Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Á dögunum undirritaði forseti Úganda löggjöf sem gengur lengst allra landa í andstöðu við réttindi hinsegin fólks. Þannig liggur nú m.a. dauðarefsing við samkynhneigð í ríkinu, en lögin voru samþykkt á þingi Úganda í mars með yfirgnæfandi meirihluta. Löggjöfin hefur þegar vakið upp hörð viðbrögð og fordæmingu, bæði innan Úganda og frá lýðræðisríkjunum.
Skilaboð forseta þingsins í Úganda voru þau að með þessu væri þjóðin að verja menningu sína og gildi. Einn helstu stuðningsmanna málsins í þinginu sagði það vera táknrænan sigur yfir Bandaríkjunum og Evrópu.
Stefna Íslands í þróunarsamvinnu byggir á mannréttindamiðaðri nálgun. Ísland starfrækir sendiráð í Úganda þar sem við höfum átt þróunarsamvinnu frá árinu 2000. Þessi nálgun byggir á þeirri forsendu að mannréttindabrot séu ein orsaka annarra vandamála í þróunarríkjum, s.s. misskiptingar, fátæktar eða spillingar, en ekki afleiðing. Mannréttindi eru þannig grundvallarforsenda þess að hægt sé að leysa úr vanda þróunarríkja til frambúðar.
Raunveruleg staða mannréttinda í Úganda er mjög bágborin og fer síst batnandi. Hinsegin fólk í Úganda óttast nú um líf sitt sem aldrei fyrr. Nýja löggjöfin er enda uppskrift að enn frekari og kerfisbundnum brotum í garð þess. Þá er raunveruleg hætta á útbreiðsluáhrifum til annarra ríkja í Afríku sem muni líta til fordæmis þessarar lagasetningar.
Þessar vendingar hafa verið og verða áfram til umfjöllunar hjá okkur sem sitjum í utanríkismálanefnd Alþingis og utanríkisráðherra hefur málið í skoðun. Mér þykir það borðliggjandi að við þurfum að ígrunda næstu skref í samstarfi okkar við Úganda vel. Og auðvitað þurfum við að hafa samráð við vinaþjóðir okkar sem líka starfa í landinu. Ef staða mannréttinda heldur áfram að versna þrátt fyrir áratuga samvinnu Úganda við okkur og líkt þenkjandi ríki, er e.t.v. kominn tími til að beina kröftunum þangað sem er jarðvegur fyrir raunverulegar breytingar og framþróun.
Greinin birtist fyrst á Vísi 7. júní 2023