Skapandi samfélag frelsis
'}}

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Rík­is­valdið er ekki og get­ur aldrei orðið al­mátt­ugt. Það leys­ir ekki hvers manns vanda. Engu að síður eru marg­ir stjórn­mála­menn gjarn­ir á að gefa lof­orð um að allt [eða flest] skuli gert fyr­ir alla. Sum­ir trúa því að hægt sé að standa við slík lof­orð.

Fyr­ir síðustu kosn­ing­ar spurðu nokkr­ir fram­halds­skóla­nem­ar mig: „Hvað ætl­ar þú að gera fyr­ir okk­ur?“ Nem­arn­ir höfðu gengið á milli fram­bjóðenda flokk­anna og krafið þá svara. Og fengið lof­orð – sum stór. „Ég ætla að láta ykk­ur í friði,“ svaraði ég, „en leita allra leiða til að tryggja að þið hafið aðgengi að öfl­ugu mennta­kerfi, þar sem þið getið ræktað hæfi­leika ykk­ar, fundið far­veg fyr­ir það sem hug­ur­inn þráir, – mennta­kerfi sem býr ykk­ur und­ir lífið og gef­ur ykk­ur tæki­færi í framtíðinni. Og ég mun standa við bakið á ykk­ur þannig að þið fáið að njóta hæfi­leika ykk­ar og dugnaðar.“

Unga fólkið var undr­andi yfir svar­inu, enda bjóst það við ein­hverju allt öðru; fyr­ir­heit­um um hækk­un náms­lána, auk­in fram­lög rík­is­ins til fram­halds­skóla og há­skóla eða kannski enn stærri lof­orð. Í mörgu lýs­ir svar mitt grunn­hug­sjón­um mín­um ágæt­lega.

Rík­is­valdið á ekki að drottna yfir borg­ur­un­um. Lif­andi og opið sam­fé­lag verður ekki „hannað“ af rík­is­vald­inu – stjórn­mála- og emb­ætt­is­mönn­um. Stjórn­ar­skrá­in og lög­in eiga að mynda ramm­ann þar sem end­ur­spegl­ast samstaða borg­ar­anna sem stjórna sér sjálf­ir. Rík­is­valdið á að und­ir­búa jarðveg­inn fyr­ir það sem Ronald Reag­an kallaði skap­andi sam­fé­lag, þar sem rík­is­stjórn leiðir en stjórn­ar ekki, hlust­ar en gef­ur ekki til­skip­an­ir.

Til­gang­ur rík­is­valds­ins er ekki að end­ur­skapa mann­legt eðli held­ur að tryggja að hver og einn fái að lifa líf­inu á sín­um eig­in for­send­um – fái að vera eins og hann er – án þess að valda öðrum skaða. Skap­andi sam­fé­lag er ekki sam­fé­lag hópa og sér­hags­muna – held­ur sam­fé­lag frjálsra ein­stak­linga.

Sömu ræt­ur

Hug­sjón­in að baki skap­andi sam­fé­lagi á sér sömu ræt­ur og hug­mynda­fræði Sjálf­stæðis­flokks­ins um sjálf­stæði ein­stak­lings­ins, at­vinnu­frelsi og eign­ar­rétt. Í sann­fær­ing­unni um að ríkið sé til fyr­ir borg­ar­ana og starfi í þeirra þágu og í umboði þeirra. Frumrétt­ur hvers og eins er frelsi – and­legt og efna­hags­legt frelsi. Æðsta tak­mark hvers sam­fé­lags er að tryggja ein­stak­lingn­um það frelsi sem hann þarfn­ast til að þess að njóta að fullu hæfi­leika sinna og mann­kosta án þess að þrengja eða óvirða rétt annarra eða tefla ör­yggi eig­in sam­fé­lags í hættu. Og eng­inn er dæmd­ur út frá aldri, kyni, trú, kyn­hneigð, stétt eða upp­runa.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn á að efla bar­átt­una fyr­ir skap­andi sam­fé­lag 21. ald­ar­inn­ar. Það verður meðal ann­ars gert með því að inn­leiða nýja hugs­un í allt stjórn­kerfið. Fá emb­ætt­is­menn til liðs við nýja tíma, þar sem þeir verða milliliðir milli skatt­greiðenda og stjórn­valda og taka að sér að halda rík­is­vald­inu í skefj­um svo starf­semi rík­is­ins lami ekki fram­taks­semi ein­stak­ling­anna.

Það á að vera sam­eig­in­legt verk­efni stjórn­mála­manna og emb­ætt­is­manna að sjá til þess að ríkið upp­fylli grunn­skyld­ur sín­ar – standi vörð um rétt­ar­ríkið og ryðji úr vegi hindr­un­um sem koma í veg fyr­ir að ein­stak­ling­ur­inn blómstri. Rík­is­valdið á að vinna með borg­ur­un­um en ekki yfir þeim, standa við hlið þeirra en ekki koma í bakið á þeim. Reag­an var óþreyt­andi að benda á að ríkið geti og eigi að fjölga tæki­fær­un­um en ekki fækka þeim, stuðla að auk­inni fram­leiðni en ekki draga úr henni.

Skap­andi sam­fé­lag brýt­ur niður reglu­verk sem haml­ar at­vinnu­sköp­un og dreg­ur úr sparnaði og fjár­fest­ing­um. Skap­ar skil­yrði fyr­ir hag­vöxt sem bygg­ist á ný­sköp­un og frjórri hugs­un ein­stak­linga. Sam­fé­lagið verður fjöl­breytt­ara, skemmti­legra og opn­ara. Tæki­fær­in fleiri og lífs­kjör allra betri.

Skap­andi sam­fé­lag verður ekki til án þess að all­ir eigi kost á þátt­töku og fái notið eig­in hæfi­leika. Styrk­leiki sam­fé­lags­ins verður aldrei meiri en mögu­leik­ar ein­stak­ling­anna til koma að lausn verk­efna og sam­eig­in­legra vanda­mála. Rík­is­valdið er aðeins verk­færi borg­ar­anna.

Í skap­andi sam­fé­lagi finna frum­kvöðull­inn, fram­taksmaður­inn, sjálf­stæði at­vinnu­rek­and­inn og listamaður­inn frjó­an jarðveg. Þeir eru all­ir, hver með sín­um hætti, drif­kraft­ar þjóðfé­lags­ins, aflvak­ar fram­fara, föl­breytt­ara mann­lífs og betri lífs­kjara.

Þegar ýtt er und­ir fram­tak ein­stak­linga, með hag­stæðri um­gjörð skatta, ein­földu reglu­verki, þrótt­miklu mennta­kerfi og öfl­ugu lista- og menn­ing­ar­lífi bygg­ist upp sam­fé­lag vel­meg­un­ar og vel­ferðar.

Eft­ir sex ár fagn­ar Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn ald­araf­mæli sínu. Hug­mynda­fræðin hef­ur elst vel og hún er traust­ur veg­vís­ir til langr­ar framtíðar. En hug­mynd­ir þarf að ydda og móta í takt við tím­ann. Skap­andi sam­fé­lag, þar sem fram­taksmaður­inn fær að njóta eig­in dugnaðar, skap­andi listamaður­inn blómstr­ar, ein­stak­ling­ur­inn fær að vera hann sjálf­ur, er sam­fé­lag sem bygg­ist á grunn­stefnu sjálf­stæðis­stefn­unn­ar – skap­andi sam­fé­lag frels­is.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. júní 2023.