Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir miklum fjárhagslegum áskorunum. Mikilvægt er að borgarstjórn nái sem fyrst saman um aðgerðir til að binda enda á hallarekstur og langt tímabil skuldasöfnunar. Ekki verður undan því komist að knýja fram verulega hagræðingu. Fresta þarf, eða fella niður, allar framkvæmdir sem ekki eru aðkallandi í þágu grunnþjónustu.
Bágborið ástand margra fasteigna borgarinnar sýnir að ekki verður undan því vikist að ráðast í umfangsmikið viðhaldsátak. Uppsöfnuð viðhaldsskuld skóla- og frístundahúsnæðis nemur t.d. um þrjátíu milljörðum króna.
Hagkvæm hönnun mikilvæg
Vegna bágs fjárhags er ljóst að slíkt viðhaldsátak verður fjárhagsleg áskorun fyrir borgina. Forgangsraða þarf í þágu vanrækts og fyrirbyggjandi viðhalds en jafnframt að nýta betur það fé sem rennur til slíkra endurbóta.
Þá þarf að gera aukna kröfu um að nýbyggingar séu hannaðar þannig að þær verði sem hagkvæmastar. Ýmsar byggingar Reykjavíkurborgar eru of dýrar í rekstri og viðhaldi vegna þess að of lítil áhersla hefur verið lögð á þetta atriði. Á það ekki síst við þegar efnt er til hönnunarsamkeppni en þá virðist glæsileiki oft vega þyngra en byggingarkostnaður mannvirkisins eða notagildi þess til framtíðar.
Grófarhús í forgangi
Grófarhús, Tryggvagata 15, hýsir nú aðalsafn Borgarbókasafns, Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Þegar söfnin flutti í húsið um síðustu aldamót, var ráðist í miklar og kostnaðarsamar endurbætur á húsinu í þágu safnanna. Grófarhús þjónar hlutverki sínu vel og eru notendur safnanna ánægðir með þjónustu þeirra. Grófarhús er í ágætu ásigkomulagi og ætti því ekki að vera efst á lista viðhalds og endurbóta hjá borginni.
Vegna alvarlegrar fjárhagsstöðu borgarinnar sætir furðu hversu mikil áhersla er lögð á umbreytingu Grófarhúss. Á síðasta ári samþykkti borgarráð að efna til hönnunarsamkeppni vegna gagngerrar endurgerðar og ,,stórkostlegra breytinga“ á húsinu. Óhætt er að segja að vinningstillagan feli í sér glæsilega en jafnframt fokdýra umbreytingu hússins. Í umsögn dómnefndar segir að tillagan svari vel væntingum um fjölbreytilegan ævintýra- og fróðleiksheim fyrir fólk á öllum aldri. Áætlað er að verja 50 milljónum króna til áframhaldandi hönnunar hússins á þessu ári.
Kostnaður varla undir 10 milljörðum
Ljóst er að kostnaður við umbreytingu Grófarhúss verður gífurlegur. Samkvæmt svari við nýlegri fyrirspurn minni um málið nemur frumkostnaðaráætlun verkefnisins (sem gerð var árið 2020) 5.449 milljónum á núgildandi verðlagi. Reynslan hefur kennt okkur að slík endurbyggingarverkefni fari yfirleitt hressilega fram úr áætlunum. Því þarf að taka umræddri frumkostnaðaráætlun með fyrirvara enda eru vikmörk í henni mikil vegna óvissuþátta, sem hæglega má gera ráð fyrir að geti orðið +50%. Gangi það eftir gæti kostnaðurinn numið 8.174 milljónum króna miðað við þessa þriggja ára gömlu frumkostnaðaráætlun.
Nokkra kostnaðarþætti vantar í frumkostnaðaráætlunina. T.d. kostnað við hönnun 1.219 fermetra viðbyggingar Grófarhúss að innan, sem hefur ekki enn verið kostnaðarmetin. Þá felur talan hvorki í sér kostnað við flutning borgarstofnana í eða úr húsnæðinu né viðbótarkostnað við að leysa húsnæðisþörf þeirra annars staðar.
Umrædd frumkostnaðaráætlun frá 2020 virðist að auki miðast við að farið verði í hefðbundna endurgerð hússins. Ekki algera umbreytingu, innan stokks sem utan, þar sem ekkert verður til sparað, eins og vinningstillagan felur í sér. Ljóst er að heildarkostnaður við verkefnið verður varla undir 10 milljörðum króna eða miklu hærri en sú frumkostnaðaráætlun, sem unnið er eftir í verkefninu.
Umbreyting Grófarhúss er aðeins ein af mörgum framkvæmdum hjá borginni sem verður að taka til endurskoðunar ef raunverulegur sparnaður á að nást. Ekki er verjandi að ráðast í svo dýra framkvæmd, sem þar að auki felur í sér mikla kostnaðaráhættu, á meðan húsnæði skóla og annarrar grunnþjónustu liggur undir skemmdum vegna vanrækslu. Um það ætti að geta náðst samstaða í borgarstjórn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. júní 2023.