Aukið fé til heilbrigðismála er ekki sjálfstætt markmið

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Á þessu ári verða útgjöld ríkissjóðs vegna heilbrigðismála  hátt í 350 milljarðar samkvæmt fjárlögum. Frá árinu 2017 hefur raunaukning þessara útgjalda verið um 40%.

Samt er því statt og stöðugt haldið fram að íslenska heilbrigðiskerfið sé fjársvelt. Þetta er staðhæfing sem sumir kollega minna á Alþingi halda mjög gjarnan á lofti, ósjaldan með tilvísunar til og samanburðar við nágrannalönd okkar. Af þeim sökum lagði ég fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra þar sem ég spurði um útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála í alþjóðlegum samanburði. Þar óskaði ég sérstaklega eftir því að tekið væri tillit til aldurssamsetningar þjóðarinnar, og jafnframt eftir svari við því af hverju þyrfti að taka sérstakt tillit til þessa þegar útgjöld til heilbrigðismála væru skoðuð og borin saman.

Heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurninni munnlega í þinginu á dögunum. Hann tók undir að það væri nauðsynlegt að setja hlutina í eitthvað samhengi við samanburð milli landa og var afdráttarlaus varðandi þýðingu aldurs þjóðarinnar í þessu samhengi. Heilbrigð skynsemi leiðir mann auðvitað til þessarar niðurstöðu, þ.e.a.s. að aldur þjóðar hafi mikla þýðingu þegar verið er að skoða og bera saman framlög til heilbrigðismála. Eða eins og heilbrigðisráðherra benti á þá eykst sjúkdómsbyrði eftir því sem við eldumst.

Við höfum stóraukið framlög til heilbrigðismála á Íslandi á undanförnum árum. Tölurnar ljúga ekki – þarna verður ekki um villst. Reyndar er það svo að þegar við skoðum fjárlög síðustu (hreinu) vinstri stjórnar hér, fjárlögin 2013, þá voru framlög til heilbrigðismála um 426 þús. krónur per landsmann. Sú fjárhæð núvirðist í um 600 þús. krónur. Samkvæmt núgildandi fjárlögum er gert ráð fyrir um 885 þús. króna framlagi per landsmann.

En heilbrigðisráðherra var ekki síður afdráttarlaus þegar hann sagði að aukið fjármagn til heilbrigðismála ætti ekki að vera sjálfstætt markmið, heldur árangur, aðgangur og gæði heilbrigðisþjónustunnar. Enda mælir samanburður á fjárframlögum til heilbrigðisþjónustu ekki hvernig framlögin nýtast eða hver árangur þjónustunnar er.

Þessi orð eru í tíma töluð. Þrátt fyrir að útgjöld til heilbrigðismála hafi aldrei verið hærri og aukist verulega undanfarin fimm ár, er staðan í heilbrigðiskerfinu okkar ekki eins og best verður á kosið. Það er nefnilega ekki lögmál að hærri framlög leiði til betri þjónustu. Við ættum þess í stað að leita allra leiða til að fara vel með fjármuni í heilbrigðiskerfinu og nýta þá sem best, með það að markmiði að ná sem bestum árangri. Þessi sjónarmið fara því miður ekki hátt í umræðunni um heilbrigðiskerfið.

Síðan er það annað mál að framlög okkar til heilbrigðismála vekja upp aðrar spurningar. Við verjum, eðlilega, hlutfallslega minna til málaflokksins en mörg lönd sem við berum okkur gjarnan saman við. Það skýrist sem sé af aldurssamsetningu þjóðarinnar. En ætti skattbyrðin hér þá ekki að vera léttari sem því nemur? Í hvað annað verja íslensk stjórnvöld skattpeningunum okkar? Ekki fara þeir t.a.m. í varnarmálin. Ég hef óskað eftir svörum við þessu frá fjármála- og efnahagsráðherra og fróðlegt verður að sjá þau.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 9. júní 2023