Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Þá er Alþingi enn og aftur að samþykkja beina ríkisstyrki til einkarekinna fjölmiðla enda hefur löggjafinn ekki haft burði til að móta heilbrigðan jarðveg fyrir rekstur sjálfstæðra fjölmiðla. Og það virðist borin von að meirihluti þingmanna geti tekið saman höndum við að koma böndum á ríkisfyrirtæki sem litlu eirir eða vinna gegn strandhöggi erlendra stórfyrirtækja.
Enn og aftur tók ég ákvörðun um að styðja ekki stjórnarfrumvarp um ríkisstyrki. En það skal viðurkennt að ég hef staðið frammi fyrir valþröng. Annars vegar er ég sannfærður um að fátt sé hættulegra fyrir sjálfstæða fjölmiðla en að verða fjárhagslega háðir fjárveitingavaldinu og hins vegar er staða þeirra þannig – vegna þess hversu rangt er gefið á fjölmiðlamarkaði – að þeir styrkir sem mælt er fyrir í frumvarpinu skipta rekstur þeirra töluverðu máli. Líta má á beina ríkisstyrki sem eins konar skaðabætur til einkarekinna fjölmiðla vegna þess tjóns sem ríkisrekstur veldur þeim á hverjum einasta degi. Eða kannski er réttara að segja að styrkirnir séu verkjalyf svo sjúklingurinn tóri þrátt fyrir óheilbrigt umhverfi.
Allt frá því að ég tók fyrst sæti á Alþingi hef ég látið mig málefni frjálsra fjölmiðla skipta. Hef verið gagnrýninn – á stundum óvæginn – á rekstur og umfang Ríkisútvarpsins. Lagt fram hugmyndir og tillögur um hvernig hægt er að tryggja eitthvert jafnræði á fjölmiðlamarkaði og byggja undir fjárhagslegt sjálfstæði einkarekinna fjölmiðla. Það verður að viðurkennast að uppskeran er rýr, líkt og enn eitt frumvarpið um beina ríkisstyrki er óræk sönnun um. En ég gefst ekki upp. Það er of mikið í húfi.
Þið þekkið fílinn
Fjölmiðlar, umhverfi þeirra og þá ekki síst erfið staða einkarekinna fjölmiðla hafa reglulega verið á dagskrá þingsins á síðustu árum. Ekki aðeins í tengslum við frumvörp heldur ekki síður í sérstökum umræðum. Í janúar 2018 tók ég þátt í umræðum um stöðu sjálfstæðra fjölmiðla og sagði meðal annars um hlutverk og skyldur stjórnvalda og ekki síst þingmanna:
„Við eigum að búa til umhverfi þar sem frjálsir fjölmiðlar, sjálfstæðir fjölmiðlar, ná að blómstra, ná að festa rætur þannig að þeir geti sinnt hlutverki sínu. Það er staðreynd að miðað við það fyrirkomulag sem við höfum haft er búið að skekkja stöðuna á þann hátt að ekki verður við unað.“
Ég bætti við:
„Fíllinn í stofunni heitir Ríkisútvarpið.“
Þessi orð féllu ekki öllum háttvirtum þingmönnum í geð. En hvernig er hægt að lýsa stöðunni með öðrum hætti? Í krafti fjárhagslegra yfirburða með lögþvingaðri skylduáskrift grefur ríkisfyrirtækið undan sjálfstæðum miðlum. Leiðarahöfundur Viðskiptablaðsins líkir háttsemi ríkisins á samkeppnismarkaði við iðnaðarryksugu: „Ríkisútvarpið er eins og iðnaðarryksuga á íslenska auglýsingamarkaðnum, þar sem einkareknu miðlarnir reyna að sjúga upp smámolana sem risinn náði ekki. Í gegnum árin hefur þessi ráðahagur eðlilega haft mikil áhrif á rekstur einkarekinna fjölmiðla og framboðið. Síðasta fórnarlambið var Fréttablaðið.“
En samkeppnin er ekki aðeins á sviði auglýsinga heldur má ríkið ekki sjá neitt hreyfast – ekki sjá sprota lifna við hjá einkaaðilum í fjölmiðlum. Þess vegna hefur Ríkisútvarpið talið sér rétt og skylt að hasla sér völl á sviði sérstakra hlaðvarpsþátta. Engu er líkara en ríkið sjái ofsjónum yfir því þegar einstaklingum tekst að finna litla syllu í fjölmiðlum. Eitt er öruggt. Vel heppnaðri og vinsælli dagskrárgerð einkarekinna sjónvarps- og útvarpsstöðva er alltaf mætt af Efstaleiti.
Allt er þetta gert í krafti þeirra milljarða sem landsmenn þurfa að greiða ríkinu í formi nefskatts – útvarpsgjalds – á hverju ári. Og í skjóli þess að ólíkt sjálfstæðum fjölmiðlum þarf Ríkisútvarpið ekki að standa reikningsskil á því sem gert er gagnvart lesendum, áhorfendum og hlustendum líkt og einkareknir fjölmiðla þurfa að gera. Ríkismiðillinn er ekki undir agavaldi hlustandans, áskrifandans, lesandans og áhorfandans.
Ríkisrekstur í samkeppni
Við spyrjum ekki nægilega oft og skýrt einfaldrar spurningar: Til hvers erum við að reka ríkisfyrirtæki og –félög?
Oft virðist svarið augljóst. Almenn samstaða og lítill ágreiningur er um að ríkið eigi dreifikerfi raforku og stærsta fyrirtækið í orkuframleiðslu, a.m.k. að stærstum hluta. Á meðan við viljum tryggja fullveldi okkar í peningamálum verðum við að eiga og reka seðlabanka. Almenn efnahagsleg skynsemi liggur að baki því að við sameiginlega byggjum upp öflugt hátæknisjúkrahús, en það kemur ekki í veg fyrir að kraftar einkaframtaksins séu nýttir til að veita öfluga heilbrigðisþjónustu. Póstþjónusta hefur verið í höndum ríkisins, án mikils ágreinings, en tækniframfarir hafa hægt og bítandi gert ríkisreksturinn óþarfan, a.m.k. í núverandi mynd. Hið sama má segja um rökin að baki ríkisrekstri í fjölmiðlun. Það er a.m.k. eftirtektarvert að röksemdum um mikilvægt öryggishlutverk Ríkisútvarpsins er ekki lengur haldið hátt á loft, enda fyrirtækið brugðist í þeim efnum og tæknin og einkareknir fjölmiðlar tekið yfir hlutverkið.
Vonandi verður þetta í síðasta skipti sem þingið telur sér skylt að afgreiða lagafrumvarp um beina ríkisstyrki til sjálfstæðra fjölmiðla.