Stærsta og erfiðasta verkefnið
'}}

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Við skul­um halda því til haga að í flestu hef­ur okk­ur gengið vel sem sam­fé­lagi. Viðspyrn­an gegn erfiðum sam­drætti vegna kór­ónufar­ald­urs­ins tókst bet­ur hér á landi en í flest­um öðrum lönd­um. Heim­ili og fyr­ir­tæki voru var­in með samþætt­um aðgerðum rík­is­stjórn­ar og Seðlabank­ans.

Voru aðgerðir rík­is­sjóðs of viðamikl­ar? Kann að vera. Lækkaði Seðlabank­inn vexti of mikið? Það er hugs­an­legt. En allt er þetta efti­r­á­speki. Aðal­atriðið er að vörn­in tókst eins og sést vel á þeirri staðreynd að í gegn­um allt kófið jókst kaup­mátt­ur launa. Seðlabank­inn bend­ir á að á und­an­förn­um þrem­ur árum, þ.e. frá upp­hafi far­sótt­ar­inn­ar, jókst kaup­mátt­ur launa um að meðaltali 2% á ári hér á landi en til sam­an­b­urðar dróst hann sam­an um 1% á ári í öðrum Evr­ópu­ríkj­um og um 0,3% í Banda­ríkj­un­um.

Heim­il­in og fyr­ir­tæk­in nýttu sér góðan varn­ar­leik á liðnu ári. Hag­vöxt­ur var 6,4%. Þetta er mesti hag­vöxt­ur sem mælst hef­ur síðan árið 2007. Vöxt­ur­inn var drif­inn áfram af mikl­um vexti inn­lendr­ar eft­ir­spurn­ar, sér­stak­lega einka­neyslu sem jókst um 8,6% milli ára. Í pen­inga­mál­um Seðlabank­ans kem­ur fram að svo virðist sem hag­vöxt­ur á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi verið tölu­vert meiri en spáð var í fe­brú­ar og því er út­lit fyr­ir að hann verði meiri á ár­inu í heild eða 4,8% í stað 2,6%.

Horf­urn­ar hér á landi eru að þessu leyti betri en víðast hvar. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn reikn­ar með að hag­vöxt­ur í heim­in­um verði 2,8% á þessu ári – tölu­vert lak­ari en á því síðasta. Hag­vöxt­ur minnk­ar einkum í þróuðum ríkj­um, fer úr 2,7% í fyrra í 1,3% í ár. Þótt hag­vaxt­ar­horf­ur hafi batnað á evru­svæðinu frá síðustu spám sjóðsins eru þær áfram lak­ar. Vöxt­ur efna­hags­lífs­ins í Evr­ópu­sam­band­inu verður aðeins 1% á þessu ári.

Í alþjóðleg­um sam­an­b­urði stönd­um við ágæt­lega að þessu leyti og mun bet­ur en flest ríki Evr­ópu. En hvað með garm­inn hann rík­is­sjóð, sem var rek­inn með gríðarleg­um halla í varn­araðgerðum gegn far­sótt­inni?

Á síðasta ári er áætlað að hall­inn hafi verið 3,5% af lands­fram­leiðslu sem er ríf­lega 4 pró­sent­um minna en á ár­inu á und­an. Bat­inn á síðasta ári var meiri en hann var að jafnaði á meðal annarra þróaðra ríkja sem við ber­um okk­ur sam­an við. Skuld­ir eru með því lægsta sem þekk­ist en eru sann­an­lega of mikl­ar og fjár­magns­kostnaður of hár. Sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu verða skuld­ir hins op­in­bera hér á landi um 40% en 83% í lönd­um Evr­ópu­sam­bands­ins.

Það reyn­ir á alla

Stærsta og erfiðasta verk­efnið á kom­andi mánuðum er verðbólg­an. Og það mun reyna á rík­is­stjórn­ina, Seðlabank­ann og aðila vinnu­markaðar­ins. Og það mun reyna á stjórn­ar­and­stöðuna.

