sem lúta að frelsinu í okkar samfélagi, hvar ég tel einstaklingnum mega vera treyst af meiri mætti en nú. Hugmyndir sem eiga ekki að kosta ríkissjóð fjármuni, nokkuð sem einkennir fæst þingmannamál.
Einkarekin heilsugæsla á Akureyri
Fyrsta málið sem ég lagði fram var sú tillaga að önnur af þeim tveimur heilsugæslum sem opnaðar verða á Akureyri verði boðin út. Þannig megi auka frelsi fagstétta í heilbrigðiskerfinu til að velja sér starfsvettvang og auka frelsi íbúanna til að velja sér þjónustuveitanda. Allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu óháð rekstrarformi og það er löngu tímabært að fjölbreyttari rekstrarform verði raunin á landsbyggðinni eins og gefist hefur vel á höfuðborgarsvæðinu.
Lausasala lyfja
Þá lagði ég fram frumvarp til breytinga á lyfjalögum er miðar að því að heimila sölu lausasölulyfja í almennum verslunum. Nú þegar heimilum við verslunum með tiltekin fjarlægðarmörk frá apóteki að selja tiltekin lausasölulyf.
Með því að víkka út undanþáguheimild til að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum væri með tiltölulega einföldum hætti hægt að koma betur til móts við þarfir neytenda, auka aðgengi, auka samkeppni og lækka verð á lausasölulyfjum.
Bardagaíþróttir
Mörg hundruð einstaklingar á Íslandi iðka bardagaíþróttir. Kostir íþrótta og hreyfingar eru ótvíræðir og því lagði ég fram frumvarp til að heimila skipulagðar keppnir í bardagaíþróttum gegn leyfisveitingu frá hinu opinbera.
Í ljósi þess að flest vestræn ríki heimila þær bardagaíþróttir sem frumvarpið tekur til, m.a. Danmörk og Svíþjóð, er vandséð að almannahagsmunir á Íslandi krefjist þess að þær séu bannaðar, á meðan slíkir almannahagsmunir virðast almennt ekki fyrir hendi í öðrum ríkjum. Mikilvægt er að stjórnarskrárvarin mannréttindi borgaranna, í þessu tilviki atvinnufrelsið, séu ekki takmörkuð frekar en þörf er á og ávallt sé leitast við að tryggja frelsi einstaklinga til athafna.
Samræming aldursmarka í lögum
Víða í lögum er að finna svokölluð aldursmörk, þ.e. skilyrði um að einstaklingur hafi náð ákveðnum aldri áður en hann getur notið ákveðinna réttinda, öðlast ákveðin leyfi o.s.frv. Þá er einnig að finna efri aldursmörk, þ.e. um hámarksaldur einstaklinga svo að þeir geti öðlast ákveðin leyfi eða réttindi.
Jafnan er nú miðað við 18 ára aldur, þ.e. sjálfræðis- og fjárræðisaldur, þegar lög eru sett og ákveðið er að afmarka tiltekin réttindi við lágmarksaldur. Þetta hefur þó verið nokkuð á reiki í áranna rás og víða er miðað við annan og hærri aldur þegar sett eru skilyrði fyrir réttindum, leyfisveitingum o.s.frv. Því legg ég til að öll aldursskilyrði laga miðist við 18 ára aldur. Ekki verður séð hvaða rök standa til þess að löggjöf feli víða í sér handahófskennd aldursmörk og áskilji til að mynda á einum stað að einstaklingar verði að vera orðnir 25 ára til þess að fullnægja skilyrðum laga en á öðrum þyki rétt að miða við 20 ára aldur, í stað þess að einfaldlega sé miðað við sjálfræðisaldur í öllum tilvikum.
Útgáfa námsgagna
Fyrirhuguð er talsverð uppstokkun á stjórnsýslu menntamála. Ráðherra lagði fram frumvarp til að setja á fót nýja stofnun og leggja niður Menntamálastofnun á nýliðnu þingi. Með tillögunni átti ekki að breyta fyrirkomulagi á útgáfu námsgagna sem hefur staðið nánast óbreytt í hálfa öld.
Af þessu tilefni lagði ég fram breytingartillögu á frumvarpið sem miðaði að því að útgáfa námsgagna á grunnskólastigi yrði færð almennum bókaútgefendum. Markmiðið með því er að auka fjölbreytileika og nýsköpun við útgáfu námsgagna sem notuð eru við kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins, mæta breyttum aðstæðum í íslensku samfélagi, gera almennum bókaútgefendum kleift að hefja samkeppnisrekstur um útgáfu námsgagna og færa fyrirkomulagið nær því sem tíðkast í löndunum í kringum okkur. Málið hlaut ekki afgreiðslu á þinginu en í haust vonast ég til þess að þessi sjónarmið verði hluti af nýju frumvarpi.
Samfélag sem treystir fólki
Það er svo oft með „litlu“ frelsismálin að þau á endanum geta reynst samfélaginu risastór. Hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins byggist á þeirri grunnhugsjón að einstaklingnum sé best treyst fyrir sinni framtíð. Þess vegna hef ég lagt fram framangreind mál til að einfalda kerfin, leysa úr fjötrum krafta einstaklingsframtaksins og takmarka ónauðsynlegt tangarhald ríkisins á verkefnum sem öðrum má vel treysta til að leysa.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 27. júní 2023.