Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Ríkisvaldið er ekki og getur aldrei orðið almáttugt. Það leysir ekki hvers manns vanda. Engu að síður eru margir stjórnmálamenn gjarnir á að gefa loforð um að allt [eða flest] skuli gert fyrir alla. Sumir trúa því að hægt sé að standa við slík loforð.
Fyrir síðustu kosningar spurðu nokkrir framhaldsskólanemar mig: „Hvað ætlar þú að gera fyrir okkur?“ Nemarnir höfðu gengið á milli frambjóðenda flokkanna og krafið þá svara. Og fengið loforð – sum stór. „Ég ætla að láta ykkur í friði,“ svaraði ég, „en leita allra leiða til að tryggja að þið hafið aðgengi að öflugu menntakerfi, þar sem þið getið ræktað hæfileika ykkar, fundið farveg fyrir það sem hugurinn þráir, – menntakerfi sem býr ykkur undir lífið og gefur ykkur tækifæri í framtíðinni. Og ég mun standa við bakið á ykkur þannig að þið fáið að njóta hæfileika ykkar og dugnaðar.“
Unga fólkið var undrandi yfir svarinu, enda bjóst það við einhverju allt öðru; fyrirheitum um hækkun námslána, aukin framlög ríkisins til framhaldsskóla og háskóla eða kannski enn stærri loforð. Í mörgu lýsir svar mitt grunnhugsjónum mínum ágætlega.
Ríkisvaldið á ekki að drottna yfir borgurunum. Lifandi og opið samfélag verður ekki „hannað“ af ríkisvaldinu – stjórnmála- og embættismönnum. Stjórnarskráin og lögin eiga að mynda rammann þar sem endurspeglast samstaða borgaranna sem stjórna sér sjálfir. Ríkisvaldið á að undirbúa jarðveginn fyrir það sem Ronald Reagan kallaði skapandi samfélag, þar sem ríkisstjórn leiðir en stjórnar ekki, hlustar en gefur ekki tilskipanir.
Tilgangur ríkisvaldsins er ekki að endurskapa mannlegt eðli heldur að tryggja að hver og einn fái að lifa lífinu á sínum eigin forsendum – fái að vera eins og hann er – án þess að valda öðrum skaða. Skapandi samfélag er ekki samfélag hópa og sérhagsmuna – heldur samfélag frjálsra einstaklinga.
Sömu rætur
Hugsjónin að baki skapandi samfélagi á sér sömu rætur og hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins um sjálfstæði einstaklingsins, atvinnufrelsi og eignarrétt. Í sannfæringunni um að ríkið sé til fyrir borgarana og starfi í þeirra þágu og í umboði þeirra. Frumréttur hvers og eins er frelsi – andlegt og efnahagslegt frelsi. Æðsta takmark hvers samfélags er að tryggja einstaklingnum það frelsi sem hann þarfnast til að þess að njóta að fullu hæfileika sinna og mannkosta án þess að þrengja eða óvirða rétt annarra eða tefla öryggi eigin samfélags í hættu. Og enginn er dæmdur út frá aldri, kyni, trú, kynhneigð, stétt eða uppruna.
Sjálfstæðisflokkurinn á að efla baráttuna fyrir skapandi samfélag 21. aldarinnar. Það verður meðal annars gert með því að innleiða nýja hugsun í allt stjórnkerfið. Fá embættismenn til liðs við nýja tíma, þar sem þeir verða milliliðir milli skattgreiðenda og stjórnvalda og taka að sér að halda ríkisvaldinu í skefjum svo starfsemi ríkisins lami ekki framtakssemi einstaklinganna.
Það á að vera sameiginlegt verkefni stjórnmálamanna og embættismanna að sjá til þess að ríkið uppfylli grunnskyldur sínar – standi vörð um réttarríkið og ryðji úr vegi hindrunum sem koma í veg fyrir að einstaklingurinn blómstri. Ríkisvaldið á að vinna með borgurunum en ekki yfir þeim, standa við hlið þeirra en ekki koma í bakið á þeim. Reagan var óþreytandi að benda á að ríkið geti og eigi að fjölga tækifærunum en ekki fækka þeim, stuðla að aukinni framleiðni en ekki draga úr henni.
Skapandi samfélag brýtur niður regluverk sem hamlar atvinnusköpun og dregur úr sparnaði og fjárfestingum. Skapar skilyrði fyrir hagvöxt sem byggist á nýsköpun og frjórri hugsun einstaklinga. Samfélagið verður fjölbreyttara, skemmtilegra og opnara. Tækifærin fleiri og lífskjör allra betri.
Skapandi samfélag verður ekki til án þess að allir eigi kost á þátttöku og fái notið eigin hæfileika. Styrkleiki samfélagsins verður aldrei meiri en möguleikar einstaklinganna til koma að lausn verkefna og sameiginlegra vandamála. Ríkisvaldið er aðeins verkfæri borgaranna.
Í skapandi samfélagi finna frumkvöðullinn, framtaksmaðurinn, sjálfstæði atvinnurekandinn og listamaðurinn frjóan jarðveg. Þeir eru allir, hver með sínum hætti, drifkraftar þjóðfélagsins, aflvakar framfara, fölbreyttara mannlífs og betri lífskjara.
Þegar ýtt er undir framtak einstaklinga, með hagstæðri umgjörð skatta, einföldu regluverki, þróttmiklu menntakerfi og öflugu lista- og menningarlífi byggist upp samfélag velmegunar og velferðar.
Eftir sex ár fagnar Sjálfstæðisflokkurinn aldarafmæli sínu. Hugmyndafræðin hefur elst vel og hún er traustur vegvísir til langrar framtíðar. En hugmyndir þarf að ydda og móta í takt við tímann. Skapandi samfélag, þar sem framtaksmaðurinn fær að njóta eigin dugnaðar, skapandi listamaðurinn blómstrar, einstaklingurinn fær að vera hann sjálfur, er samfélag sem byggist á grunnstefnu sjálfstæðisstefnunnar – skapandi samfélag frelsis.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. júní 2023.