Það blas­ir við að auka verður aðhald í fjár­mál­um hins op­in­bera – rík­is og sveit­ar­fé­laga. Við get­um ekki hegðað okk­ur líkt og strút­ur­inn og stungið hausn­um í sand­inn. Við verðum að horf­ast í augu við þá staðreynd að út­gjöld rík­is­sjóðs hafa hækkað að raun­v­irði um 39% – að frá­töld­um vaxta­gjöld­um – frá ár­inu 2017 eða um liðlega 346 millj­arða króna. Þetta er liðlega 10 millj­örðum hærri fjár­hæð en áætlað er að fari til heil­brigðis­kerf­is­ins á þessu ári; í sjúkra­hús, heil­brigðisþjón­ustu utan sjúkra­húsa, hjúkr­un­ar- og end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu, lyf og lækn­inga­vör­ur.

Vissu­lega hef­ur rík­is­stjórn­in for­gangsraðað í þágu vel­ferðar­mála. Þannig verða fram­lög til heil­brigðismála um 88 millj­örðum króna hærri á þessu ári en 2017 – árið sem rík­is­stjórn­in tók við völd­um. Að raun­v­irði hafa fram­lög til mál­efna aldraðra hækkað um 22% og til ör­yrkja og fatlaðra um 31%.

Við höf­um hins veg­ar gengið of langt í út­gjöld­um og í fjár­mála­áætl­un 2024 til 2028, sem er til meðferðar á Alþingi, verður að auka aðhald á næstu tveim­ur árum. Höf­um í huga að aukið aðhald á út­gjalda­hlið hef­ur jafn­an meiri og hraðari áhrif á efna­hags­um­svif en aðhaldsaðgerðir á tekju­hlið – fyr­ir utan að þær valda oft­ar en ekki ófyr­ir­séðum skaða.

Aðhald og lægri skuld­ir

Breytt­ar aðstæður og verri þróun verðbólg­unn­ar og þá sér­stak­lega aukn­ar verðbólgu­vænt­ing­ar kalla á að gripið verði til enn meira aðhalds í rík­is­fjár­mál­um en áður var talið nauðsyn­legt. Og til lengri tíma verður að vinna skipu­lega að því að lækka fjár­magns­kostnað rík­is­sjóðs, m.a. með sölu rík­is­eigna og niður­greiðslu skulda.

Aukið aðhald hjá hinu op­in­bera auðveld­ar Seðlabank­an­um verk­efnið og dreg­ur úr þörf­inni fyr­ir frek­ari vaxta­hækk­an­ir, sem geta ef of langt er gengið bitið í skottið á sér. Og aðilar vinnu­markaðar­ins verða að slást í liðið. Á kom­andi mánuðum og miss­er­um er ekki svig­rúm til hækk­un­ar raun­launa. Verk­efnið er að verja þá miklu kaup­mátt­ar­aukn­ingu sem hef­ur náðst á síðustu árum og byggja grunn fyr­ir frek­ari sókn til bættra kjara. Það er hins veg­ar eðli­leg krafa verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar að ríkið komi til móts við þá sem lak­ast standa líkt og rík­is­stjórn­in ætl­ar að gera með hækk­un greiðslna al­manna­trygg­inga í júní og hef­ur gert með hækk­un hús­næðis­bóta, barna­bóta, per­sónu­afslátt­ar og þrepa­marka tekju­skatts. Og það er sann­gjarnt og nauðsyn­legt að fyr­ir­tæk­in gæti hófs og velti ekki öll­um kostnaðar­hækk­un­um út í verðlagið.

Heim­ur­inn hef­ur þurft að glíma við hvert áfallið á fæt­ur öðru síðustu ár. Aðstæður hafa verið for­dæma­laus­ar. Heim­ur­inn er enn að glíma við af­leiðing­ar heims­far­ald­urs kór­ónu­veirunn­ar og styrj­ald­ar í Evr­ópu sem leiddu til al­var­legra fram­boðshnökra og veru­legr­ar hækk­un­ar orku- og hrávöru­verðs. Efna­hags­leg­ur ár­ang­ur okk­ar Íslend­inga síðustu ár var því ekki sjálf­gef­inn. Það er sam­eig­in­legt verk­efni stjórn­valda og aðila vinnu­markaðar­ins að varðveita þenn­an ár­ang­ur og verja kjör þeirra sem lak­ast standa.

Gam­all fjandi hef­ur látið á sér kræla á síðustu mánuðum og hann verður ekki kveðinn niður nema með auknu aðhaldi í bú­skap hins op­in­bera sam­hliða skyn­sam­leg­um kjara­samn­ing­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2023.