Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Við skulum halda því til haga að í flestu hefur okkur gengið vel sem samfélagi. Viðspyrnan gegn erfiðum samdrætti vegna kórónufaraldursins tókst betur hér á landi en í flestum öðrum löndum. Heimili og fyrirtæki voru varin með samþættum aðgerðum ríkisstjórnar og Seðlabankans.
Voru aðgerðir ríkissjóðs of viðamiklar? Kann að vera. Lækkaði Seðlabankinn vexti of mikið? Það er hugsanlegt. En allt er þetta eftiráspeki. Aðalatriðið er að vörnin tókst eins og sést vel á þeirri staðreynd að í gegnum allt kófið jókst kaupmáttur launa. Seðlabankinn bendir á að á undanförnum þremur árum, þ.e. frá upphafi farsóttarinnar, jókst kaupmáttur launa um að meðaltali 2% á ári hér á landi en til samanburðar dróst hann saman um 1% á ári í öðrum Evrópuríkjum og um 0,3% í Bandaríkjunum.
Heimilin og fyrirtækin nýttu sér góðan varnarleik á liðnu ári. Hagvöxtur var 6,4%. Þetta er mesti hagvöxtur sem mælst hefur síðan árið 2007. Vöxturinn var drifinn áfram af miklum vexti innlendrar eftirspurnar, sérstaklega einkaneyslu sem jókst um 8,6% milli ára. Í peningamálum Seðlabankans kemur fram að svo virðist sem hagvöxtur á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi verið töluvert meiri en spáð var í febrúar og því er útlit fyrir að hann verði meiri á árinu í heild eða 4,8% í stað 2,6%.
Horfurnar hér á landi eru að þessu leyti betri en víðast hvar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reiknar með að hagvöxtur í heiminum verði 2,8% á þessu ári – töluvert lakari en á því síðasta. Hagvöxtur minnkar einkum í þróuðum ríkjum, fer úr 2,7% í fyrra í 1,3% í ár. Þótt hagvaxtarhorfur hafi batnað á evrusvæðinu frá síðustu spám sjóðsins eru þær áfram lakar. Vöxtur efnahagslífsins í Evrópusambandinu verður aðeins 1% á þessu ári.
Í alþjóðlegum samanburði stöndum við ágætlega að þessu leyti og mun betur en flest ríki Evrópu. En hvað með garminn hann ríkissjóð, sem var rekinn með gríðarlegum halla í varnaraðgerðum gegn farsóttinni?
Á síðasta ári er áætlað að hallinn hafi verið 3,5% af landsframleiðslu sem er ríflega 4 prósentum minna en á árinu á undan. Batinn á síðasta ári var meiri en hann var að jafnaði á meðal annarra þróaðra ríkja sem við berum okkur saman við. Skuldir eru með því lægsta sem þekkist en eru sannanlega of miklar og fjármagnskostnaður of hár. Sem hlutfall af landsframleiðslu verða skuldir hins opinbera hér á landi um 40% en 83% í löndum Evrópusambandsins.
Það reynir á alla
Stærsta og erfiðasta verkefnið á komandi mánuðum er verðbólgan. Og það mun reyna á ríkisstjórnina, Seðlabankann og aðila vinnumarkaðarins. Og það mun reyna á stjórnarandstöðuna.
Það blasir við að auka verður aðhald í fjármálum hins opinbera – ríkis og sveitarfélaga. Við getum ekki hegðað okkur líkt og strúturinn og stungið hausnum í sandinn. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að útgjöld ríkissjóðs hafa hækkað að raunvirði um 39% – að frátöldum vaxtagjöldum – frá árinu 2017 eða um liðlega 346 milljarða króna. Þetta er liðlega 10 milljörðum hærri fjárhæð en áætlað er að fari til heilbrigðiskerfisins á þessu ári; í sjúkrahús, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, lyf og lækningavörur.
Vissulega hefur ríkisstjórnin forgangsraðað í þágu velferðarmála. Þannig verða framlög til heilbrigðismála um 88 milljörðum króna hærri á þessu ári en 2017 – árið sem ríkisstjórnin tók við völdum. Að raunvirði hafa framlög til málefna aldraðra hækkað um 22% og til öryrkja og fatlaðra um 31%.
Við höfum hins vegar gengið of langt í útgjöldum og í fjármálaáætlun 2024 til 2028, sem er til meðferðar á Alþingi, verður að auka aðhald á næstu tveimur árum. Höfum í huga að aukið aðhald á útgjaldahlið hefur jafnan meiri og hraðari áhrif á efnahagsumsvif en aðhaldsaðgerðir á tekjuhlið – fyrir utan að þær valda oftar en ekki ófyrirséðum skaða.
Aðhald og lægri skuldir
Breyttar aðstæður og verri þróun verðbólgunnar og þá sérstaklega auknar verðbólguvæntingar kalla á að gripið verði til enn meira aðhalds í ríkisfjármálum en áður var talið nauðsynlegt. Og til lengri tíma verður að vinna skipulega að því að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs, m.a. með sölu ríkiseigna og niðurgreiðslu skulda.
Aukið aðhald hjá hinu opinbera auðveldar Seðlabankanum verkefnið og dregur úr þörfinni fyrir frekari vaxtahækkanir, sem geta ef of langt er gengið bitið í skottið á sér. Og aðilar vinnumarkaðarins verða að slást í liðið. Á komandi mánuðum og misserum er ekki svigrúm til hækkunar raunlauna. Verkefnið er að verja þá miklu kaupmáttaraukningu sem hefur náðst á síðustu árum og byggja grunn fyrir frekari sókn til bættra kjara. Það er hins vegar eðlileg krafa verkalýðshreyfingarinnar að ríkið komi til móts við þá sem lakast standa líkt og ríkisstjórnin ætlar að gera með hækkun greiðslna almannatrygginga í júní og hefur gert með hækkun húsnæðisbóta, barnabóta, persónuafsláttar og þrepamarka tekjuskatts. Og það er sanngjarnt og nauðsynlegt að fyrirtækin gæti hófs og velti ekki öllum kostnaðarhækkunum út í verðlagið.
Heimurinn hefur þurft að glíma við hvert áfallið á fætur öðru síðustu ár. Aðstæður hafa verið fordæmalausar. Heimurinn er enn að glíma við afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveirunnar og styrjaldar í Evrópu sem leiddu til alvarlegra framboðshnökra og verulegrar hækkunar orku- og hrávöruverðs. Efnahagslegur árangur okkar Íslendinga síðustu ár var því ekki sjálfgefinn. Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að varðveita þennan árangur og verja kjör þeirra sem lakast standa.
Gamall fjandi hefur látið á sér kræla á síðustu mánuðum og hann verður ekki kveðinn niður nema með auknu aðhaldi í búskap hins opinbera samhliða skynsamlegum kjarasamningum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2023.